15.04.1986
Neðri deild: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (3483)

368. mál, selveiðar við Ísland

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að endurtaka það sem ég hef áður sagt við þessa umræðu. Ef frv. er samþykkt í óbreyttri mynd er staðan þessi:

1. Landeigendur eiga einir rétt til nýtingar selveiði á jörðum sínum, þar á meðal skotveiði.

2. Ráðherra gæti í samráði við lögbundna aðila bannað veiðar á ákveðnum svæðum eða sett reglur um framkvæmd þeirra skv. 6. gr. Reglur þessar mundu þó ekki skerða rétt einstakra landeigenda til nýtingar réttar síns innan netalaga.

Yrði hins vegar þessi brtt. samþykkt kæmi upp sú staða að allar skotveiðar innan línunnar yrðu óheimilar án samráðs við landeigendur. Við það sköpuðust þau vandamál í fyrsta lagi hver er landeigandi utan netlaga jarða, en í öðru lagi er vandséð hvernig hægt væri að hafa samráð við þann fjölda eigenda sem land og eyjar eiga við og í stórum hlutum Breiðafjarðar.

Mér er fullkomlega ljóst að það verður að tryggja að ekki skapist það ástand á Breiðafirði að menn gangi þar um og sigli eftir því sem hver vill og skjóti. Það má að sjálfsögðu ekki gerast. Ráðuneytið mun að sjálfsögðu sjá til þess að svo verði ekki og tryggja þann tilgang sem fram kemur í þessari brtt., en ef brtt. er samþykkt sé ég ekki betur en hún sé óframkvæmanleg og segi nei.