15.04.1986
Sameinað þing: 74. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3825 í B-deild Alþingistíðinda. (3518)

390. mál, sparnaður í rekstri Tryggingarstofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin sem sanna að enn, þótt fjórðungur fjárlagaársins sé liðinn, hefur ekki verið tekið á þessum málum. Ég held reyndar, vegna þess sem sagt var áðan, að það ætti að vera unnt að ná fram umtalsverðum sparnaði á a.m.k. einu sviði og það er hvað varðar lyfjakostnað sem er stór liður í útgjöldum ríkisins.

Í ár er lyfjakostnaður áætlaður nálægt 700 millj. kr., en auk þess er lyfjakostnaður drjúgur hluti af útgjöldum í rekstri sjúkrahúsa þannig að samanlagt mundi þessi útgjaldaliður nálgast 1 milljarð kr. Nú eru margir þeirrar skoðunar að með samstilltum aðgerðum mætti spara verulega á þessum lið án þess að það komi í nokkru niður á neytendum og ég legg áherslu á að Kvennalistinn hafnar öllum hugmyndum um aukna þátttöku neytenda í heilbrigðisþjónustunni. En læknar hafa sjálfir gagnrýnt það sem þeir kalla óhóflegan lyfjakostnað og bent á að vissum flokkum t.d. sýklalyfja sé ávísað miklu meira en í nágrannalöndum okkar. T.d. hefur Pétur Pétursson læknir á Bolungarvík bent á þetta og fullyrt að notkun sýklalyfja mætti að skaðlausu minnka niður í þriðjung af því sem hún nú er. Mundu við það sparast jafnvel 50-100 millj. kr. á ári. Þá má nefna þá gagnrýni, sem einnig kemur úr röðum lækna, að í mörgum tilvikum sé ávísað á dýr lyf þar sem ódýrari lyf kæmu að sama gagni og hefur verið lagt til að ábendingum um lyfjaverð og lyfjaval yrði dreift til lækna u.þ.b. tvisvar ári til að ná niður kostnaði af þessum sökum. Þá hefur sú gagnrýni oft skotið upp kollinum að sumum læknum sé of laus höndin við ávísun lyfja sem notuð eru sem fíknilyf og með siðbót í þeim efnum mætti draga enn úr lyfjakostnaði ríkisins. Það sakar svo ekki að minna á að ofnotkun fíknilyfja hefur í ofanálag í för með sér ýmsar aukaverkanir sem leiða til kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.

Það er því í mínum huga ekki vafi á að sparnaðaraðgerðir á þessu sviði væru til góðs hvernig sem á er litið. En ég vil leggja enn og aftur áherslu á að hagur neytenda sé hafður í fyrirrúmi og sjúklingar ekki látnir líða fyrir sparnaðaraðgerðir hjá Tryggingastofnun ríkisins.