15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3874 í B-deild Alþingistíðinda. (3528)

407. mál, utanríkismál

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Í upphafi máls míns vildi ég byrja á því að óska hinum nýja utanrrh. okkar velfarnaðar í starfi. Í þeirri skýrslu sem við fjöllum um er komið víða við en í upphafi hennar byrjar hæstv. ráðherra á því að skýra að nokkru leyti frá þeim verkefnum sem hann hyggst beita sér fyrir í störfum sinum í utanrrn. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessi markmið, þ.e. að efla og sinna í auknum mæli viðskiptahagsmunum Íslendinga erlendis, að marka framtíðarstefnu gagnvart auknu stjórnmálalegu og efnahagslegu samstarfi ríkja Efnahagsbandalags Evrópu og gera sérstaka athugun á fyrirkomulagi utanríkis- og viðskiptaþjónustu okkar í Asíu.

Ég vil þó með tilliti til nokkurra þeirra atriða sem fram koma í þessari skýrslu, án þess kannske að raunverulegt tilefni liggi enn þá fyrir heldur einfaldlega vegna þess að maður gæti átt von á því að þær viðræður og sú kynning sem fram mun fara á frekara samstarfi Íslands og Efnahags- eða Evrópubandalagsins um viðskiptamál, við þá aðstöðu sem við búum við í dag, aðstöðu sem lýst er á blaðsíðu 30 í þessari skýrslu, í umfjöllun um Efnahags- og framfarastofnun, OECD, gætu hugsanlega valdið því að menn færu að hugleiða möguleikana á því að við gengjum í Efnahagsbandalagið sem ég tel með öllu óráðlegt. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sú aukna áhersla sem einstök ríki leggja á það að tengja saman viðskiptafríðindi og fiskveiðiréttindi getur valdið Íslendingum erfiðleikum beint og óbeint.“ Þ.e. í samningum við ríki Efnahagsbandalagsins liggjum við undir ákveðnum þrýstingi hvað varðar viðskipti okkar með þessa afurð okkar sem fiskurinn er í þessum löndum og það er ekki hægt að horfa fram hjá því að Efnahagsbandalagsþjóðir nota sér þennan stóra markað sem þeir ráða yfir annars vegar og hins vegar þessa sérstöðu okkar að vera svona háðir þessari afurð til þess að ná þeim árangri sem þeir telja vænlegastan fyrir sig í samningum um viðskipti við okkur Íslendinga. Og ég vil leggja á það ríka áherslu að Íslendingar hviki ekki í sjálfstæði sínu að þessu leyti, þ.e. að renna nú ekki inn í Efnahagsbandalagið bara vegna þess að það hugsanlega þjóni einhverjum viðskiptalegum hagsmunum því að til lengdar tel ég að það sé ekki ráðlegt. Ég held að við þurfum ekki að nefna nein dæmi þess þó að við höfum þau fyrir augunum. Þar á ég við aðild okkar að EFTA og áhrif þess á þróun iðnaðar hér á landi.

Eitt er það af þeim málefnum sem hæstv. ráðherra nefnir í inngangi þessarar skýrslu sem ég tel nauðsynlegt að minnast á, þ.e. í 2. mgr. á 6. bls. Þar er talað um frumkvæði Íslendinga í öryggis- og varnarmálum sem hafi aukist „í tíð forvera míns“, eins og ráðherra orðar það. „Í eðlilegu framhaldi þess hef ég lagt til í ríkisstj. að gerð verði úttekt á „innra öryggi“ þjóðarinnar. Þar er öðru fremur átt við varnir gegn alþjóðlegum hryðjuverkum, svo og gegn ólöglegri upplýsingastarfsemi.“ Ég held nú að það hafi verið tilviljun sem réði því að þessar hugmyndir komu fram nánast í kjölfarið á þeim skringilegu kjarasamningum sem fram fóru fyrir stuttu síðan. Aftur á móti held ég að það sé nauðsynlegt að vara við því að menn fari að búa til drauga og vandamál í þessu tilefni sem hugsanlega leiði til þess að það verði ekki lengur leyfilegt að hafa skoðanir á Íslandi. Ég held að allir verði að hafa á sér andvara að gæta þess að þær hugmyndir og þær úrlausnir sem menn munu leita varðandi innra öryggi landsins snúi fyrst og fremst út á við en alls ekki og aldrei inn á við að okkar eigin þegnum.

