15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3828 í B-deild Alþingistíðinda. (3523)

407. mál, utanríkismál

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Með árlegum umræðum um utanríkismál gefst þm. færi á að ræða um Ísland og íslenska hagsmuni í alþjóðlegu samhengi. Á tímum örtölvutækni og fulkominna samgangna erum við ekki þeir einbúar sem við áður vorum. Stundum virðist þó að ekki hafi allir gert sé grein fyrir þessu. Atburðir í fjarlægum heimsálfum hafa oft á tíðum áhrif á líf okkar ekki síður en annarra jarðarbúa. Við erum þátttakendur í margþættum alþjóðlegum eða fjölþjóðlegum samtökum og samvinnu, auk tvíhliða samskipta við aðrar þjóðir, sem ekki er aðeins rétt heldur líka nauðsynlegt að fjalla um.

Íslendingar taka þátt í 36 alþjóðasamtökum, að Sameinuðu þjóðunum og hinum 16 sérstofnunum þeirra meðtöldum, sem við erum aðilar að. Íslensk sendiráð og fastanefndir eru í 11 borgum, en við höfum stjórnmálasamband við 80 ríki. Íslenskir sendiherrar eru tilkynntir hjá 59 ríkjum og fastafulltrúar eru hjá allmörgum alþjóða- eða milliríkjastofnunum.

Er ég tók við embætti utanríkisráðherra lýsti ég yfir óbreyttri stefnu ríkisstj. í utanríkismálum og jafnframt lýsti ég yfir að áfram yrði haldið því frumkvæði Íslendinga í öryggis- og varnarmálum sem hafist var handa um í tíð forvera míns, Geirs Hallgrímssonar. Eigi að síður er ljóst að nýjar áherslur fylgja nýjum mönnum og hefur m.a. komið fram að ég muni leggja sérstaka áherslu á þann þátt í störfum utanríkisþjónustunnar er lýtur að stuðningi við útflutningsatvinnuvegina.

Ég mun nú fyrst fara nokkrum orðum um forsendur og framkvæmd íslenskrar utanríkisstefnu, þá ræði ég nánar um þær nýju áherslur í störfum utanríkisþjónustunnar, sem ég gat um, fjalla um afvopnunarmál, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, málefni fjarlægra heimshluta og þróunarsamvinnu. Að endingu fer ég fáeinum orðum um utanríkisþjónustuna.

Frá upphafi hefur íslensk utanríkisstefna miðað að því að tryggja frelsi þjóðarinnar og sjálfsákvörðunarrétt í landinu. Vitaskuld hafa margvíslegir þættir haft áhrif á mörkun stefnunnar eða öllu heldur með hvaða hætti henni hefur verið framfylgt. Það hafði mikil áhrif við hvaða aðstæður Íslendingar urðu að taka öll sín mál í eigin hendur snemma í síðari heimsstyrjöldinni. Skyndilega var lítilli þjóð, sem lifði ein í afskekktu landi, kippt inn í átök þar sem barist var um sjálfa undirstöðuna: lýðræði, frelsi og framtíð vestrænnar menningar.

Fram að þeim tíma hafði íslensk utanríkisstefna, að svo miklu leyti sem hún var yfirleitt til, tekið mið af sambandinu við Dani. Saga okkar, sjálfstæðisbaráttan, menningararfurinn, eðli sambandsins við Dani, auk annarra þátta, gerði það að verkum að afstaðan sem Íslendingar voru neyddir til að taka var í hæsta máta eðlileg og rökrétt framhald þeirra forsendna sem ég gat um. Ekkert annað kom til greina en að við Íslendingar skipuðum okkur í sveit með lýðræðisþjóðunum gegn ofríki nasista og síðar kommúnista.

Eftir styrjöldina báru Sovétríkin ægishjálm yfir önnur ríki Evrópu hernaðarlega. Ýmsir atburðir þá urðu þess valdandi að vestræn ríki fundu sig knúin til að mynda með sér varnarbandalag til að verjast þeirri ógnun sem þeim stafaði af útþenslustefnu alræðisaflanna.

Frá því að við tókum framkvæmd utanríkisstefnunnar í eigin hendur hefur öðru fremur þurft að taka mið af öryggishagsmunum. Íslendingar hafa verið aðilar að Norður-Atlantshafsbandalaginu, varnarbandalagi vestrænna þjóða, og með þeim hætti lagt sitt af mörkum til að tryggja frið, en um leið eyða óvissu í okkar heimshluta. Þegar Íslendingar tóku ákvörðun um aðildina að Atlantshafsbandalaginu nutu þeir viturlegrar stefnumörkunar og ákvörðunar um sjálfstæði íslensku þjóðarinnar 1944.

Varnarsamstarfið hefur veitt öllum ríkjum í hinum vestræna heimi það öryggi sem er forsenda efnahagslegra og félagslegra framfara í þessum heimshluta. Rétt er að hafa hugfast að frjáls milliríkjaviðskipti og önnur samvinna vestrænna ríkja hafa átt sér stað innan ramma öflugra varna. Þau ríki í Vestur-Evrópu, sem standa utan varnarsamstarfsins, hafa einnig notið góðs af þeirri samvinnu. Ákvörðun Spánverja um að ganga til liðs við Atlantshafsbandalagið er vitnisburður um aukinn skilning vestrænna þjóða á gildi samstöðu þeirra á sviði varna.

Þegar í upphafi aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu var ljóst að sakir smæðar yrði ekki um beina þátttöku að ræða í hernaðarlegu tilliti. Framlag Íslands hefur verið að leggja til aðstöðu, svonefnd varnarsvæði. Á grundvelli Atlantshafssáttmálans hafa Bandaríkjamenn lagt fram liðsafla og tæki til reksturs varnarstöðvarinnar. Landið hefur lykilhlutverki að gegna hvað varðar tengsl aðildarríkja bandalagsins annars vegar í Norður-Ameríku og hins vegar í Vestur-Evrópu og eftirlit með samgönguleiðum í lofti, á legi og neðansjávar.

