15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3809 í B-deild Alþingistíðinda. (3490)

215. mál, ráðningar í lausar stöður embættismanna

Fjmrh. (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það atriði sem hér er spurt um er eðli máls samkvæmt á valdi einstakra ráðuneyta að framkvæma og fyrir því skrifaði fjmrn. öllum ráðuneytum bréf í framhaldi af því að fsp. þessi var lögð fram á Alþingi og óskaði eftir svörum frá þeim. Af svörum ráðuneytanna virðist almennt mega ráða að 5. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um auglýsingar á lausum stöðum sé fylgt að því er varðar allar viðameiri stöður og embætti og þegar um er að ræða fyrirhugaða ráðningu til frambúðar.

Þess ber þó að geta að stundum er ráðið í lausar stöður tímabundið án þess að allra formsatriða 5. gr. laga nr. 38/1954 sé gætt. Á þetta t.d. við um stöður skrifstofufólks og störf innan heilbrigðiskerfisins. Þarna eiga oft í hlut stórar stofnanir þar sem starfsmannaskipti eru ör og svigrúm því oft lítið til að fylgja ströngum formreglum. Eru þess jafnvel dæmi að ráðið sé í slíkar stöður án auglýsingar, enda talið illmögulegt af forstöðumönnum að sinna heilsugæslu og reka sjúkrahús án þess að gripið sé í einhverjum tilvikum til slíkra úrræða.

Í svörum ráðuneytanna varðandi 2. og 3. tölulið fsp. kemur ekki fram að um nein sérstök frávik sé að ræða frá 5. gr. áðurgreindra laga umfram það sem þegar hefur verið gerð grein fyrir undir 1. tölulið. Rétt er hins vegar að taka fram að fjmrn. er ekki kunnugt um að embætti hafi verið veitt án þess að þau hafi verið auglýst með tilskildum fyrirvara í Lögbirtingablaði.