Ég ætla að láta bíða aðeins að tala um svokölluð einstök alþjóðamál heldur fara hér fljótt yfir sögu. Það er búið að koma víða við í þessari skýrslu en á bls. 19 er eitt atriði sem snertir mjög okkar starf hér á þingi og ekki hvað síst eftir atburði dagsins í dag, og þá er ég ekki að tala um Líbýu heldur um Ed. Í neðstu mgr. á þeirri síðu stendur:

„Í nóvember s.l. undirritaði Geir Hallgrímsson, þáv. utanrrh., í Strasbourg tvo Evrópusamninga fyrir Íslands hönd. Sá fyrri fjallar um sjálfsstjórn sveitarfélaga og kveður m.a. á um að opinber þjónusta skuli almennt falin stjórnvöldum sem næst standa þegnunum og að sveitarstjórnir skuli hafa ákvörðunarvald til að laga eigin stjórnkerfi að staðbundnum þörfum.“ Ég fæ ekki betur séð en þau sveitarstjórnarlög sem afgreidd voru til 3. umr. í dag í Ed. stangist verulega á við þau markmið sem sett eru fram í meginatriðum þessa samnings og skil ekki hvers vegna menn sjá sig tilknúna annars vegar til þess að vera þátttakendur að slíkum samningum eða ella hvers vegna menn sjá sig tilknúna til þess að fara ekki eftir þeim samningum sem þeir undirrita.

Á bls. 30 og 31 er talað um viðskiptajöfnuð og útflutning og þar er minnst á útflutning ullarvöru. Ég vil benda á það að útflutningur ullarvöru hefur að nokkuð stórum hluta verið háður mörkuðum austantjalds. Ég vil minna líka á það að við stöndum allt í einu í þeim sporum hvað þennan útflutning varðar að sú vara sem við höfum verið að bjóða okkar viðskiptaaðilum upp á er ekki lengur seljanleg vegna þess að hún er ekki eins og sagt er í tísku. Ég held að hægt sé að tengja að vissu leyti orsakir þessarar óheppilegu þróunar í markaðsmálum þeirri staðreynd að menn lögðu allt of mikla áherslu á þennan austantjaldsmarkað og tóku kannske lífinu allt of létt með tilliti til þess að sá markaður var tryggður með samningum sem í raun og veru gerðu enga kröfu til gæða þeirrar vöru sem verið var að selja og vara við því að menn falli í þessa sömu gryfju í framtíðinni.

Þá komum við að V. kafla þessarar skýrslu sem fjallar um þróunarsamvinnuna. Þátttaka okkar í þróunarsamvinnu hefur verið gagnrýnd og hún hefur verið gagnrýnd einna helst á þeim nótum að við höfum ekki nándar nærri skilað frá okkur því framlagi í peningum sem menn ætluðu sér og þar af leiðandi ekki staðið okkur í stykkinu. Ég tel, og það ekki hvað síst í ljósi þess ástands sem við búum við í heiminum í dag, að spurningin um þróunarsamvinnu sé í raun og veru ekki fyrst og fremst spurning um peninga heldur spurning um lífsskoðun, þ.e. hvað ætlum við okkur stóran þátt í því að koma þeim þjóðum til þroska - og þá á ég nú aðallega við hvað menntunar- og tæknilegt ástand snertir - sem enn þá eru mjög langt að baki okkur í þróun sinni og hvað erum við reiðubúin til að leggja mikið af mörkum, í vinnu og áróðri og áhuga, til þess að flýta sem mest fyrir því að þjóðir Afríku og Austurlanda fjær, sem hvað erfiðast standa í samkeppni við veröldina, nái sem fyrst því menningar- og þróunarstigi sem við á Vesturlöndum erum svo heppin að búa við.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur tekið þátt í verkefnum í Kenýa og Tanzaníu og núna í jan. s.l., eins og upplýst er í þessari skýrslu, var undirrituð yfirlýsing í Harare, höfuðborg Zimbabwe, um sameiginlega aðstoð Norðurlanda við löndin í suðurhluta Afríku. Þetta eru allt saman mjög góðir og vænlegir áfangar en ég held að við verðum að ætla okkur meiri hlut þarna og spyrja okkur þeirra spurninga um það hvað við viljum gera mikið og hvað við getum gert. Á hvaða sviðum getum við lagt eitthvað af mörkum?

