15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3907 í B-deild Alþingistíðinda. (3533)

407. mál, utanríkismál

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Fátt er smáþjóðum mikilvægara en að um utanríkismál þeirra geti náðst almenn samstaða á innlendum vettvangi og að innanlandsdeilur grafi ekki undan þeirri stefnu sem fylgt er út á við. Flest lýðræðisríki, smá sem stór, hafa raunar lagt áherslu á að um utanríkisstefnu þeirra væri eining og að stöðugleiki ríkti á þessu sviði þrátt fyrir ríkisstjórnarskipti. Stefnufesta í þessum efnum óháð tímabundnum innlendum stjórnmálasveiflum hefur af mörgum verið talið markmið í sjálfu sér.

Það er ólán Dana um þessar mundir að þar í landi hefur á undanförnum árum orðið frávik í þessu efni og hefur meiri hluti þingsins fylgt annarri stefnu í ýmsum veigamiklum utanríkismálum en ríkisstj. hefði kosið. Vissar blikur sýnast einnig á lofti í Noregi að því er þetta varðar. Vonandi leiðir staða Dana ekki til ófarnaðar, en vissulega er hún lítt eftirsóknarverð.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi þess fyrir okkur Íslendinga að sameinast um utanríkisstefnuna, ekki síst á viðsjárverðum tímum. Þess vegna ber að fagna því að um grundvallaratriði íslenskrar utanríkisstefnu, þar á meðal stefnuna í varnar- og öryggismálum, hefur um áratuga skeið verið samstaða milli stærstu stjórnmálaflokkanna. Margt bendir og til þess að andstæðingum þeirrar varnarstefnu sem fylgt hefur verið fari nú mjög fækkandi og er það einnig fagnaðarefni.

Hin vandaða skýrsla hæstv. utanrrh., sem hér er til umræðu, ber þess glöggt vitni að öruggum skrefum er nú unnið að því að treysta þann grundvöll sem utanríkisstefna okkar byggir á og þróa hana áfram á ýmsum sviðum. Hún er órækur vitnisburður um það mikla og góða starf sem fram fer á vettvangi utanrrn. og staðfestir að áfram verður haldið á þeirri braut sem mörkuð var af fyrrv. utanrrh.

Utanríkismálum má með handhægum hætti skipta í nokkur meginsvið:

1. Öryggis- og varnarmál.

2. Alþjóðleg efnahagsmál og fjármál, þar með talin milliríkjaviðskipti og málefni þróunarlandanna.

3. Almenn alþjóðastjórnmál, þar með talin afvopnunarmál.

Þessir málaflokkar tengjast innbyrðis með ýmsum hætti. Farsæl utanríkisstefna verður að ná til þeirra allra og fjölmargra einstakra málefna sem út frá þeim spinnast. Þá má nefna málefni er snerta almenna samvinnu milli ríkja, tvíhliða eða marghliða, og samskipti einstaklinga og fyrirtækja milli landa. Í öllum þessum efnum geta vaknað spurningar eða skapast vandamál sem unnt þarf að vera að greiða úr. Það er nauðsynlegur þáttur utanríkisstefnu að móta slík svör og undirbúa hvernig bregðast eigi við óvæntum aðstæðum.

Helstu alþjóðastofnanir og samtök sem við Íslendingar eigum aðild að samsvara þeim meginsviðum er ég nefndi. Þannig er um alþjóðastjórnmál í víðasta skilningi fjallað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Öryggismálunum er sinnt innan Atlantshafsbandalagsins og um alþjóðleg efnahagsmál er fjallað hjá stofnunum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD. Milliríkjaviðskipti eru síðan rædd innan vébanda hins almenna samkomulags um tolla og viðskipti, GATT, og svæðasamtaka eins og EFTA og að sjálfsögðu mun víðar.

Miklu varðar fyrir okkur Íslendinga, sem eigum meira en flestar aðrar þjóðir undir góðum samskiptum við önnur lönd og greiðum milliríkjaviðskiptum, að á öllum þessum stöðum sé þess freistað að fylgjast vel með þróun mála og tryggja sem best íslenska hagsmuni. Ég tel reyndar að svo sé gert í dag þótt jafnan þurfi að vinna markvisst að því að bæta skipulag og starfshætti og aðlaga kröfum tímans.

Virk utanríkisstefna felur í sér að sækja verður fram fyrir Íslands hönd á öllum hagsmunasviðum. Ráðning íslensks varnarmálafulltrúa á hermálaskrifstofu Atlantshafsbandalagsins í Brussel er spor í þá átt og mikilvægur liður í þeirri viðleitni að byggja upp hér innanlands nægilega þekkingu á þessu sviði svo að íslensk stjórnvöld þurfi síður að reiða sig á ráðgjöf annarra um þessi mál.

