14.04.1986
Efri deild: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3767 í B-deild Alþingistíðinda. (3466)

295. mál, sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstvirtur forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um sakadóm í ávana- og fíkniefnamálum eins og það liggur fyrir eftir afgreiðslu Nd. á því máli á þskj. 847.

Frv. þetta fjallar að stofni til um sama efni og núgildandi lög um sérstakan dómara og rannsóknardeild í ávana- og fíkniefnamálum nr. 52/1973. Meginbreytingin sem lögð er til með frv. þessu er að færa frumrannsókn frá dómstólum til lögreglu, svo sem gert var í öðrum málaflokkum með stofnun rannsóknarlögreglu ríkisins skv. lögum nr. 108/1976 og breytingu á lögum um meðferð opinberra mála með lögum nr. 107 1976.

Samkvæmt núgildandi lögum tekur sakadómurinn við málum á rannsóknarstigi og gengur frá þeim til ríkissaksóknara ef þeim verður ekki lokið með dómsátt fyrir sakadómi.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir að það sé lögregla á hverjum stað sem annast lögreglurannsókn í fíkniefnamálum eins og öðrum málum og þannig hefur það verið í reynd. Hér í Reykjavík hefur starfað sérstök deild fíkniefnarannsókna innan Reykjavíkurlögreglunnar og gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að auka samvinnu og samstarf milli lögsagnarumdæma á þessu sviði. T.d. hefur sá maður sem starfar sérstaklega að fíkniefnamálum í Hafnarfirði verið ráðinn hjá þessari deild hér í Reykjavík. Nú er verið að fjölga mönnum í þessari deild þar sem þörfin er mjög brýn. Það er því verið að reyna að efla þessa starfsemi sem vissulega er þörf á.

Önnur aðalbreyting þessa frv. er hins vegar sú, og sú eina sem er í reynd frá því sem verið hefur, að lögreglan sendi mál síðan beint til ríkissaksóknara til ákvörðunar um ákæru í stað þess að þau séu send fíkniefnadómara sem millilið. Það er gert til þess að reyna að hraða afgreiðslu mála.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.