Á undanförnum árum hafa miklar breytingar átt sér stað á höfunum umhverfis Ísland. Sovéski flotinn hefur á þessum tíma breyst úr tiltölulega veikburða strandvarnaflota í stærsta úthafsflota veraldar. Öflugastur fjögurra flota Sovétríkjanna er norðurflotinn sem hefur bækistöð sína á Kólaskaga. Þar hafa einnig bækistöð 2/3 hlutar þeirra kafbáta Sovétmanna sem bera langdræg kjarnavopn.

Þessi flotastyrkur er ekki aðeins ógnun við samgönguleiðir Atlantshafsbandalagsins heldur og við öryggi Íslands. Yfirráð á höfunum varða eyþjóð eins og okkur afar miklu. Það snertir siglingar okkar eigin skipa og aðdrætti til landsins. Aukin umsvif norðurflotans, á sama tíma og flotaveldi Atlantshafsríkjanna hefur minnkað, eru alvarlegt umhugsunarefni.

Flotaæfingar norðurflotans undan ströndum Íslands á s.l. sumri undirstrika hernaðarlegt mikilvægi landsins. Það mikilvægi ræðst öðru fremur af landfræðilegri legu þess í Norður-Atlantshafi. Varnarliðið eitt sér, eða annar varnarviðbúnaður hér á landi, eykur hvorki né dregur úr hernaðarlegu mikilvægi landsins. Varnarliðið hefur á hinn bóginn afgerandi áhrif á aðstöðu Atlantshafsbandalagsins til að fylgjast með hernaðarumsvifum umhverfis Ísland. Mikilvægt er því að varnarliðið sé ávallt búið bestu tækjum sem völ er á hverju sinni, en um bætta aðstöðu varnarliðsins og framkvæmdir á vegum þess er fjallað í sérstökum kafla skýrslunnar.

Reynslan hefur ráðið miklu um afstöðu okkar Íslendinga í öryggis- og varnarmálum, en sú afstaða hvílir líka á staðreyndum. Af reynslunni drögum við þann lærdóm að varnarsamstarf vestrænna ríkja hefur tryggt okkur frið og öryggi í landinu. Af staðreyndunum drögum við þá ályktun að samstarfsins sé enn þörf, ekki síst vegna ógnvekjandi uppbyggingar sovéska norðurflotans. Reynslan af útþenslustefnu Sovétríkjanna var kveikjan að stofnun Atlantshafsbandalagsins. Staðreyndin er að hernaðarmáttur Sovétríkjanna er margfalt meiri nú en við lok heimsstyrjaldarinnar.

Eins og ég vék að hér að framan drögum við Íslendingar þann lærdóm af sögunni að miklu varðar fyrir heill þjóðarinnar hver ræður höfunum umhverfis Ísland. Við höfum notið góðs af greiðum og frjálsum samgöngum að og frá landinu. Þessu frelsi okkar stafar ógn af gífurlegri flotauppbyggingu Sovétríkjanna, þar sem það er staðreynd að þau stefna að því leynt og ljóst að færa áhrifasvæði sitt út á heimshöfunum.

Íslensk utanríkisstefna birtist einnig með öðrum hætti. Vil ég í því sambandi minna annars vegar á viðskiptamálin og hins vegar á landhelgisbaráttuna. Í þeirri baráttu fóru hagsmunir okkar ekki saman við hagsmuni sumra bandalagsþjóða okkar í Atlantshafsbandalaginu. Þá sýndi það sig að samstarf Atlantshafsþjóðanna var okkur styrkur.

Ég undirstrika í þessu sambandi að þótt Íslendingar taki sjálfsagt tillit til sameiginlegra hagsmuna ríkja Atlantshafsbandalagsins í öryggis- og varnarmálum stöndum við fast á okkar eigin hagsmunum þegar svo ber undir. Það gerðum við í landhelgismálinu og það gerum við einnig í öðrum málum þótt minni séu að umfangi. Flutningar fyrir varnarliðið að og frá landinu eru dæmi um þetta, en um þá flutninga hafa staðið deilur vegna einokunar bandarísks skipafélags á flutningunum. Í skýrslunni kemur fram að í þessu máli hafa Íslendingar sýnt mikla biðlund sem senn er á þrotum. Ég hef gert Bandaríkjastjórn grein fyrir því að þessu ástandi verði að linna án tafar, enda er núverandi fyrirkomulag hjá Bandaríkjamönnum algjörlega andstætt þeim frjálsu viðskiptaháttum sem báðar þjóðirnar aðhyllast.

Um langan aldur höfum við Íslendingar tekið þátt í samstarfi og samvinnu norrænna þjóða. Samstarfið hefur farið fram á vettvangi Norðurlandaráðs síðan 1952, en um starfsemi ráðsins er árlega fjallað í sérstakri skýrslu til Alþingis sem nú hefur verið lögð fram. Landfræðileg lega Íslands gerir það hins vegar að verkum að framkvæmd öryggismála okkar verður að vera með öðrum hætti en annarra þjóða á Norðurlöndum. Eigi að síður eru þjóðirnar oft sammála um grundvallaratriði alþjóðamála og koma þá fram sem ein heild. Utanríkisráðherrar landanna hittast reglulega og bera saman bækur sínar. Enn fremur er náið og reglubundið samstarf milli embættismanna utanríkisráðuneyta Norðurlandanna, milli fastanefnda þeirra hjá alþjóðasamtökum og starfsmanna sendiráða. Þessi samráð gera hinni fámennu utanríkisþjónustu okkar kleift að sinna mikilvægum verkefnum betur en ella.

Við Íslendingar erum aðilar að hinu margvíslega samstarfi Sameinuðu þjóðanna. Ég orða það svo í skýrslunni, sem hér er til umræðu, að smáþjóðum, sem ekki hafa yfir eigin herafla að ráða, sé augljóslega mikill styrkur að því að virðing sé efld fyrir alþjóðalögum. Með virkri þátttöku innan Sameinuðu þjóðanna hafa Íslendingar lagt sitt af mörkum til að svo megi verða. Hefur það verið stefna íslenskra stjórnvalda að leggja lið hverjum þeim hugmyndum, er stuðlað gætu að eflingu öryggisráðs og aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á vettvangi friðargæslu og afvopnunarmála, en að þessum málum, svo og málefnum Sameinuðu þjóðanna, mun ég víkja á eftir.