Ég held að þeirri spurningu sé í raun fljótsvarað. Við höfum þegar, án þess að mikið fari fyrir því, lagt þó nokkuð mikið af mörkum á sviði menntunar, reyndar ekki eftir opinberum leiðum, þ.e. ekki fyrir tilstuðlan ríkisvaldsins beint. Það starf hefur meira verið unnið af líknarstofnunum, trúarsamfélögum og kirkjum. Íslendingar geta tvímælalaust lagt mjög mikið af mörkum á því sviði. Þá á ég við skólun og kennslu, það að kenna fólki að lesa, skrifa og reikna.

Í öðru lagi erum við framarlega, ef ekki með fremstu þjóðum veraldar, á sviði sjávarútvegs og þar hljóta að vera ómæld verkefni sem við gætum tekið að okkur. Sýnir það dæmi sem við þekkjum af samstarfi okkar við Grænhöfðaeyjar eilítinn vott um það hverju við gætum tekið þátt í, hvaða árangri við gætum tengst. Ég hef einu sinni áður í umræðu um utanríkismál fyrir held ég tveimur árum bent á að eðlilegt væri að við horfðum til Suðaustur-Asíu, ekki hvað síst vegna þess að þær þjóðir hafa ákveðnar hefðir í því að neyta sjávarafurða frekar eða meira en þær þjóðir sem við hingað til höfum verið að reyna að styðja á þessum vettvangi.

Það sem eftir er af þessari skýrslu fjallar að miklu leyti um þau mál sem tengjast þátttöku okkar í varnarbandalagi vestrænna ríkja að undanteknum kaflanum um hafréttarmál, þ.e. VII. kaflanum. Þar vil ég eingöngu lýsa yfir stuðningi mínum við að menn geri sem mest og sem fyrst í því að reyna að ná samstöðu milli okkar og Dana í viðræðum út af Rockall-svæðinu við Breta og hugsanlega Íra.

Þá erum við komin að því sem hefur kannske litað mestalla þessa umræðu í dag og skiljanlega. Það eru þeir viðburðir sem við höfum verið að upplifa núna nýlega, þ.e. allra seinustu klukkustundir og þennan sólarhringinn.

Áður en ég sný mér að því langaði mig til að beina einni fsp. til hæstv. utanrrh. Það er viðvíkjandi lið 5.3 á bls. 46 í skýrslunni um utanríkismál. Þar er talað um nauðsyn á því að ítarleg úttekt yrði gerð á hugsanlegri aðild Íslands að mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins.

„Nú er svo komið“, segir þar, með leyfi hæstv. forseta, „að flestar framkvæmdir varnarliðsins á Íslandi við varnarmannvirki eru fjármagnaðar af mannvirkjasjóðnum. Hér er um framkvæmdir að ræða svo sem styrkt flugskýli og tengdar byggingar, helming kostnaðar við gerð hafnar og olíubirgðastöðvar í Helguvík, nýjar ratsjárstöðvar og styrkta stjórnstöð. Í dag eru Ísland og Spánn einu aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sem ekki eru meðlimir sjóðsins en Frakkland hefur takmarkaða aðild.

