14.04.1986
Efri deild: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3773 í B-deild Alþingistíðinda. (3474)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki hefja umræður um þetta mikla mál þó að ærin ástæða væri til þess miðað við ýmislegt sem hér hefur komið fram í umræðunni svo maður tali nú ekki um eftir að hafa hlýtt á fræðilegan upplestur á erindum ýmissa hagfræðinga sem hefur einnig komið upp í ræðum manna.

Það sem mig langar að koma inn á er bara áhersluatriði. Hér hefur komið fram gagnrýni og virðist vera að menn blandi saman talsvert miklu í sambandi við hin almennu sveitarstjórnarmál, blandi inn í sérlögum um tekjustofna sveitarfélaga og verkefnaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Ég vil skýra frá því hér að til meðferðar er nú hjá ríkisstj. nýtt frv. til laga um tekjustofna sveitarfélaga frá nefnd sem skilaði af sér fyrir nokkru. Það verður til meðferðar í vor og sumar og væntanlega sent til umsagnar ýmissa aðila í þjóðfélaginu þannig að um það fæst mjög mikil umfjöllun áður en þing kemur saman í haust. Á samráðsfundi sem haldinn verður bráðlega milli ríkis og sveitarfélaga verður það mál rætt og einnig hafinn undirbúningur að verkefnatilflutningi sem hlýtur að koma í kjölfarið á þessu. En lykillinn að því að þetta verður meðfærilegra en hefur reynst á undanförnum áratugum er einmitt það nýja frv. sem hér er til lokaafgreiðslu sem opnar ýmsa möguleika fyrir sveitarfélögin að takast á við þessi verkefni á nýjan hátt. Ég vil segja það við þá sem ekki hafa fylgst með á undanförnum árum að það hefur kannske farið fram hjá þeim að sveitarfélögin hafa lagt á þetta gífurlega mikla áherslu og rætt um þetta á fundum og þingum sínum. Landsþing sveitarfélaga hafa gert ákveðnar ályktanir um hvernig sveitarstjórnarmenn vilja haga þessum málum. Fulltrúaráðsfundir hafa um þetta fjallað og núna upp á síðkastið hafa sveitarstjórnarmenn lagt alveg gífurlega áherslu á uppstokkun í sveitarstjórnarlagafrv. sem hér liggur fyrir. Ég vil aðeins rifja það upp að síðasti fulltrúaráðsfundur sveitarfélaga, sem haldinn var núna fyrir stuttu síðan, 27. 28. febrúar s.l., sendi Alþingi ákveðna ályktun þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Fulltrúaráð Sambands ísl. sveitarfélaga skorar á Alþingi að samþykkja á þessu þingi frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga.“

Þetta er rammi sem sýnir hvaða áherslu þeir menn sem vinna að þessum málum út um allt Ísland, bæði í þéttbýli og dreifbýli, leggja á þessi mál.

Ég verð að mótmæla því, sem hér kom fram fyrr í dag, sérstaklega hjá hv. 6. landsk. þm., að menn sem unnu þetta frv. hefðu lítið komið nálægt þessum málum eða vissu lítið um hvernig hin raunverulegu sveitarstjórnarmál eru eða fara fram. Það er þvert á móti. Þetta frv. er að aðalstofni til unnið af þaulreyndum sveitarstjórnarmönnum sem hafa rætt um þetta árum saman og þekkja alla þræði þeirra áhersluatriða sem þarf að leggja mesta áherslu á í sambandi við þetta. Hins vegar er ljóst að það eru skiptar skoðanir um þetta, en síðasta landsþing sveitarfélaga lagði eindregið til að stjórnsýslustigin í landinu yrðu aðeins tvö, þ.e. ríki og sveitarfélög. Ég ætla ekki að fara að ræða um það hér. Það hefur oft borið á góma í þessum umræðum og í ritum og grg. sem fram hafa verið settar á ýmsum stigum. Það kemur í ljós hvort menn telja að það henti í okkar fámenni að taka upp það kerfi sem aðrar stórþjóðir hafa komið á hjá sér en eru margar að gefast upp

við eða glíma við ágalla þess, sbr. Norðmenn og Svía. Ég ætta ekki, virðulegi forseti, að fara að tefja tímann í ræðuhöldum. Ég vil aðeins láta það koma fram í þessari umræðu að ég mun að lokinni samþykkt þessa frv., sem ég vona að verði, skipa nefnd til að fylgjast með yfirfærslu verkefna og eigna sýslufélaga til sveitarfélaga og héraðsnefnda. Ætlast ég til að nefndinni sé falið að gera tillögur að reglugerð vegna þessara breytinga. Jafnframt gæti nefndin, eftir því sem þurfa þykir, gert tillögur til breytinga á lögum um þau efni sem varða verksvið hennar. Það er alveg ljóst og það vita allir, sem nálægt þessum málum koma, að það mun að sjálfsögðu þurfa að gera einhverjar breytingar á framkvæmd margra þeirra atriða sem hér koma fram, en til þess þarf að vera tími í þessum lagaramma. Ég reikna með því að nefndin verði skipuð fulltrúum frá félmrn., Sambandi ísl. sveitarfélaga og Sýslumannafélagi Íslands.

Ég vil einnig láta það koma fram hér að félmrn. mun gera sérstakt átak til að aðstoða minni sveitarfélögin við að kanna hagkvæmni aukinnar samvinnu og eða sameiningar við nágrannasveitarfélög og beita sér fyrir fjárstuðningi við litlu sveitarfélögin í slíkum tilvikum. Þetta er eitt af þeim atriðum sem hefur hamlað á undanförnum árum gegn eðlilegri samvinnu eða samruna sveitarfélaga. Þau óttast fjárskort í sambandi við þetta og þetta er eitt af þeim atriðum sem þessi lög opna umræðu fyrir.

En til þess að draga úr áhyggjum ýmissa þm. af að það verði of skammur tími til að fjalla um þessi mál leyfi ég mér hér með, virðulegi forseti, að leggja fram brtt. við ákvæði til bráðabirgða I, það er í niðurlagi 1. málsgr. þess. Þar komi ártalið 1988 í stað 1987, þ.e. að kosning sýslunefnda vorið 1986 fer fram skv. ákvæðum IV. kafla laga nr. 58 29. mars 1961 með síðari breytingum og skulu þær fara með umboð þar til sveitarfélög eða byggðasamlög geta tekið við verkefnum þeirra, en þó ekki lengur en til 31. desember 1988 með þessari breytingu.

Það er mín skoðun að eðlilegt sé að gera þessa breytingu nú þó að það þýði að frv. þarf að fara aftur til Nd. Ég hygg að þarna sé verið að greiða fyrir því að þessi samskipti verði viðráðanlegri og þessi breyting, sem þarna er sett fram í frv., verði til þess að menn geti betur sætt sig við frv., þar sem menn hafa þarna lengri tíma til aðlögunar. Ég legg þessa brtt. fram, virðulegi forseti.