15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3821 í B-deild Alþingistíðinda. (3511)

411. mál, starf flugmálanefndar

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Með bréfi dagsettu 4. febr. 1984 skipaði ég nefnd til að vinna að tillögugerð um framkvæmdir í flugmálum. Í nefndinni eiga sæti Birgir Ísl. Gunnarsson alþm., sem er formaður hennar, Andri Hrólfsson stöðvarstjóri, Garðar Sigurðsson alþm., Ragnhildur Hjaltadóttir deildarstjóri, dr. Þorgeir Pálsson verkfræðingur og Kristján Egilsson flugstjóri.

Í samræmi við skipunarbréf sitt hefur nefndin skilað áfangaskýrslu um tillögugerð vegna framkvæmda í flugmálum ásamt tillögu að þremur sérverkefnum, Egilsstaðaflugvelli, varaflugvelli fyrir millilandaflug og flugstöð á Reykjavíkurflugvelli. Almenn áætlun um uppbyggingu flugvalla er á lokastigi og mun nefndin væntanlega skila af sér endanlega innan skamms.

Svar við síðari spurningunni: Nefndin hefur lagt til að byggð verði ný flugbraut vestan við núverandi braut nær Lagarfljóti. Nefndin hefur rætt allnokkuð um hugsanlega fjármögnun þessarar framkvæmdar, hefur m.a. verið athugað hvort mögulegt er að fjármagna þessa framkvæmd að einhverju leyti úr norrænum þróunarsjóðum. Einn möguleiki sem til greina gæti komið í því efni er að fá fjármagn úr sjóði sem ekki hefur enn verið stofnaður en ákvörðun mun verða tekin um innan skamms. Er hér um að ræða þróunarsjóð fyrir Norðurlönd í vestri eða Nordvest eins og sjóðurinn hefur verið nefndur, þ.e. Grænland, Ísland og Færeyjar. Að öðru leyti telur nefndin að fjármagna beri þessa framkvæmd með fé á fjárlögum.

Nefndin hefur talið að þetta framkvæmdatímabil verði þrjú ár. Út af orðum fyrirspyrjanda, að mjög takmarkað framlag hafi verið til framkvæmda í flugmálum, þá er það rétt hjá honum, en hins vegar vil ég geta þess að það hefur orðið mikil aukning á rekstri og í öryggismálum í flugmálum á síðustu árum og þegar á heildarframlög til flugmála er litið er um óhemjuhá framlög að ræða á meðan bygging flugstöðvarinnar í Keflavík stendur yfir. En þetta á ekki að tefja fyrir framkvæmd þessa máls. Það hefur verið unnið mikið undirbúningsstarf í sambandi við Egilsstaðaflugvöll og því fyrr verður hægt að byrja sem þeim undirbúningi miðar áfram.