Efling skrifstofu Íslands hjá Evrópubandalaginu, sem lögð er til í skýrslu utanrrh., er sömuleiðis mikilvægur þáttur í því að gera stjórnvöld hérlendis færari en ella til að gæta hagsmuna Íslands hjá því stóra og volduga bandalagi. Ég vil taka undir tillögu hæstv. utanrrh. um þetta atriði.

Um öll meginsvið utanríkismála má hafa mörg orð, en mig langar, herra forseti, að einskorða mig í því sem á eftir fer við nokkur atriði sem snerta milliríkjaviðskipti og þátttöku Íslands í alþjóðlegu efnahagssamstarfi.

Hin alþjóðlega efnahagsframvinda skiptir okkur Íslendinga gífurlega miklu máli. Nægir að vitna til þeirra atburða sem nú gerast með öðrum þjóðum á efnahagssviðinu og hafa bætt viðskiptakjör okkar og m.a. auðveldað gerð þeirra kjarasamninga sem urðu að veruleika síðla vetrar. Yfirsýn yfir þessi mál er því afar nauðsynleg og hlutverk þeirra stofnana, sem það verkefni hafa að fylgjast með málum þessum, mikilvægt.

Engum blöðum er um það að fletta að alþjóðlegt viðskiptafrelsi og fríverslun eru fáum þjóðum jafnmikilvæg og þeim sem eiga allt sitt undir því að geta selt afurðir sínar á erlendum mörkuðum og flutt inn ýmsar nauðsynjar í staðinn. Þannig er um okkur Íslendinga sem flytjum út um helming alls sem framleitt er í landinu. Það er því sérlega mikilvægt fyrir okkur að staðinn sé vörður um hið alþjóðlega viðskiptafrelsi sem þjóðir heims hafa með ærinni fyrirhöfn náð að þróa allvel á áratugunum frá síðari heimsstyrjöld. Hinu er ekki að leyna að þegar kreppir að í efnahagsmálum á viðskiptafrelsið jafnan nokkuð undir högg að sækja. Á því kunna að vera nokkrar skýringar meðal þjóða þar sem hagur af frjálsum alþjóðaviðskiptum er ekki jafnaugljós og hann er hér á landi. Það er hins vegar til marks um mikla skammsýni þegar hérlendis rísa upp menn sem telja það lausn á efnahagsvanda að koma á takmörkunum á innflutningi og öðrum viðskiptatálmunum, þvert á þá almennu hagsmuni þjóðarinnar að alþjóðleg viðskipti séu sem greiðust. Við getum ekki vænst þess, Íslendingar, að aðrar þjóðir greiði fyrir innflutningi frá okkur ef við setjum tálmanir á útflutning þeirra hingað til lands.

Um þessi mál er fjallað af þekkingu í skýrslur hæstv. utanrrh. og það er rétt að undirstrika að þessi afstaða er liður í stefnu Íslands á alþjóðaefnahagssviðinu. Við erum að sjálfsögðu og sem betur fer ekki ein um þessa stefnu. Undir hana taka t.d. velflest Vesturlönd í orði þótt stundum reynist erfitt að framfylgja henni á borði.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra Norðurlanda sem birt var í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn í síðasta mánuði. Þar er lögð rík áhersla á viðskiptafrelsið og varað við verndarstefnu. Svo er raunar í öðrum yfirlýsingum sem Norðurlöndin hafa sameiginlega látið frá sér fara um þessi efni undanfarin ár. Þessi afstaða er hluti af utanríkisstefnu landanna. Hún er raunar skráð sem markmið í stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er því hluti af því alþjóðlega efnahagskerfi sem þróast hefur frá stríðslokum þótt misvel hafi tekist að fylgja henni eftir.

Það er í þessu sambandi umhugsunarefni að fyrir þróunarlöndin er vafasamt að nokkuð sé jafnmikilvægt og óhindraður aðgangur fyrir afurðir þeirra að mörkuðum í hinum þróaðri ríkjum. Þeir sem mæla gegn viðskiptafrelsinu eru því einnig í raun að tala fyrir því að dregið verði úr möguleikum þróunarlandanna til að koma undir sig fótunum.

