05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

68. mál, lán Byggðasjóðs til Flugfisks - Flateyri hf.

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Mér þykir rétt að það komi fram í þessari umræðu að ég held að það sé almennt viðurkennt að Byggðasjóður tekur meiri áhættu en aðrir fjárfestingalánasjóðir og sættir sig oft við veð sem eru lakari en öðrum sjóðum er heimilt að viðurkenna. Mér er kunnugt af mínu starfi á fyrri árum í Byggðastofnun að þetta var iðulega gert, tekin áhætta, vissulega að vandlega athuguðu máli. Sem betur fer tókst í langflestum tilfellum að bjarga viðkomandi fyrirtæki frá hruni - það er hægt að rekja mjög mörg tilfelli þess eðlis - en að sjálfsögðu ekki öllum. Þetta er eitt af þeim tilfellum þar sem það tókst ekki.

Ég vil jafnframt taka undir það sem kom fram í orðum hæstv. iðnrh. að þeir einstaklingar, sem þarna eiga hlut að máli, hafa hætt öllu sínu, eftir þeim upplýsingum sem ég fæ, þótt þessu hafi verið breytt í hlutafélag. Þessu var breytt í hlutafélag til að reyna að fá aðra hluthafa með. Mér er tjáð að ýmsir hafi verið með það í athugun að gerast jafnframt hluthafar í nýju hlutafélagi, en að sjálfsögðu varð það ekki þegar fljótlega varð ljóst að jafnvel með þessari aðstoð tækist þessum einstaklingum ekki að koma fyrirtækinu á réttan kjöl.