15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3810 í B-deild Alþingistíðinda. (3493)

230. mál, aukastörf embættismanna

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Hæstvirtur forseti. Ég hef beint til hæstv. fjmrh. fsp. sem varðar aukastörf embættismanna og störf þeirra í þágu eigin atvinnurekstrar.

„1. Hvernig er af hálfu ráðuneytanna gengið úr skugga um að fullnægt sé lagaákvæðum um aukastörf starfsmanna ríkisins, sbr. 34. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins?

2. Er algengt að embættismenn gegni öðrum launuðum stöðum í þágu ríkisins hjá einkaaðilum eða við eigin atvinnurekstur?

3. Ef svo er, í hvers konar tilvikum og hvernig reynist slíkt geta átt sér stað án þess að vanrækslu valdi eða ósamrýmanlegt sé stöðu embættisins og þeim störfum er henni fylgja?"

Herra forseti. Ég hef spurt um þetta vegna þess að það hefur annað slagið komið upp að mikið sé um það að menn gegni öðrum launuðum störfum og þá sérstaklega í þágu eigin atvinnurekstrar meðfram störfum hjá ríkinu og tel þess vegna ástæðu til þess að spyrja um og fá svör við því hvort það sé rétt. Ef það er rétt, sem í mörgum tilvikum virðist vera samkvæmt úttektum sem gerðar hafa verið á vegum blaðanna og nýverið á einu sérstöku atviki á vegum Helgarpóstsins, er allra hluta vegna rétt og skylt að fá fram svör við því hér á hinu háa Alþingi.