Með enn öðrum hætti hafa Íslendingar verið aðilar að því að treysta virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti þjóða og einstaklinga. Ég minni í því sambandi á að á s.l. ári voru tíu ár liðin frá undirritun Helsinki-samþykktarinnar, en veigamikill þáttur hennar eru skuldbindingar aðildarríkja um að virða mannréttindi. Því miður skortir mikið á að ákvæðum samþykktarinnar sé framfylgt og áfram verður haldið að ganga eftir efndum.

Af öllu framansögðu er ljóst að Íslendingar hafa rekið ábyrga utanríkisstefnu á þeim tæpa mannsaldri sem þeir hafa haft forsjá þeirra mála í eigin höndum. Utanríkisstefnan hefur m.ö.o. tryggt þeim fullt frelsi og sjálfsákvörðunarrétt í landinu.

Utanríkisviðskipti eru snar þáttur alþjóðaefnahagsmála og fer mikilvægi þeirra vaxandi. Þá eykst þýðing svæðasamstarfs á borð við Efnahagsbandalag Evrópu, en það hvetur okkur Íslendinga til að halda vöku okkar þar sem við eigum allt okkar undir frelsi í milliríkjaviðskiptum.

Í inngangi skýrslunnar um utanríkismál segir að utanríkisþjónustan verði aðlöguð stefnuatriðum sem fram koma í frv. um útflutningsráð sem er til umræðu í hv. Ed. Alþingis.

Í fyrsta lagi verði gert átak í kynningar- og markaðsmálum í samvinnu og samráði við viðskrn. og Útflutningsráð Íslands. Fyrirhugað er að ráða sérstakan markaðsfulltrúa í þau sendiráð sem þurfa þykir. Það er mjög vænlegt til árangurs að veita slíkum viðskiptafulltrúum stöðu opinberra erindreka. Það opnar margar dyr og ætti einnig að horfa til hagkvæmni og sparnaðar. Vænti ég mikillar samstöðu um þetta mál, enda veit ég að þær þjóðir, sem lengst hafa náð á sviði alþjóðaviðskipta hin síðustu ár, hafa rekið mjög árangursríka viðskiptastefnu í samvinnu útflutningsfyrirtækja og stjórnvalda.

Í þessu sambandi má benda á að norska utanríkisþjónustan hefur í náinni samvinnu við útflutningsráð Noregs unnið mikið starf við kynningar- og sölumál vegna fiskeldis þar í landi. Við Íslendingar erum að feta okkur inn á þá braut líka og mikið verk er óunnið í markaðsmálunum, þar sem utanríkisþjónustan getur og á að gegna veigamiklu hlutverki. Það hlutverk felst m.a. í öflun upplýsinga um markaðsmöguleika og tækniþróun í umdæmum sendiráða auk almennrar kynningar á Íslandi og íslenskri framleiðslu.

Í öðru lagi verði unnið að mörkun framtíðarstefnu gagnvart mjög auknu stjórnmálalegu og efnahagslegu samstarfi ríkja Efnahagsbandalags Evrópu. Hinn 1. janúar s.l. urðu bæði Spánn og Portúgal aðilar að bandalaginu og þar með er um helmingur utanríkisviðskipta okkar við Efnahagsbandalagsríkin, þ.e. 48,8% heildarútflutnings og 52,7% heildarinnflutnings. Það þarf að vinna að nánari viðskiptum Íslands og bandalagsins, í framhaldi af sameiginlegum yfirlýsingum ráðherra EFTA- og EBE-landanna í Lúxemborg árið 1984.

Það er afar nauðsynlegt af viðskiptaástæðum að fylgjast náið með málefnum bandalagsins og fyrsta skrefið í þá átt verður að efla skrifstofu fastafulltrúa okkar hjá bandalaginu. Ég hef í gær ritað bréf til sendiherra okkar í Brussel og falið honum að kanna með hvaða hætti þetta verði best gert.

Í þriðja lagi verði gerð sérstök athugun á fyrirkomulagi utanríkis- og viðskiptaþjónustu okkar í Asíu og með hvaða hætti auka megi viðskipti okkar þar. Markaður okkar í Asíu, þá sér í lagi Japansmarkaður, er nú þegar mikilvægur fyrir íslenskar afurðir og framleiðslu og þar eru taldir vera miklir framtíðarmöguleikar. Ég vil minna á að japanska stórfyrirtækið Sumitomo er í samstarfi við Íslendinga um rekstur járnblendiverksmiðjunnar og við hljótum að horfa til aukins samstarfs við Japana á sviði orkuvinnslu og hátækni.

Undanfarna tvo áratugi hefur það verið mikilvægt stefnuatriði Atlantshafsbandalagsins að ná samningum um niðurskurð vígbúnaðar undir raunhæfu, framkvæmanlegu eftirliti. Traustar varnir eru eftir sem áður undirstöðuatriði í tilraunum bandalagsins til að koma á eðlilegum samskiptum milli austurs og vesturs. Þessi stefna var mörkuð árið 1967. Hún felst annars vegar í traustum vörnum og hins vegar í slökun spennu. Áhersla er lögð á að niðurskurður vopnabúnaðar skuli framkvæmdur með þeim hætti að hann raski ekki heldur auki á öryggi. Yfirlýsingar um einhliða afvopnun væru til þess fallnar að ýta undir óvissu í okkar heimshluta og gætu þannig haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Ábyrg umræða og áætlunargerð um afvopnun hlýtur að taka mið af gagnkvæmni, jafnvægi, traustu eftirliti, sem aðilar sætta sig við, og eins litlum viðbúnaði og mögulegt er.