Rétt er að vekja athygli á því að frelsi í gjaldeyrismálum er nátengt viðskiptafrelsinu og að vissu leyti forsenda fyrir því að það fái notið sín. Hin afkáralega skömmtunarstefna Íslendinga í gjaldeyrismálum, sem lengi viðgekkst og enn eimir eftir af, var að sínu leyti skammsýn utanríkisstefna, að ekki sé talað um skatt vinstri stjórnarinnar 1978 á ferðamannagjaldeyri sem hefði getað kallað fram viðbrögð annarra ríkja.

Afstaðan til erlends fjármagns er einnig liður í utanríkisstefnu á efnahagssviðinu. Deilur hérlendis um það efni eru alkunnar en heyra vonandi brátt fortíðinni til því óhjákvæmilegt verður í framtíðinni að tryggja greiða fjármagnsstrauma til og frá landinu ef hér á að reka þjóðarbúskap sem er samkeppnisfær við önnur lönd um starfskjör atvinnuvega og lífskjör almennings.

Mér hefur alltaf þótt það merki um undarlegan tvískinnungshátt þegar menn hafa allt á hornum sér varðandi erlent fjárfestingarfé hér á landi en sjá á sama tíma ekkert athugavert við að taka stórfé að láni erlendis jafnvel til að greiða niður ýmsa innlenda vöru eða þjónustu. Þessa afstöðu hafa ýmsir vinstri menn haft hér á landi leynt og ljóst, meðvitað eða ómeðvitað.

En það er mikilvægt að líta ekki á þetta atriði einangrað og óháð öðrum þáttum í stefnu landsins gagnvart öðrum þjóðum heldur ber að skoða þessi mál í samhengi við hina almennu efnahags- og viðskiptastefnu út á við.

Herra forseti. Af máli mínu má ráða að ég er mjög eindregið þeirrar skoðunar að við Íslendingar eigum að skipa okkur á bekk með þeim þjóðum sem hafa markað frjálslyndasta stefnu í alþjóðlegum efnahags- og viðskiptamálum. Við eigum að greiða fyrir því að vörur, þjónusta, fjármagn og fólk eigi auðvelda leið yfir landamæri og hagkvæmni frjálsra utanríkisviðskipta og alþjóðlegrar verkaskiptingar fái notið sín til fulls. Við eigum þess vegna að vera talsmenn lækkandi samkeppnistolla á alþjóðavettvangi, jafnframt því sem við búum þannig um hnútana heima fyrir að okkar eigin atvinnuvegir séu betur í stakk búnir til að takast á við ný verkefni í heimi lækkandi aðflutningsgjalda og harðnandi samkeppni milli landa. Það er einmitt eitt af þeim stóru viðfangsefnum sem við blasa hér á innlendum vettvangi, að tryggja að svo verði og að atvinnuvegir okkar geti búið landsmönnum batnandi kjör. En þá verða menn að vera stórhuga og hafa kjark til að beina huganum í meira mæli að hinum stóra heimi og þeim tækifærum sem þar bíða. Ein meginforsenda þess að unnt sé að nýta slík tækifæri er að sú stefna sem mörkuð er í efnahags- og viðskiptamálum út á við sé frjálslynd og opni hagkerfið í báðar áttir. Annars er hætta á efnalegri stöðnun og andlegri forpokun og er hvort tveggja jafnslæmt.

Sú útrás, sem samtök atvinnulífsins hafa í samvinnu við stjórnvöld beitt sér fyrir á þessu sviði undanfarin ár, m.a. með undirbúningi að stofnun fyrirhugaðs úttlutningsráðs, er gleðilegur vottur um það að menn eru tilbúnir til mikilla átaka á þessu sviði. Þessir aðilar gera sér líka grein fyrir því að þeir verða sjálfir að vera hreyfiafl þess átaks sem gera verður og stjórnvöld geta ekki verið þar í aðalhlutverki heldur aðeins veitt liðsinni og fyrirgreiðslu. Frumkvæðið verður að koma frá atvinnulífinu sjálfu.

Í þessu sambandi velta menn því mjög fyrir sér hvernig best skuli staðið að útflutningsátaki í hinum fjarlægari heimshlutum, t.d. í Austurlöndum fjær. Það er ljóst að á meginlandi Asíu, ekki síst í Kína, er að skapast gífurlega stór markaður fyrir ýmsar af framleiðsluvörum vestrænna þjóða. Í Kína er að verulegu leyti óplægður akur fyrir íslenska útflytjendur vöru en ekki síður seljendur ýmiss konar sérhæfðrar þjónustu. Að mínum dómi kæmi til greina að setja þar upp tímabundna viðskiptaskrifstofu á vegum utanrrn. og hins nýja útflutningsráðs, t.d. til fimm ára, sem ynni að markaðsöflun á þessum fjölmennasta markaði heims.

