15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3817 í B-deild Alþingistíðinda. (3504)

388. mál, sparnaður í ráðuneytum

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Þau staðfesta nú kannske helst það að þrátt fyrir góðan vilja, sem gera verður ráð fyrir, hafi ekki náðst mikill árangur í því að reyna að fylgja eftir sparnaðaráformum ríkisins, enda átti ég þess ekki beinlínis von. Það virðist þurfa dálítið þrek til að koma á ærlegum breytingum. Eftir höfðinu dansa limirnir og þegar höfuðið leyfir sér að láta skattborgarana kosta sig á handboltamót í útlöndum er varla von að vel gangi að hafa hemil á lægra settum.

En það sem hæstv. ráðh. nefndi er allra góðra gjalda vert. Ég átti kannske von á að reynt yrði að fastmóta einhverjar tillögur, eitthvað meira en bara tilmæli til ráðuneytanna, enda má búast við að eitthvað misjafnlega verði eftir þeim tilmælum farið. Ef marka má þær fréttir sem maður heyrir sýnist mér að það geti orðið eitthvað lítið um veisluhöld í árslok. Fjárveitingin er einfaldlega uppurin.

En það er varðandi risnuna. Ég er hrædd um að þar sé töluvert bruðlað og ekki vanþörf á ákveðnari aðhaldsreglum þar. Mig hefur stundum furðað á því hversu auðvelt það virðist fyrir hina og þessa hópa að herja út hanastél eða matarboð hjá ráðherrum. Það koma hingað varla svo erlendir hópar eða gestir á ráðstefnu að þeir séu ekki meira og minna í opinberum veislum og alls konar félagasamtök innlendar ráðstefnur, námsmannahópar og fleiri virðast fara létt með að herja út dagamun hjá einhverjum ráðherranna. Ég vil eindregið hvetja ráðherrann til þess að athuga þessi mál vel. Gestrisni er góð, en fyrr má nú stundum vera.

Það hafa orðið töluverðar umræður um þessi mál utan þings og innan, einkanlega varðandi ferða- og risnukostnað ríkisstarfsmanna og þá einkum ráðherranna sjálfra sem mönnum finnst eðlilegt að gangi á undan með góðu fordæmi. En ég held að það veiti ekkert af því að beina ljósinu að þessum efnum öðru hverju, ekki síst ef það mætti verða til þess að veita eitthvert aðhald.

Í svari hæstv. ráðh. við fsp. hv. þm. Kristínar S. Kvaran fyrr í vetur kom m.a. fram að í a.m.k. einu tilviki fékk ráðherra dagpeninga sem voru langt yfir þeirri upphæð sem fjölmargir þurfa að láta sér nægja til mánaðar framfærslu og ég vil aðeins í framhaldi af þessu spyrja hæstv. fjmrh. hvort honum finnist eðlilegt að opinberir starfsmenn á Íslandi fái yfirleitt mun hærri dagpeninga á ferðalögum erlendis en bandarískir starfsbræður þeirra, eins og fram kom í Morgunblaðinu nýlega.