Mikilvægt er að menn líti á afvopnun í samhengi og geri sér grein fyrir gangi sögunnar. Hernaðaruppbygging eftirstríðsáranna átti rætur sínar í djúpstæðum hugmyndafræðilegum skoðanamun risaveldanna. Fram hjá þeim mun verður ekki gengið. Það er t.d. ekki hægt að horfa fram hjá mannréttindabrotum og hernaðarlegri ævintýramennsku í þriðja heiminum. Af framangreindum sökum binda Íslendingar, Norðmenn og fleiri þjóðir í Atlantshafsbandalaginu miklar vonir við Ráðstefnuna um öryggi og samvinnu í Evrópu. Eitt helsta einkenni Helsinki-samþykktarinnar er sú áhersla sem lögð er á jafnvægi milli ólíkra þátta hennar: meginreglnanna í samskiptum ríkjanna 35 og aðgerðir til að skapa gagnkvæmt traust, samvinnu á sviði efnahagsmála, vísinda-, tækni- og umhverfismála og samvinnu um mannúðarmál og á öðrum sviðum, m.a. á mennta og menningarsviðum.

Í sérstökum kafla Helsinki-samþykktarinnar var fjallað um áframhaldsaðgerðir, en með þeim kafla má segja að samþykktin hafi fengið stjórnmálalegt hreyfiafl. Sovétmenn sættu sig við mannréttindakafla Helsinki-samþykktarinnar og ýmislegt annað, sem þeim þótti lítt ákjósanlegt, enda var þeim mjög í mun að fá landamæri í Evrópu viðurkennd. Þeir töldu samþykktina koma í stað landamærasamninga eftir heimsstyrjöldina. Þetta sjónarmið hefur orðið þeim nokkuð þungt í skauti því að aldrei hefur á alþjóðavettvangi verið meira fjallað um mannréttindi í Austur-Evrópu en á árunum eftir 1975.

Á þeim áratug, sem liðinn er frá undirritun Helsinki-samþykktarinnar, hafa verið haldnir tveir framhaldsfundir til að fylgjast með og bæta framkvæmd hennar. Hinn fyrri var haldinn í Belgrad veturinn 1977-1978 og hinn síðari í Madrid á árunum 1980-1983. Þriðji framhaldsfundur Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu hefst í Vínarborg síðar á þessu ári. Vonast er til að þar geti legið fyrir einhverjar niðurstöður Stokkhólmsráðstefnunnar um traustvekjandi ráðstafanir til afvopnunar í Evrópu, en óvissa ríkir enn þá um hvort það tekst.

Miklar vonir eru bundnar við samningaviðræður risaveldanna í Genf. Slíkar vonir fengu byr undir báða vængi undir lok síðasta árs, þegar leiðtogar ríkjanna, þeir Ronald Reagan og Mikhail Gorbatsjoff, áttu með sér fund í Genf. Það var í fyrsta skipti í langan tíma sem leiðtogar risaveldanna hittust að máli. En það er ýmislegt sem bendir til að fullmikillar bjartsýni hafi gætt í kjölfar þessa fundar. Eigi að síður ber að fagna því að ríkin tvö eru farin að ræðast við á nýjan leik og að Sovétmenn komu loks til samningaviðræðna í Genf eftir að hafa gengið frá samningaborðinu fyrir þremur árum.

Í Genfarviðræðum risaveldanna er fengist við þrennt, meðaldrægar og langdrægar kjarnaflaugar, auk geimvopna. Vonir eru bundnar við að unnt verði að komast að samkomulagi um 50% niðurskurð langdrægra kjarnavopna og fjarlægja úr Evrópu allar meðaldrægar kjarnaflaugar. Það hefur valdið vissum erfiðleikum að Sovétmenn hafa sett það skilyrði að Bandaríkjamenn hættu rannsóknum á geimvörnum. Þá hafa Sovétmenn krafist þess að Bandaríkjamenn hættu öllum tilraunum með kjarnavopn nú þegar, eftir að hafa sjálfir nýlokið umfangsmiklum og áralöngum tilraunum með kjarnavopn á sama tíma og Bandaríkjamenn héldu að sér hendinni í þeim efnum.

Mikill áherslumunur er á afstöðu risaveldanna. Á sama tíma og Bandaríkjamenn leggja mikið upp úr jafnvægi í niðurskurði og öruggu eftirliti setja Sovétmenn bann við rannsóknum á geimvopnum að frumskilyrði, þótt þeir sjálfir hafi stundað slíkar rannsóknir um árabil.

Fengist er við afvopnunarmál á fleiri stöðum. Viss teikn eru á lofti sem lofa góðu um árangur í viðræðum á vegum Sameinuðu þjóðanna varðandi sýkla- og efnavopn. Enn fremur er hreyfing í samkomulagsátt, að því er virðist, í viðræðum austurs og vesturs í Vínarborg um gagnkvæma fækkun hefðbundins herafla í Mið-Evrópu þótt enn sé þar við mikinn vanda að glíma.

Áður en ég læt lokið umfjöllun minni um afvopnunarmál vil ég geta tveggja hugmynda sem töluvert hafa verið ræddar hér á landi á undanförnum árum. Það er annars vegar vegna tillöguflutnings á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um „frystingu“ kjarnavopna og hins vegar hugmyndar, sem hreyft hefur verið, um að lýsa því yfir að Norðurlönd séu kjarnavopnalaust svæði.

Um fyrri hugmyndina get ég verið stuttorður þar sem ég fjallaði um hana í ræðu á Alþingi hinn 11. febrúar s.l. og einnig er um hana fjallað í skýrslu þeirri sem við hér ræðum. Ég vil þó geta þess, að við munum halda áfram tilraunum til að fá texta frystingartillögu Mexíkómanna, Svía og fleiri þjóða breytt þannig að við getum stutt hana. Ísland var meðflutningsaðili að tillögum á sviði afvopnunarmála sem samþykktar voru á 40. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Kappkostað hefur verið að veita þar brautargengi þeim sjónarmiðum sem við höfum talið raunhæfust í þessum margflókna málaflokki.