Á varnarmálaskrifstofunni hefur nú verið hafist handa um ofangreinda úttekt. Að henni lokinni verður hægt að meta kosti og galla hugsanlegrar aðildar okkar.“ Og mín spurning hljóðar svo: Ef menn sjá hugsanlega galla á aðild okkar að þessum sjóði verður það þá niðurstaðan að Íslendingar hafni aðild að sjóðnum eða hafa þeir ekki möguleika á því að hafna henni? Ég spyr af þeirri einföldu ástæðu að reglur samnings Atlantshafsbandalagsins kveða á um að aðild að sjóðnum, þ.e. fjármögnun framkvæmda af fé úr sjóðnum af hálfu aðildarríkja, skuldbindur þau til þess að framkvæmdir, sem unnar eru fyrir þetta fé, séu boðnar út í NATO- löndum. Við höfum komist fram hjá þessu hér á landi vegna þess að Bandaríkjamenn eiga aðild að sjóðnum og hafa sjálfir tekið sér sjálfdæmi um það að ákveða hvernig þeir standa að framkvæmdunum þannig að okkur hefur ekki verið inn í það blandað. Með aðild okkar blönduðumst við inn í þetta og værum, nema þá að einhverjir sérstakir samningar kæmu til, skuldbundnir til þess að bjóða þær framkvæmdir út í NATO-löndum sem fjármagnaðar væru af hálfu sjóðsins.

Við erum aðilar að NATO og þannig séð erum við ófrjálsir og gegn vilja okkar að nokkru leyti orðnir aðilar að þeim atburðum sem nú eru að eiga sér stað suður við Miðjarðarhafið og slá miklum óhug á alla menn. Ég er reyndar ekki þeirrar skoðunar, eða ég er kannske þeirrar bjartsýni að við stöndum ekki frammi fyrir þriðju heimsstyrjöldinni. Ég tel að skoðun okkar á því hvernig þarna er að málum staðið í dag skipti e.t.v. ekki mestu máli. Það er að vissu leyti eðlilegt og ánægjulegt að finna hvað viðbrögð allra eru nánast einróma í óhug og hneykslun á atburðarásinni eins og við höfum upplifað hana. Nú erum við náttúrlega mjög svo háð þeim fréttaflutningi sem við búum við og allir þeir, sem hafa á einhvern hátt upplifað það að fréttir eru fluttar af því sem þeir þekkja til um, þekkja það að þær eru oft og tíðum kannske dálítið öðruvísi en staðreyndirnar. En eitt er víst að Bandaríkjamenn hafa gert árás á Líbýu og þeir réttlæta þessa árás með því að Líbýumenn eigi aðild að hermdarverkum sem framin voru í Berlín fyrir stuttu síðan.

Nú er það þannig að hermdarverk, sem unnin eru í Vestur-Evrópu og að einhverju leyti beinast gegn Bandaríkjunum, hljóta náttúrlega að snerta öll aðildarríki NATO-landa, þar sem þau eru framin í einu NATO-landi. Í skýrslu utanrrh. segir svo efst á bls. 37, með leyfi hæstv. forseta:

„Stefna okkar Íslendinga í öryggis- og varnarmálum hvílir sem fyrr á aðild okkar að Norður-Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningnum við Bandaríkin. Markmiðin eru friður, frelsi og sjálfsákvörðunarréttur þjóða í okkar heimshluta.“

Síðan segir litlu síðar í lið 1.1. um varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins: „Varnarstefna þessi hvílir þannig á því að sannfæra hugsanlega árásaraðila um að árás, hvernig svo sem hún sé framkvæmd og hvar og hvenær sem hún sé gerð, geti haft í för með sér ófyrirsjáanlegar afleiðingar og fórnir. Um leið er forðast að gera ráð fyrir fyrir fram ákveðinni og sjálfvirkri stigmögnun.

Vert er að ítreka þá staðreynd að Atlantshafsbandalagið er varnarbandalag, enda er það yfirlýst stefna þess að það muni aldrei grípa til vopna að fyrra bragði og er þá átt við hvers konar vopn, jafnt hefðbundin vopn sem kjarnavopn.“

