15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (3526)

407. mál, utanríkismál

Páll Pétursson:

Herra forseti. Alþingi gefst nú tækifæri til að fjalla um skýrslu hæstv. utanrrh. um utanríkismál. Þessi skýrsla er í þetta skipti ítarleg og er það þakkarvert í sjálfu sér.

Í upphafi skýrslunnar er getið um meginmarkmið utanríkisstefnu Íslendinga og ég er sammála því mati hæstv. utanrrh. að telja norrænt samstarf þar í fremstu röð. Núverandi formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs mun fjalla ítarlega um skýrslu Íslandsdeildar en ég vil einungis drepa á örfá atriði varðandi norrænt samstarf.

Ég tel að norrænt samstarf sé mikilvægara öðru utanríkissamstarfi. Þetta er samstarf við þær þjóðir sem eru okkar skyldastar að tungu, hugsunarhætti og menningu. Það eru enn fremur þær þjóðir sem okkur er mestur sómi að að eiga samstöðu með. Norðurlönd njóta virðingar umheimsins og þegar þau eru á einu máli er tekið verulegt tillit til þeirra. Norðurlönd misstu að vísu einn sinn mikilhæfasta forustumann fyrir fáum vikum þegar forsrh. Svíþjóðar, Olof Palme, féll fyrir morðingjahendi. Olof Palme var sá norrænna forustumanna sem naut mestrar alþjóðlegrar viðurkenningar einkum fyrir baráttu sína fyrir friði og frelsi og gegn kúgun, harðstjórn og ójöfnuði. Þótt Olof Palme sé fallinn og skarðið eftir hann standi opið og ófullt þá megum við ekki láta deigan síga, heldur halda ótrauðir á lofti hinu norræna merki jöfnuðar og friðarviðleitni.

Síðasta ár var viðburðaríkt í norrænu samstarfi og það stóð með blóma. Við Íslendingar stóðum fyrir myndarlegu og sögulegu þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í mars 1985 og til þess mun verða vitnað sem eins hins merkasta í sögu Norðurlandaráðs. Norðurlandaráð lagði á síðasta ári aukna áherslu á samskipti við umheiminn og það tel ég mjög mikilvægt. Við þurfum að láta rödd okkar berast út í veröldina þegar við höfum eitthvað að segja. Ég vil vekja athygli alþm. á mjög viðamikilli og vel undirbúinni fjölþjóðaráðstefnu sem Norðurlandaráð gengst fyrir í Stokkhólmi á næsta hausti um loftmengun sem berst milli landa og um ráð til úrbóta. Alþingi hefur verið boðið að senda fulltrúa á ráðstefnuna og mun Alþingi þiggja það boð.

Þá vil ég enn fremur geta um ráðstefnu um skattamál sem Norðurlandaráð gengst fyrir í Bergen næsta haust. Ég tel einboðið að alþm. fylgist með þeirri ráðstefnu þar sem við þurfum verulega á fræðslu að halda í þeim efnum. Staða Íslands hjá Norðurlandaráði styrktist tvímælalaust á síðasta ári og Íslendingar voru ráðnir þar í áhrifastöður. Við Íslendingar höfðum einnig forgöngu um merkan málatilbúnað á vettvangi Norðurlandaráðs.

Ég vil þakka þm. og ríkisstj., og þá ekki hvað síst hæstv. utanrrh., gott samstarf um málefni Norðurlandaráðs þann tíma sem ég var þar í forsvari.

Þá vil ég nefna samstarf Alþingis við þingmenn í Færeyjum og á Grænlandi. Síðast liðið haust var gert samkomulag þingmannanefnda þessara þjóðþinga í Nuuk um stofnun vestnorræna þingmannaráðsins. Þetta samkomulag hlaut staðfestingu Alþingis hinn 19. des. s.l. og samstarfið er nú að hefjast af fullum krafti. Ég tel að hér sé um hið merkasta samstarf að ræða og geti það orðið öllum þrem þjóðunum til hinna mestu hagsbóta þegar fram líða stundir. Þjóðirnar eiga fjölmörg mikilvæg sameiginleg hagsmunamál, bæði sín á milli og út á við, og sameiginlegar auðlindir sem þau þurfa að nýta af fyrirhyggju svo mannlíf geti þrifist í þessum löndum um ókomin ár.

Herra forseti. Langur kafli í skýrslu utanrrh. fjallar um öryggis- og varnarmál. Þar er aðgengilegur fróðleikur á öðru leitinu en annað er nú að mínum dómi með nokkrum áróðursblæ. Atburðir síðustu nætur, og þar á ég við hina fordæmanlegu fólskuárás Bandaríkjamanna á Líbýu, fylla mann að vissu leyti mikilli vantrú á hið vestræna samstarf og opna augu manna fyrir þeim háska sem af því getur stafað og þar á ég ekki síst við hinn siðferðilega háska, að ganga til náinnar samvinnu um utanríkismál og hermál við þjóð sem velur sér stjórnendur sem grípa til slíkra örþrifaráða.

Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, hefur tekið ákvörðun sem Íslendingar hljóta að fordæma og verða í framhaldi af því að gæfa þess að treysta varlega á leiðsögn Bandaríkjanna um utanríkis- og/eða hermál. Ronald Reagan hefur með framferði sínu sannað að hann er þess ekki umkominn að hafa vit fyrir heiminum.

Ég ætla ekki að fara að mæla stjórnvöldum í Líbýu bót. Aðild þeirra að hryðjuverkastarfsemi er fullkomið áhyggjuefni og mjög fordæmanleg. Og það er réttmætt og sjálfsagt að reyna að vinna bug á henni en það að grípa til slíkra örþrifaráða sem árás Bandaríkjamanna á Líbýu er, réttlætist ekki af hryðjuverkum Líbýumanna. Hryðjuverkamenn verða ekki kveðnir í kútinn með loftárásum á saklausa borgara. Að mínu mati hvetur svona framferði til áframhaldandi hryðjuverka og kann að efla stuðning almennings í Líbýu við hryðjuverkamenn. Þar að auki hefur heimsfriði verið stofnað í voða með þessu tiltæki.

Ég þakka ríkisstj. fyrir ályktun sem hún gerði í morgun þó að ég teldi að hún hefði mátt vera skorinorðari. Til að fyrirbyggja misskilning og ofurviðkvæmni ber ekki að skoða það álit mitt sem vantraust á ríkisstjórn Íslands. Sem betur fer hafa flestar lýðræðisþjóðir og bandalagsþjóðir okkar einnig brugðist einarðlega við þessum voðaatburðum. Ég tel að veröldinni sé öðru fremur nauðsyn á friðarviðleitni. Það þýðir ekki að láta stórveldin ein um að teygja það skinn á milli sín. Hver og ein þjóð, hver og einn maður verður að láta sig þau mál miklu varða. Ég tel að það sé ekki eðlilegt að leggja áherslu á gagnsemi fælingarstefnu Atlantshafsbandalagsins eins og gert er á bls. 11 í skýrslunni. Gagnsemi fælingarstefnu er nefnilega villukenning, hvort heldur hún er praktiseruð af Atlantshafsbandalagi eða af hryðjuverkamönnum.

Á síðast liðnu vori urðu þáttaskil í meðferð utanríkismála hér á Alþingi með samþykkt ályktunar um afvopnunarmál frá 23. maí 1985. Samþykktin var gerð einróma og þar áréttar Alþingi þá stefnu Íslendinga að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn og könnuð verði samstaða um og grundvöllur fyrir samningum um kjarnorkuvopnalaust svæði í Norður-Evrópu. Ég er ekki tilbúinn að láta í ljósi hér eða nú skoðun mína á því hvort ég telji mögulegt eða rétt að koma upp kjarnorkuvopnalausu svæði, en hitt tel ég mjög mikilvægt að Íslendingar fylgist vel með þeirri umræðu og taki þátt í henni vegna þess að ef slíkt svæði yrði myndað án þátttöku Íslands, þá væri stór hætta á því að þrýstingur ykist á jaðra svæðisins, og þar með Ísland, að koma þar fyrir kjarnavopnum. Þess vegna verðum við að vaka vel yfir þessari umræðu og taka þátt í henni.

Þá var í ályktuninni - og þar á ég við ályktun Alþingis frá 23. maí s.l. - fjallað um nauðsyn gagnkvæmrar afvopnunar og bann við tilraunum með framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti. Þessi ályktun er grundvöllur að stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum og í samræmi við og í framhaldi af ályktuninni frá 23. maí 1985 bar ég fram fyrr á þessu þingi ásamt sjö öðrum framsóknarmönnum till. til þál. á þskj. 223, um frystingu kjarnorkuvopna. Þar var lagt til að Ísland reyndi að ná samstöðu með öðrum ríkjum Norðurlanda um tillögugerð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um frystingu og framleiðslu kjarnorkuvopna og bann við tilraunum með kjarnavopn. Þessi tillaga er enn þá hjá utanrmn. og ég verð að vonast fastlega eftir því að nefndin afgreiði hana jákvætt fyrir þinglok.

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið en undirstrika það enn og aftur að ég tel mjög mikilvægt að Alþingi haldi vöku sinni varðandi utanríkismál. Við erum hluti af heiminum og getum ekki látið eins og okkur komi ekkert við hvað gerist í heiminum í kringum okkur eða þá í geimnum yfir okkur.