Varðandi síðari hugmyndina hefur danska þjóðþingið átt frumkvæði að tillögu um að skipuð verði norræn embættismannanefnd til að kanna og koma með tillögur um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum. Í ályktun Alþingis hinn 23. maí 1985 um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum er hvatt til að könnuð verði samstaða og grundvöllur fyrir samningum um kjarnavopnalaust svæði í Norður-Evrópu, jafnt á landi, í lofti sem á hafinu eða í því, er sé liður í samkomulagi til að draga úr vígbúnaði og spennu. Eins og fram kom í umræðum á Alþingi um ályktunina er með Norður-Evrópu átt við lönd í norðanverðri álfunni frá Úralfjöllum til austurstrandar Grænlands. Slíkt svæði tæki til hlutlausra ríkja og ríkja í Atlantshafsbandalaginu og Varsjárbandalaginu. Einnig gerir ályktunin ráð fyrir að utanrmn. kanni, í samráði við utanrrh., hugsanlega þátttöku Íslands í frekari umræðum um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum. Þannig tengir ályktun Alþingis umræðuna um kjarnavopnalaus Norðurlönd víðtækara samkomulagi, enda eru Norðurlönd kjarnavopnalaus.

Sovétmenn hafa hins vegar komið upp belti kjarnaflauga sem m.a. er miðað á Norðurlönd. Auk kjarnavopna hafa þeir komið fyrir fjölmennum herjum og miklum birgðum hefðbundinna vopna í nágrenni Norðurlanda. Á sviði hefðbundinna vopna er um gífurlega yfirburði Sovétmanna að ræða. Fælingarstefna Atlantshafsbandalagsins, sem m.a. byggir á kjarnavopnum, tryggir öryggi aðildarlandanna, þar á meðal Íslands, Noregs og Danmerkur, gegn þessum hernaðarmætti. Það hlýtur að vera ein af forsendunum fyrir samkomulagi um kjarnavopnalaust svæði að jafnvægi ríki á sviði hefðbundinna hergagna.

Ég legg áherslu á þann þátt í ályktun Alþingis að í umræðu um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum sé tekið tillit til stærra svæðis en Norðurlanda. Einnig vil ég árétta að ríki Atlantshafsbandalagsins starfa sem heild í öryggis- og varnarmálum. Vettvangur umræðu um kjarnavopnalaust svæði í Norður-Evrópu er fyrst og fremst innan Atlantshafsbandalagsins. Tel ég afar mikilvægt, með tilliti til íslenskra öryggishagsmuna, að Íslendingar standi vörð um þessa grundvallarstarfsreglu Atlantshafsbandalagsins.

Ég vík nú máli mínu að málefnum Sameinuðu þjóðanna, en á liðnu ári hefur einkum tvennt sett mark sitt á starfsemi samtakanna. Það er í fyrsta lagi 40 ára afmæli samtakanna, sem haldið var hátíðlegt á síðasta allsherjarþingi, og í öðru lagi afar bágur fjárhagur samtakanna sem er ýmsum mikið áhyggjuefni og var m.a. ítarlega rætt á vorfundi utanríkisráðherra Norðurlandanna í Stokkhólmi í síðustu viku.

Stofndagur Sameinuðu þjóðanna er 24. október 1945. Þar sem Ísland var ekki stofnaðili, en gekk í samtökin 19. nóvember 1946, verður 40 ára afmælis aðildar Íslands minnst síðar á þessu ári.

Afmælishátíð Sameinuðu þjóðanna var ætlað að ljúka með einróma yfirlýsingu. Hún átti að lýsa vilja aðildarríkjanna til að framfylgja sáttmála þeirra og ítreka stuðning við samtökin. En enn einu sinni var það Palestínumálið, sem kom í veg fyrir samkomulag, þannig að ekkert varð af yfirlýsingu. Setti þetta nokkurn skugga á hátíðarhöldin.

Á allsherjarþinginu voru í fyrsta sinn fordæmd brot á mannréttindum í Afganistan og Íran. Tillögur um fordæmingu íhlutunar í Afghanistan og Kampútseu og kröfur um að herir Sovétríkjanna og Víetnams hafi sig á brott úr þessum ríkjum voru samþykktar með fleiri atkvæðum en nokkru sinni fyrr. Umræðum um stríð milli Írans og Íraks var frestað og ekki náðist samkomulag um tillögur um ástandið í Mið-Ameríku.

Af ályktunum þingsins er sérstaklega ástæða til að vekja athygli á einróma ályktun um fordæmingu hryðjuverka, hver sem stendur á bak við þau og hvar sem þau eiga sér stað. Öryggisráðið hefur einnig gert samþykkt um fordæmingu mannrána og töku gísla.

Allsherjarþingið lýsti árið 1986 alþjóðlegt friðarár og er tilgangur ársins m.a. sá að leggja áherslu á hlutverk samtakanna í alþjóðlegri friðar- og öryggisgæslu. Í tilefni friðarársins hafa stjórnvöld ákveðið að styrkja Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi til kynningar á starfi samtakanna að friðarmálum og hafa lagt tillögur fyrir félagið í því sambandi. Alþjóðlega friðarársins verður minnst sérstaklega síðar á árinu, um það leyti er 40 ár verða liðin frá inngöngu Íslands í Sameinuðu þjóðirnar, en kynning á starfsemi samtakanna, skipulögð af menntmrn., hefur þegar verið hafin í skólum.

Sameinuðu þjóðirnar hafa átt við fjárhagsörðugleika að stríða s.l. tvo áratugi. Gífurlegur halli hefur verið á rekstri stofnunarinnar árum saman. Á síðasta ári nam hann rúmum 390 millj. bandaríkjadala. Mörg ríki greiða seint og illa skylduframlög sín og skulda jafnvel framlög fyrir tvö ár eða meira. Þessar skuldir bera enga dráttarvexti, en vextir eru háir á hinum alþjóðlega lánamarkaði og þetta bil hafa Sameinuðu þjóðirnar þurft að brúa með lánum. Stærsti hluti hallans stafar af því að greiðslur eru ekki inntar af hendi til friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna. Skuldugustu aðildarríkin eru Austur-Evrópulöndin sem neita að greiða fyrir vissa starfsemi samtakanna.

Allsherjarþingið samþykkti skipan 18 manna nefndar til að gera tillögur um lausn fjárhagsvandans og bættan rekstur samtakanna. Þessi nefnd mun öðru fremur móta tillögur um haldbæra lausn til langs tíma en ekki takast á við þann bráða vanda sem leysa verður á þessu ári.