Ég tel að það verði mjög erfitt fyrir Bandaríkjamenn að neita því að NATO sé aðili að þessari hernaðaraðgerð og þá bendi ég m.a. á að það er ekki bara eitt NATO-ríki sem er viðriðið þessa árás, heldur eru það tvö og núna síðast í dag er það greinilegt að þriðja NATO-ríkið er að verða aðili að þessu vopnabraki og það eru Ítalir. En eins og allir vita flugu flugvélarnar, sem tóku þátt í árásinni, frá flugvöllum í Bretlandi. Síðast liðið ár hafði reyndar gefið tilefni til þó nokkurrar bjartsýni. Reagan og Gorbatsjoff hittust í Genf. Eins og segir hér í skýrslu utanrrh. voru uppörvandi teikn á lofti í afvopnunarviðræðum á vegum Sameinuðu þjóðanna og enn fremur hreyfing í samkomulagsátt í viðræðum austurs og vesturs í Vín. Einnig má þar nefna Stokkhólmsráðstefnuna og aðgerðir til að skapa gagnkvæmt traust og öryggi um afvopnun sem fram fer innan ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu.

Ekki veit ég hvort hæstv. utanrrh. var ljóst þegar hann ritaði það sem stendur hér á bls. 8 hversu sannspár hann yrði þegar hann sagði:

„Mikilvægt skilyrði fyrir lausn vandans - og þá er hann að tala um vígbúnaðarkapphlaupið - er skilningur á því að það er ekki vopnabúnaðurinn sem ógnar heimsfriðnum heldur mennirnir sem ráða honum.“

Ég get að vissu leyti tekið undir þetta, sérstaklega í ljósi seinustu atburða. Aftur á móti er það samt sem áður ógnvænleg staðreynd að eins og málum er komið í dag, þá er þetta líklega ekki algjörlega rétt. Tilfellið er að það er greinilegt að vopnabúnaðurinn er farinn að ráða miklu meiru en menn halda. Ég veit ekki hversu margir fylgdust með eftirleiknum eftir seinustu viðskipti Líbýumanna og Bandaríkjamanna, úttekt ýmissa aðila á árás Bandaríkjamanna á eldflaugastöð í Líbýu og viðbrögðum Líbýumanna og svo síðan aðgerðum Bandaríkjamanna í kjölfar þess. Það var nokkuð áberandi að menn töluðu þar um og reyndu að meta árangur af þeim aðgerðum, þ.e. þegar menn fóru að fjalla um þessa svokölluðu aðgerð í fjölmiðlum kom í ljós að þarna hafði verið á ferðinni einhvers konar tilraun, þ.e. hversu dugleg eru þau vopn og vopnakerfi sem við erum með í höndunum? Og þá er hægt að sjá það alveg fyrir sér að það eru vopnakerfin en ekki mennirnir sem farin eru að ráða gangi mála því að mönnunum var greinilega mjög mikið í mun að geta komist á snoðir um það með einhverjum hætti hversu dugleg þessi tól væru sem þeir voru með í höndunum. Og mér óar víð þeirri tilhugsun ef það sem við erum að upplifa í dag er að einhverju leyti tengt sams konar tilraun.

Við höfum mikla þörf fyrir öryggistilfinningu, bara sem einstaklingar, sem fólk. Við, sem erum á mínum aldri og eldri, upplifðum það tímabil sem kallaðist „kalda stríðið“ og þekkjum alveg þá tilfinningu sem er því samfara að lifa í stöðugum ótta við eitthvað sem maður ekki veit hvað er. Ég minni bara á þá tíma hér á Íslandi þegar fréttaflutningur af kjarnorkuvopnatilraunum og hugsanlegu geislavirku úrfelli yfir norðurhvel jarðar sem af því hlytist var sem mestur, hvaða áhrif þetta hafði t.d. á unglinga og börn.