Við eigum að nota utanríkisþjónustu okkar þar sem þörfin fyrir starfsemi hennar er mest og ónýtt tækifæri flest. Meiri sveigjanleiki í þessu efni en verið hefur kann að vera nauðsynlegur.

Ég tel t.a.m. að samskipti okkar við hin Norðurlöndin séu orðin það náin og beint samband milli sambærilegra aðila, t.d. í stjórnsýslunni, það gott að óhætt sé að draga heldur úr hinum formlegu sendiráðasamskiptum við þessi lönd. Sambönd okkar við þessi ríki eru það vel þróuð að þau þarf ekki að rækta eftir hefðbundnum diplómatískum leiðum lengur með sama hætti og ýmis nýrri og viðkvæmari sambönd. Réttindi Norðurlandabúa í ríkjum hvers annars eru einnig orðin það mikil að erindrekstur beinn vegna vandamála einstaklinga er minni en áður var.

Öll vitum við sömuleiðis vel hversu náin samvinna er milli stjórnarráða, þjóðþinga og einstakra stjórnarstofnana allra þessara landa. Þar eru menn í reglubundnu sambandi og samstarfi jafnvel daglega ýmist beint eða fyrir atbeina skrifstofa á vegum Norðurlandaráðs án þess að sendiráð landanna komi þar nokkuð nærri. Þetta þekkja allir sem nálægt þessum málum hafa komið.

Við eigum að aðlaga utanríkisþjónustu okkar að þessum breytta veruleika og beina takmörkuðum kröftum hennar í meira mæli frá þessum ríkjum til fjarlægari landa þar sem þeir nýtast betur. Ég tek það skýrt fram að ég er ekki að mæla fyrir því að við drögum úr samskiptum okkar við frændþjóðir okkar, heldur þvert á móti að benda á hugmynd um að við lögum hin formlegu samskipti á sendiráðagrundvelli að breyttum tímum og minnkum umsvif sendiráðanna í þessum löndum eftir því sem fært þykir til þess að geta beint kröftunum annað.

Tímabundin starfsemi á vegum utanríkisráðuneytisins á stöðum eins og Kanada, Kína eða Japan er að mínum dómi líkleg til að skila góðum árangri og á þessum stöðum mundi hún njóta góðs af því starfi sem þegar hefur verið unnið á vegum ráðuneytisins. Ég er sannfærður um að hið ágæta starfslið utanríkisráðuneytisins mundi ekki vera síður fært um eða fúst til að leysa af hendi ný verkefni á slíkum stöðum í samvinnu við fulltrúa útflutningsaðila en sinna hefðbundnari verkefnum í sendiráðum okkar hér í næsta nágrenni.

En eldri viðskiptasambönd okkar mega að sjálfsögðu ekki gleymast. Þau verður stöðugt að rækta og efla. Ég vil fagna fram kominni þáltill. þar sem lagt er til að fela ríkisstjórninni að kanna kosti og galla þess að gera sérstakan fríverslunarsamning við Bandaríkin. Alkunna er að þar í landi er okkar mikilvægasti útflutningsmarkaður. Bandaríkin munu á undanförnum misserum hafa gert fríverslunarsamninga við Kanada og Ísrael og ég tel eðlilegt að kannað verði hvort slíkur samningur, ef til boða stæði, gæti þjónað okkar hagsmunum. Virk utanríkisstefna felst m.a. í því að hafa vakandi auga á tækifærum á borð við þetta sem vera kunna á boðstólum.

Herra forseti. Ég gat þess í upphafi að ég teldi skýrslu utanrrh. í ár óvenju vel úr garði gerða. Ég hef í minni ræðu einkum vikið að málum er snerta þá kafla skýrslunnar er fjalla um alþjóðleg efnahagsmál og viðskipti. Mér finnst það raunar ánægjuefni að meira rúmi er varið til þessara mála í skýrslum utanríkisráðherra nú síðustu ár en áður var. Það er á sinn hátt vísbending um það að þungamiðja umræðna um íslensk utanríkismál er að færast frá deilum um öryggis- og varnarmál yfir í annað og er það vel.

Viðfangsefnin blasa við hvert sem litið er á viðskipta- og efnahagssviði utanríkismálanna. Skýrsla utanrrh. ber með sér að ætlunin er að taka til hendi á því sviði utanríkismála. Því hljóta allir framsýnir menn að fagna. Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.