Þótt ófriðvænlega horfi víðs vegar í heiminum hafa eigi að síður orðið ýmsir þeir atburðir á liðnu ári sem uppörvandi verða að teljast. Vil ég þar öðru fremur nefna tvo atburði: Annars vegar sigur lýðræðisaflanna á Filippseyjum þar sem gerspillt stjórn Marcosar varð að hrökklast frá völdum við lítinn orðstír. Hinn atburðurinn var flótti Duvaliers frá Haiti, en sá atburður markaði lokin á áratuga langri harðstjórn Duvalier-feðga í þessu fátækasta ríki Mið-Ameríku.

Þróun í málefnum fjarlægra heimshluta hefur að öðru leyti verið svipuð og undangengin ár. Þannig ríkir sama ófremdarástandið í Suður-Afríku þar sem meiri hluti íbúanna verður enn sem fyrr að sæta ofríki og mannréttindaskerðingu af hálfu hins ráðandi minni hluta hvítra manna.

Afstaða íslenskra stjórnvalda til málefna Suður-Afríku er í samræmi við samþykkt utanríkisráðherra Norðurlanda um ráðstafanir gegn Suður-Afríku sem birt var eftir fund þeirra í Osló 17. og 18. okt. s.l. Íslensk stjórnvöld líta svo á að kynþáttaaðskilnaðarstefna Suður-Afríkustjórnar brjóti í bága við mannréttindaákvæði Sameinuðu þjóðanna og vilja stuðla að því að horfið verði frá aðskilnaðarstefnunni með friðsamlegum hætti.

Aðskilnaðarstefnan, sem er bundin í stjórnlög í Suður-Afríku, hefur verið fordæmd víðast hvar í hinum siðmenntaða heimi. Á s.l. sumri samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna tillögu sem hvatti til refsiaðgerða gegn Suður-Afríku. Samkomulag hefur á hinn bóginn ekki orðið í öryggisráðinu um samræmdar ráðstafanir, svo sem algert viðskiptabann. Það ýtir síðan enn undir ólguna á svæðinu að Suður-Afríkustjórn hefur ekki verið fáanleg til að láta Namibíu af hendi þar sem stjórnin telur að samþykktir Sameinuðu þjóðanna um sjálfstæði Namibíu séu háðar því að herlið Kúbumanna hverfi á brott frá Angóla og nýtur í því efni stuðnings Bandaríkjastjórnar. Þrátt fyrir að málefnum Suður-Afríku hafi eðlilega verið mikill gaumur gefinn má ekki gleyma að almenn þegnréttindi eru fótum troðin víðar í Afríku. Af tæplega 50 ríkjum álfunnar eru þau ríki teljandi á fingrum annarrar handar sem umbera stjórnarandstöðu eða gera almenningi kleift að hafa áhrif á stjórnarákvarðanir. Í flestum hinna er aðeins leyfður einn stjórnmálaflokkur, flokkur valdhafanna, og eru fjölmiðlar að meira eða minna leyti undir stjórn þeirra. Útbreidd spilling er meðal valdhafa í mörgum Afríkuríkjum og er það ein ástæða þess hörmungarástands sem víða ríkir í álfunni í efnahagslegu, félagslegu og stjórnmálalegu tilliti.

Vandi Nígeríumanna ætti að vera okkur Íslendingum nærtækt dæmi um ástandið í löndum Afríku. Fyrir aðeins fimm árum var Nígería þriðja helsta viðskiptaþjóð Íslendinga, en á árinu 1981 fóru þangað 13% alls útflutnings okkar. Vegna alvarlegra stjórnmálalegra, en þó ekki síður efnahagslegra þrenginga í landinu hefur ekki reynst mögulegt að selja þangað skreið undanfarin ár.

Nígeríumenn standa í svipuðum sporum og önnur Afríkuríki. Útflutningur landsmanna er afar einhæfur og háður miklum verðsveiflum á alþjóðlegum mörkuðum. Verðfall á olíuvörum að undanförnu kemur til með að auka enn á vanda Nígeríumanna, en helsti útflutningur þeirra hefur einmitt verið olía.

Á árinu 1984 varð algert neyðarástand í mörgum Afríkuríkjum vegna matvælaskorts. Verst er ástandið á þurrkasvæðunum þar sem þúsundir manna dóu úr hungri. Ríkisstjórnir og hjálparstofnanir komu til bjargar og veittu fólki í Eþíópíu og Súdan aðstoð sem nam um 50 millj. bandaríkjadala eða 21 milljarði ísl. kr. Þjóðartekjur á mann hafa rýrnað mjög í ríkjum Afríku og hafa tólf þeirra lægri þjóðartekjur á mann en þegar þau hlutu sjálfstæði. Barnadauði er margfalt tíðari í Afríku en í þróunarríkjum annars staðar og um helmingur vinnufærra manna er atvinnulaus eða hefur ónóga atvinnu.

Ýmislegt veldur því að aðstæður almennings í Afríku eru erfiðar. Þar koma til ástæður eins og spillt stjórnarfar, sem ég nefndi áðan, og einnig þættir eins og einhæf framleiðsla og verðsveiflur á heimsmörkuðum. Annaðhvort þarf að tryggja þessum ríkjum sanngjarnt verð fyrir framleiðslu sína, t.d. með endurskoðun á niðurgreiðslum á framleiðslu í iðnríkjum, eða hjálpa þeim að vinna frekar úr afurðum sínum og hráefnum til sölu á markaði í iðnríkjum.

Við Íslendingar leggjum þjáðum þjóðum þriðja heims lið í þrengingum þeirra með neyðaraðstoð og þróunarsamvinnu. Í sérstökum kafla skýrslunnar er fjallað um þróunarsamvinnu. Þar kemur fram að framlag af ríkisfé til þessara mála nam á s.l. ári rúmum 77 millj. kr. Á fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir 85,5 millj. kr. sem er undir 0,1% af þjóðarframleiðslu Íslendinga. Vantar því jafnmikið og áður á að náð sé því marki sem velmegunarríki Sameinuðu þjóðanna hafa sett sér, þ.e. að ríkisfé sem nemur 0,7% þjóðarframleiðslu verði varið til þessara mála. Danir. Norðmenn og Svíar eru komnir fram úr þessu marki og Finnar hafa aukið framlög sín verulega ár frá ári.