Við höfum á vissan hátt sefað okkur sjálf á síðustu árum með þeirri röksemdafærslu að varnarbandalögin yrðu líklega síst allra til þess að hefja heimsstyrjöld. Og við vorum nokkurn veginn viss um það að ef til heimsstyrjaldar kæmi af hálfu þessara stóru varnarbandalaga þá yrði það miklu frekar af slysni en af vilja eða meðvitund. Aftur á móti hefur vaxið ákveðinn ótti á síðustu árum við aðila sem standa utan þessara bandalaga og þá sérstaklega aðila sem hafa virkilega staðið í stríði við veröldina í kringum sig. Þá á ég við fyrirbæri eins og Gaddafi og Khomeini. Við skyldum samt sem áður varast að tengja þetta allt of mikið þessum einstaklingum því þarna býr að baki annað og miklu meira. Í fyrsta lagi miklu stærri hópur manna en bara nokkrir brjálæðingar. Þarna býr að baki gífurlega mikil og sterk sannfæring fólks sem ekki veit betur í upplýsingaskorti sínum og einangrun. Þessa menn leit maður á sem einna hættulegasta heimsfriðnum. Þess vegna verður maður sleginn undri og felmtri þegar Bandaríkjamönnum dettur í hug að stugga við þessum mönnum fyrstum af öllum.

Nú er það alveg greinilegt á umfangi þessara aðgerða að hér er ekki um neina útrýmingu að ræða, þ.e. maður hefði kannske getað séð það fyrir sér sem lausn að ætlunin væri að þurrka þessar þjóðir af yfirborði jarðar og losa sig þannig við þessa hættu, heldur er hér um eins konar kennslustund í einhverju að ræða sem við bara alls ekki skiljum.

Við, sem búum hér á Íslandi, á norðurhveli jarðar, gerum okkur kannske alls ekki grein fyrir því hvað vissir þættir menningar eru okkur, ef svo má segja, grónir svo við hörund að við vitum ekki lengur af þeim. Þá á ég við þá lýðræðis- og réttlætiskennd sem við ölumst upp í og eigum með okkur og kemur kannske helst í ljós í viðbrögðum okkar þegar við allt í einu stöndum frammi fyrir atburðum eins og þeim sem við upplifðum í nótt og í dag. Það er nefnilega mjög einfalt og auðskiljanlegt samhengi í hugum Íslendinga á milli lýðræðis og friðar vegna þess að lýðræðið er í sjálfu sér loforð um réttlæti og réttlæti án friðar er í raun og veru óhugsandi. Og þá stöndum við frammi fyrir því að þurfa að samþykkja samt sem áður ákveðinn tvískinnung, þar sem um er að ræða ábyrgð lýðræðislega kjörinna valdhafa á þessum friði, því að lýðræðislegt umboð til stríðs eins og í pottinn er búið í dag - og þá á ég við með því vopnabúri sem við erum með í höndunum í dag - það er í raun og veru með öllu óhugsandi að það fengist nokkurn tíma og nokkurs staðar lýðræðisleg samþykkt fyrir styrjöld. Að nafninu til hvílir samt sem áður þessi ákvörðun á herðum lýðræðislega kjörinna fulltrúa.

Samkvæmt öllum samningum um það varnarbandalag, sem við erum þátttakendur í, er það útilokað, á pappírnum a.m.k., að hershöfðingjar geti tekið ákvörðun um það að fara í kjarnorkustríð. Ábyrgðin af þeirri ákvörðun hvílir á herðum kjörinna valdhafa í löndum NATO. Þetta er enn þá meira vandamál en maður kannske hugleiðir svona dagsdaglega. Ef við ímynduðum okkur að lögð væri fyrir íbúa í löndum NATO sú spurning hvort þeir væru reiðubúnir til að fara í stríð gagnvart einhverjum þeim óvini sem við teldum okkur eiga, þá held ég að friðarhugsun manna sé orðin svo sterk og svo rótgróin hér á Vesturlöndum að við kæmumst að þeirri niðurstöðu, ef fólk almennt fengi að láta vilja sinn þar í ljós, að fólk vill frið, það vill ekki stríð. Samt sem áður stöndum við alltaf frammi fyrir þeirri spurningu hvort við viljum stríð eða frið.

NATO hefur að eigin mati haldið friðinn í tæp 40 ár. Það er að vísu rétt að NATO hefur ekki farið í stríð formlega séð, en sá friður sem við búum við er náttúrlega miklu skyldari vopnahléi en friði vegna þess að vopnin eru fyrir hendi og einhvern tímann hljótum við að þurfa að svara þeirri spurningu hvort við ætlum okkur að nota þessi vopn eða ekki.

