05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

68. mál, lán Byggðasjóðs til Flugfisks - Flateyri hf.

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. hans svör. Ég vil taka það skýrt fram að ég get haft fulla samúð með fyrirtækjum sem eru sett niður af eigendum þeirra víðs vegar um landið og eru að basla við að koma upp einhvers konar iðnaði. Það sem ég held að hér skipti máli er að annaðhvort er þá að styðja við bakið á þessum fyrirtækjum eða ekki. En það er alveg ljóst að öll afgreiðsla á þessu máli er til háborinnar skammar og það getur Alþingi ekki látið afskiptalaust.

Í stjórn Framkvæmdastofnunar sátu sex alþingismenn þegar þessi afgreiðsla fór fram og haft er eftir formanni stjórnar Framkvæmdasjóðs, Stefáni Guðmundssyni hv. alþm., að þegar stjórn Framkvæmdastofnunar ákvað í sumar að veita fyrirtækinu og aðaleigendum þess 2 millj. kr. lán úr Byggðasjóði var stjórnarmönnum ljóst að veð fyrir lántökunni voru ekki örugg. Þetta er haft eftir hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og Guðmundi Malmquist sem var lögfræðingur stofnunarinnar. Þeir segja, með leyfi forseta: „Var það sérstaklega bókað að lánið skyldi veitt með þeim veðum sem bjóðast.“

2 millj. kr. lánið var veitt út á 18. og 19. veðrétt lýsistanksins sem hv. þm. geta séð á myndinni og 4, og 5. veðrétt í húsinu við hliðina á íbúðarhúsinu. Það sér hver heilvita maður að þetta er bara pappírsgagn, þetta nálgast ekki að vera veð fyrir einu eða neinu.

Stefán Guðmundsson hv. þm. heldur áfram: „Við vissum að veð væru ekki glæsileg en töldum að með þessu láni væri hægt að bjarga fyrirtækinu. Við vissum að fyrirtækið stóð tæpt en álitum að ef framleiðsla þess á plaströrum fyrir Vegagerðina kæmist á legg gæti það rétt við.“ Hann sagði jafnframt að ekki væri algengt að stofnunin lánaði gegn ótryggum veðum og sagði að í svona tilvikum væri e.t.v. hreinlegast að veita beina styrki.

Í Morgunblaðinu er viðtal við Steingrím Eiríksson lögfræðing Iðnlánasjóðs sem einnig á stórfé hjá fyrirtækinu. Hann sagði að það hefði verið staðfast álit starfsmanna sjóðsins að nægar tryggingar væru fyrir lánum Iðnlánasjóðs til eigenda Flugfisks. Iðnlánasjóður veitti fyrirtækinu sjö lán á árunum 1980-1983, samtals að fjárhæð 654 000 kr. og lánin voru veitt með veði í lýsistanknum. Iðnlánasjóður sendi uppboðsbeiðni á lýsistanknum til sýslumannsins á Ísafirði í ársbyrjun 1984 en af hálfu sjóðsins var þess síðan óskað að beðið yrði með uppboðsaðgerðir og stendur málið þannig enn þann dag í dag. Þá getur það ekki hafa verið neitt leyndarmál að fyrirtækið stóð ákaflega höllum fæti ári seinna þegar Framkvæmdastofnun kom til sögunnar. Það er kannske óvarlegt að geta þess en sögusagnir ganga um það að Vegagerðin hafi gert samning við fyrirtækið um kaup á plaströrum. Það hef ég ekki getað fengið staðfest en eitt veit ég að Vegagerðin sótti alla vega birgðir af plaströrum sem til voru eftir að búið var lýst gjaldþrota og hefur þrotabúið að sjálfsögðu gert athugasemd við það.

Ég er rétt að ljúka máli mínu, herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað lesa hér, með leyfi forseta, en ég ætla ekki einu sinni að biðja um það því tími minn er búinn, IV kafla laga um Framkvæmdastofnun ríkisins sem hér var farið eftir. Sá fjallar um lánadeild. En þar er gert ráð fyrir að lánadeild hafi með höndum starfrækslu Framkvæmdasjóðs og Byggðasjóðs, hún semji árlega áætlun um fjáröflun og útlán Framkvæmdasjóðs Íslands og vinni í samvinnu við aðrar stofnanir að því að samræma þessa áætlun lánsfjáráætlun ríkisstjórnarinnar. Síðan er talað um að opinberar stofnanir eigi að hafa samráð um uppbyggingu byggðarlaga og notkun fjár til þess.

Ég er alveg sannfærð um, hv. þm. og herra forseti, að hér er ekki um neitt einsdæmi að ræða og það er það sem gerir þetta mál alvarlegt. Ég vil taka skýrt fram að þeir sem hér eiga hlut að máli hafa áreiðanlega barist hetjulegri baráttu við að halda fyrirtæki sínu gangandi. En ljóst er að sú aðstoð, sem það fólk hefur fengið úr opinberum sjóðum, er fyrir neðan allar hellur og úr takti við raunveruleikann. Það sem ég er að gera athugasemd við er að svona megum við ekki fara með opinbert fé. Við verðum að sjá til þess að allt það fjármagn, sem lánað er til uppbyggingar atvinnuveganna í landinu, sé lagt í fyrirtæki sem einhver von er um að skili arði og til þess eru hv. alþm. kjörnir, að gæta þessara hagsmuna allrar þjóðarinnar.