Alþingi lýsti yfir s.l. vor vilja sínum í þessum efnum með þál. þar sem sagði, með leyfi forseta: „Á næstu sjö árum skuli með reglubundinni aukningu framlaga náð því marki að opinber framlög Íslands til uppbyggingar á þróunarríkjum verði 0,7% af þjóðarframleiðslu.“ Með ályktuninni markar Alþingi ákveðna stefnu í þessu efni. Mestu varðar þó að efnahagsaðstæður skapi skilyrði til að henni verði sem dyggilegast framfylgt. Þær fregnir, sem sífellt berast af örbirgð í þróunarríkjunum, eru hvatning til að láta ekki deigan síga.

Ófriður og efnahagsörðugleikar hafa um langt skeið hamlað þróun lýðræðislegra stjórnarhátta í Mið-Ameríku ekki síður en í Afríku. Í þremur ríkjum af sjö geisar borgarastyrjöld enn: í Guatemala, El Salvador og Nicaragua. Hafa átök þessi komið í veg fyrir nauðsynlega efnahagslega uppbyggingu, en útbreidd fátækt jafnframt kynt undir ófriðarbálinu.

Athygli heims hefur þó einkum beinst að Nicaragua, en þar hefur þróun mála orðið mörgum áhyggjuefni. Þrátt fyrir að kosningar hafi verið haldnar í nóvember 1984 er engin virk stjórnarandstaða leyfð í landinu. Í október s.l. afnam stjórn sandinista öll borgaraleg þegnréttindi og bar við að nauðsyn bæri til vegna utanaðkomandi afskipta af málefnum landsins. Óhætt er að fullyrða að stjórn Sandinista mun reynast erfitt að ávinna sér traust á Vesturlöndum meðan hún efnir ekki fyrirheit um að greiða götu lýðræðis og hafnar öllum viðræðum við „contra“-skæruliða.

Sjónarmið íslenskra stjórnvalda hefur verið að forðast bæri tilraunir til hernaðarlegra lausna á ástandinu í Mið-Ameríku en að reynt skuli til hins ýtrasta að koma á friði með samningum. Af þessum sökum hefur Ísland lýst yfir stuðningi við frumkvæði Contadora-ríkjanna, en ríki þessi hafa leitast við að koma á viðræðum milli stjórnar og stjórnarandstöðu í Nicaragua annars vegar og milli stjórnar Nicaragua og grannríkja hins vegar.

Árangurinn af starfi Contadora-hópsins hefur þó verið minni en vonir stóðu til og veldur þar miklu djúpstæður ágreiningur Bandaríkjamanna og stjórnar sandinista. Í maí á s.l. ári settu Bandaríkjamenn viðskiptabann á Nicaragua, en höfðu áður slitið viðræðum ríkjanna í Manzanillo.

Á 40. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna var Ísland meðal þeirra ríkja er fordæmdu viðskiptabannið, enda var það og er skoðun ríkisstj. að slíkar aðgerðir séu lítt vænlegar til árangurs, auk þess sem þær torvelda friðarumleitanir Contadora-ríkjanna á svæðinu. Þegar rætt er um tálmanir í vegi Contadora-áætlunar beinist þó athyglin ekki síður að framferði stjórnar sandinista. Vil ég í því sambandi benda sérstaklega á að í Nicaragua eru fleiri erlendir hernaðarráðgjafar og mun meiri vígbúnaður en nágrannar á svæðinu telja réttlætanlegt með tilliti til varnar landsins einvörðungu.

Ófriðlega horfir víðar hér í heimi. Stríð Írana og Íraka geisar sem fyrr, en friðarumleitanir stranda á þeirri kröfu Írana að Hussein Íraksforseti verði rekinn frá völdum. Ekkert lát er heldur á hernaði Sovétmanna í Afghanistan sem stökkt hefur milljónum Afgana á flótta úr landi sínu og leitt ósegjanlegar hörmungar yfir þá sem eftir eru. Þá er engin lausn í sjónmáli í Kampútseumálinu, en stjórn Heng Samrins í Phnom Penh situr í skjóli Víetnama í landinu.

Enn er barist í Líbanon og ekki sér fyrir endann á borgarastríðinu sem geisað hefur á annan áratug í landinu. Friðarumleitanir í deilu Ísraela og Araba eru í sömu sjálfheldu og ávallt áður. Ófriðurinn í Austurlöndum nær teygir sig langt út fyrir þennan hrjáða heimshluta, en um það eru nýleg hryðjuverk hryggileg dæmi.

Það er mikið áhyggjuefni með hvaða hætti Gaddafi í Líbýu hefur veitt alþjóðlegum hryðjuverkamönnum hæli og stuðning. Það er í ljósi þess stuðnings, sem árás Bandaríkjanna á Líbýu er skýrð af þeim, þar sem Bandaríkjamenn telja sig hafa óyggjandi sannanir um aðild Líbýustjórnar að öldu hryðjuverka að undanförnu. Harma ber þá árás þar sem hún getur leitt til frekari átaka og haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar. Aðgerðin er ekki til þess fallin að uppræta hryðjuverk, eins og fram kemur í samþykkt ríkisstj. frá því í morgun, en ég vil, með leyfi forseta, lesa hana hér upp:

"Ríkisstj. harmar árás Bandaríkjamanna á Líbýu. Telur hún slíkar hernaðaraðgerðir ekki til þess fallnar að uppræta hryðjuverk. Um leið fordæmir ríkisstj. þráláta hryðjuverkastarfsemi, m.a. með stuðningi Líbýustjórnar, sem leitt hefur til þessarar árásar.