Maður veltir þessum spurningum fyrir sér á degi sem þessum þar sem maður er vakinn upp til vitundar um það ástand sem við búum við í dag. Við setjum þetta í samhengi við veröldina í kringum okkur og við reynum á einhvern hátt að gera upp hug okkar til þess sem er að gerast og hvaða þýðingu það hefur fyrir okkur sjálf.

Ég sagði áðan að ég væri svo bjartsýnn að vona það að við værum ekki, a.m.k. ekki í dag á leiðinni inn í þriðju heimsstyrjöldina. En ég held að í tilefni þessara atburða verðum bæði við og allir aðrir að leggjast á eitt um að reyna að svara þeirri spurningu til fulls hvort við viljum stríð eða frið. Ef menn ekki vilja stríð þá verða menn að vinna að því að útrýma vopnum. Þannig - og eingöngu þannig - öðlumst við frið. Á meðan þau vopn eru til og fyrir hendi sem við vitum að eru til og fyrir hendi í dag, þá búum við við það óöryggi sem hlýst af því að hafa ekki gert upp hug sinn gagnvart þessum hugtökum, stríð eða friður. Þetta óöryggi hefur ómæld og óholl áhrif, og er búið að hafa á vestræna menningu. Það lýsir sér í skorti á sjálfstrausti, það lýsir sér í kaldhæðni og vantrú fólks á hugsjónir og tilfellið er að þessi skortur á sjálfstrausti og þessi kaldhæðni og vantrú á hugsjónir, sem við verðum svo vör við í dag, þetta er ástand sem getur tortímt okkur alveg eins og bombur.

Þetta ætti að verða okkur hvatning til þess að taka upp umræðu um samhengið milli þess að við erum lýðræðisþjóð, við viljum að réttlæti sé fullnægt, réttlæti fyrir alla. Þetta lýðræði er ekki bara einhvers konar stjórnskipan sem við búum við heldur er þetta stór og einn stærsti hluti þeirrar menningar sem við búum við í dag. Og við verðum að nota það til þess að skapa okkur framtíð þar sem fólk getur horft til framtíðar í öryggi en ekki öryggisleysi, í trausti á sjálft sig en ekki í skorti á sjálfstrausti, og ef vel tækist til gætum við kannske upplifað enn eina endurfæðinguna í vestrænni menningu. En fyrir alla muni, þegar að einhverju leyti hefur færst ró yfir heiminn eftir þá atburði sem áttu sér stað í nótt og í dag, þá mega menn ekki sofna aftur á verðinum og hætta að hugsa um þetta vandamál sem við stöndum frammi fyrir, því að haldi þetta ástand áfram, ég tala nú ekki um með atburðum sem þessum, hryðjuverkum og gagnaðgerðum og áframhaldandi hryðjuverkum og áframhaldandi gagnaðgerðum, þá er ekki að sökum að spyrja að sú óheillavænlega þróun, sem hefur átt sér stað í menningu okkar Vesturlanda og gagnrýnd hefur verið sem úrkynjun og áhugaleysi ungra kynslóða, kemur til með að vaxa enn hraðar og enn örar en áður og hlýtur að enda í hruni þess fyrirbæris sem við köllum vestræna menningu og höfum stolt talið okkur vera hluti af.

Ég held að við Íslendingar getum í þessari stöðu þakkað fyrir að vera hluti af Norðurlöndum því að í því tilliti ættum við að geta verið hluti af þeim parti heimsins sem er öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Því að tilfellið er, hversu mikið sem við gagnrýnum nú okkur sjálf og nágranna okkar, þá næstu og skyldustu, að þegar veröldin í kringum okkur spyr sig sjálf að því hvar sé að finna bestu fordæmi lýðræðis og mannréttinda í veröldinni, þá er það hér í þessum hluta veraldarinnar, á Norðurlöndum, sem við erum hluti af og, eins og ég sagði áðan, skyldum þakka fyrir að vera, og ættum að leggja miklu meira af mörkum til heldur en við höfum gert hingað til. En það hefur reyndar verið raunin á þessu s.l. ári og ég ætla að vona að það starf verði eins blómlegt og það hefur verið núna undanfarið.