Hvetur ríkisstj. þjóðir heims til samræmdra aðgerða gegn hryðjuverkum með nýju átaki og minnir á samþykkt 40. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um fordæmingu á hryðjuverkum. Lýsir hún yfir þeirri von að ekki komi til frekari átaka sem haft gætu í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar.“

Við lifum því miður á tímum alþjóðlegra hryðjuverka þar sem hvaða land sem er getur fyrirvaralaust orðið vettvangur ofbeldisverka svo sem dæmin sanna. Ég tel mjög mikilvægt að Íslendingar gæti eigin öryggis að þessu leyti og hef lagt til í ríkisstj. að kannað verði ítarlega með hvaða hætti nágrannaþjóðir okkar, einkum Danir og Norðmenn, hagi innra öryggi sínu og að það verði tekið til fyrirmyndar hér að svo miklu leyti sem aðstæður leyfa og krefjast. Þessi mál heyra undir fleiri en eitt ráðuneyti. Því hef ég lagt til að ríkisstj. skipi nefnd til að meta stöðu þessara mála. Nefndinni væri ætlað að skila tillögum um hvernig yfirstjórn og samræming ráðstafana til eflingar innra öryggis skuli fyrir komið í stjórnkerfinu, hvert skuli vera verksvið hvers þeirra aðila er sinni þessum málum og það mun að sjálfsögðu verða haft samráð við utanrmn. varðandi þessi mál.

Ég gat þess hér að framan að mikilvægi utanríkisviðskipta færi vaxandi á sviði alþjóðamála. Einnig hef ég gert grein fyrir aukinni áherslu utanríkisþjónustunnar á þjónustu við útflytjendur. Fáar þjóðir eru eins háðar milliríkjaviðskiptum og við Íslendingar. Í þessum efnum hefur það verið í samræmi við viðskiptahagsmuni okkar sjálfra að við höfum verið aðilar og þátttakendur í margvíslegu alþjóða- og fjölþjóðasamstarfi er miðar að því að ryðja hindrunum úr vegi viðskipta milli ríkja heims.

Við Íslendingar erum aðilar að Fríverslunarsamtökum Evrópu, en á s.l. ári voru liðin 25 ár frá stofnun samtakanna og 15 ár frá inngöngu Íslands í þau. Þess má geta hér að á fyrri hluta þessa árs hefur viðskrh. á hendi formennsku í ráðherranefnd Fríverslunarsamtakanna. Fundur ráðherra EFTA verður haldinn í Reykjavík 4.-5. júní ásamt fundi ráðgjafarnefndar samtakanna, en í þeirri nefnd eiga sæti fulltrúar vinnumarkaðarins og samtök atvinnulífsins í EFTA-löndunum.

Þá erum við aðilar mikilvægs samnings við Efnahagsbandalag Evrópu um tollfríðindi í viðskiptum við bandalagið. Undanfarið hefur það valdið nokkrum erfiðleikum í samskiptum okkar við EBE að í tengslum við aðild Spánar og Portúgals ákvað bandalagið að taka upp að nýju toll á saltfiski sem hafði verið felldur niður einhliða af þeirra hálfu á árinu 1971. Vegna tilmæla Íslendinga var ákveðið að senda í júní á síðasta ári sameiginlegt erindi EFTA-landanna annarra en Portúgals til framkvæmdanefndar Efnahagsbandalagsins til stuðnings málstað Íslendinga. Með margvíslegum öðrum hætti er unnið að því að reyna að finna lausn á þessu vandamáli sem við Íslendingar getum fellt okkur við. Mál þetta verður væntanlega á dagskrá þegar forustumenn Efnahagsbandalagsins sækja okkur Íslendinga heim síðar á þessu ári.

Auk framangreinds samstarfs höfum við Íslendingar frá upphafi verið aðilar að Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) sem vinnur að frelsi í alþjóðaviðskiptum og gegn verndarstefnu. Einnig erum við aðilar að Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti GATT, en á vegum þeirra samtaka er nú verið að vinna að undirbúningi nýrra viðræðna þar sem gert er ráð fyrir að teknar verði fyrir hindranir á sviði erlendra fjárfestinga, tryggingastarfsemi, samgangna, bankareksturs og ýmiss konar þjónustu.

Í stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna 23. maí 1983 er komist svo að orði að meginmarkmið utanríkisstefnu Íslendinga sé að treysta sjálfstæði landsins og gæta hagsmuna þjóðarinnar. Ég hef hér að framan lýst því með hvaða hætti þetta hefur verið gert m.a. í norrænu samstarfi, í varnarsamstarfi vestrænna þjóða, alþjóðasamvinnu um efnahagsmál, starfi Sameinuðu þjóðanna og stofnana sem eru þeim tengdar. Í samræmi við stefnuyfirlýsinguna hafa Íslendingar einnig beitt sér með ýmsum hætti fyrir mannréttindum og friði jafnframt því að styðja viðleitni í þá átt að draga úr vígbúnaði.

Utanrrn. fer með kynningu á Íslandi og íslenskum málefnum með öðrum þjóðum nema þau séu sérstaklega lögð til annars ráðuneytis. Miklum tíma í störfum sendiráða og ræðisstofa Íslands erlendis er varið til að svara fyrirspurnum um land og þjóð frá fjölmiðlum, stofnunum, almenningi; standa að skipulegri kynningarstarfsemi og annast útsetningu og útvegun upplýsingarefnis.

Auk sendiráðanna hafa ýmsir aðilar unnið ötult starf að kynningarmálum og vil ég sérstaklega minna á þátt forseta Íslands, frú Vigdísar Finnbogadóttur, sem sýnt hefur þessum málum sérstakan skilning og stuðning.

Þessi landkynning beinist ekki einvörðungu að því að laða ferðamenn til landsins, heldur einnig að vekja áhuga og traust manna á Íslandi og íslenskum útflutningi með því að kynna landið, þjóðina, stjórnarfar, sögu, menningu, efnahag og auðlindir.

Þrátt fyrir þenslu í stjórnsýslu á undanförnum árum hefur sendiráðum og fastanefndum ekki fjölgað síðan 1970 þótt verkefnin hafi verulega aukist. Ég hef nú lagt til að þessi mál verði tekin til alvarlegrar endurskoðunar þar sem viðskiptahagsmunir okkar Íslendinga krefjast þess.

Herra forseti. Ég hef lokið greinargerð minni í sambandi við þá skýrslu sem hér er til umræðu. Ég vil leyfa mér að þakka fulltrúum í utanrmn. fyrir samstarfið og forseta þingsins einnig.