15.04.1986
Sameinað þing: 75. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3921 í B-deild Alþingistíðinda. (3536)

407. mál, utanríkismál

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég held að ástæða sé til nú þegar þessi umræða um skýrslu utanrrh. hefur staðið í allmargar klst. að velta því fyrir sér hvort sá háttur, sem nú er á hafður, sé endilega sá rétti og endilega sá besti. Nú eru aðeins fáir dagar eftir þings og þessi skýrsla tiltölulega nýkomin fram. Hún hefur verið rædd hér frá því kl. hálf fjögur eða svo í dag og verður rædd eitthvað fram eftir nóttunni.

Ég er ekki viss um að rétt sé að leggja skýrslu um utanríkismál fram svo seint á þinginu. Ég held að það sé í rauninni ekkert sem segi að það þurfi að gera þó að það hafi verið siður lengi. Ég held að það megi gjarnan leggja þessa skýrslu fram miklu fyrr á þinginu. Ég tek það fram að ég er ekki að sakast neitt við núv. hæstv. utanrrh. í þessu efni þetta er siður sem hér hefur verið alllengi. Ég held að þetta eigi að gerast fyrr, þannig að umræðan geti orðið með öðrum hætti. Það er engin dagsetning og það er ekki neitt sem segir að þessi skýrsla þurfi endilega að koma fram núna, hún gæti sem best komið fram í janúar eða byrjun febrúar.

Annað, sem er íhugunarvert í ljósi þessarar umræðu nú, er það að hér hafa þó nokkuð margir þm. talað, þó ekki mjög margir, og forseti hefur samviskusamlega raðað því niður þannig að flokkarnir hafa skipst á. Skv. þingsköpum ræður forseti hins vegar ekki við það við svona umræðu hversu lengi menn tala. Hér hafa menn haldið mjög langar ræður. Hér hafa menn talað á annan klukkutíma. Það er satt best að segja heldur lítil tillitssemi við þá mörgu sem voru búnir að kveðja sér hljóðs hér í dag.

Það frelsi, sem felst í ótakmörkuðum ræðutíma við umræður sem þessar, er í rauninni ófrelsi vegna þess að þeir sem nýta sér þetta frelsi, eins og sumir hv. þm. hafa gert í dag, gera það á kostnað annarra. Þetta er til íhugunar, hvort ekki sé rétt að takmarka ræðutíma, t.d. við hálfa klst. eða svo, við svona umræður vegna þess að ég held að það sem menn ekki ná að segja í hálftíma ræðu í umræðum sem þessum megi þá allt eins vera ósagt.

Það hefur verið farið allvíða í þessari umræðu í dag. Í henni hafa þegar talað af hálfu Alþfl. hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson 5. þm. Reykv. og hv. þm. Kjartan Jóhannsson 3. þm. Reykn. og ég get sparað mér að fara mörgum orðum um það sem þeir hafa þegar um fjallað. Sömuleiðis er hægt í stuttu máli að taka undir þá almennu fordæmingu sem hér hefur komið fram á þeim atburðum sem átt hafa sér stað undangenginn sólarhring í Líbýu án þess að um það séu höfð fleiri orð. Ég hygg að það ríki nokkuð almenn samstaða hér á Alþingi um að fordæma þá atburði, enda þótt hv. þm. Alþb. geri sitt besta til þess að, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði hér, segja berum orðum að hér væri það Atlantshafsbandalagið sem stæði að baki. Það er auðvitað alrangt eins og allir vita sem fylgst hafa með fréttum. Þetta er framtak Bandaríkjanna, að vísu með stuðningi forsrh. Bretlands, frú Thatcher. Atlantshafsbandalagið sem slíkt á ekki aðild að.

Það er eðlilegt og við því að búast og það er í eðlilegu samhengi við allan málflutning Alþb. að það skuli reynt að snúa þessari umræðu í þann farveg sem þeir hv. þm. gerðu nú. Ég sé að hv. þm. Svavar Gestsson, sem talaði næstur á undan mér, situr hér í hliðarherbergi og ég ætlaði að beina til hans fáeinum orðum í ljósi þess sem hann sagði áðan.

Það er greinilegt að hv. þm. Alþb. eru afar viðkvæmir fyrir því þegar talað er um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og aukningu framkvæmda og þá staðreynd að þar hefur ekki orðið nein minnkun á þó að þeir sitji í ríkisstjórn og raunar hefur engin breyting orðið á neinu í sambandi við varnir landsins eða framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli þó Alþb. hafi sest í ríkisstjórn. Það sýnir sagan svo langt aftur sem líta má, allar götur síðan Alþb. tók sæti í ríkisstjórn 1956, en varnarliðið kom hingað 1951. Það er því eðlilegt að þeir bregðist illa við og þetta er viðkvæmur punktur. Það sýndu viðbrögð formanns Alþb. mætavel áðan.

En það er annað efni sem hér hefur verið vikið að og mig langar til að fara um nokkrum orðum. Það er sú stefna Alþb. sem felst í orðunum „Ísland úr NATO - herinn burt“, eins og þeir segja gjarnan þegar þeir eru utan stjórnar. Mér sýnist að Alþb. standi nú senn uppi, a.m.k. í norrænum stjórnmálum, eins og nátttröll sem dagað hefur uppi á heiði. Í þessum umræðum í kvöld hefur verið vitnað í viðtal við flokksbróður þeirra Alþýðubandalagsmanna, vinstri sósíalistann Klaus Birkholm, í Nordisk kontakt og umfjöllun um afstöðu hans, sem er í síðasta tölublaði þess blaðs, þar sem hann ásamt fleiri flokksbræðrum sínum, og þetta er flokkur sem Alþb. hefur náin samskipti og samstarf við, m.a. innan Norðurlandaráðs, styður eindregið aðild Danmerkur að Atlantshafsbandalaginu og talar m.a. um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum, Balkanskaga og í Mið-Evrópu. Þetta er eitt atriði. Enn fremur liggur innan seilingar frá hv. formanni Alþb. þar sem hann situr í hliðarherbergi dagblaðið Information þar sem er grein um afstöðu frú Margaretar Auken, sem komið hefur töluvert við sögu hér í fréttum t.d. af starfinu í Norðurlandaráði og er í nánu sambandi við ýmsa af þm. Alþb., þar sem skýrt er frá þeirri stefnubreytingu frú Auken að styðja Atlantshafsbandalagið. Það segir hér í blaðinu, með leyfi forseta, og er það tilvitnun í ummæli Margaretar Auken:

„Ef Danir gengju úr NATO mundi það aðeins leiða til aukinna hernaðarútgjalda, ekki aðeins leiða til aukinnar hernaðarspennu og öryggisleysis heldur mundi það gera það að verkum að það sendi eins konar stjórnmálalegt „sjokk“ um alla Evrópu“ - segir frú Margaret Auken þm. danskra vinstri sósíalista sem þekkt hefur verið fyrir annað en stuðning við NATO fram að þessu.

Það segir líka í þessari grein og þar er nú notuð samlíking sem ég hef sjálfur notað í mörg ár varðandi Ísland:

„Ef við breytum Danmörku í hernaðarlegt tómarúm munu sterk öfl fljótlega fylla þetta tómarúm. Árangurinn verður aukinn vígbúnaður í næsta nágrenni við Danmörku.“

Þetta eru orð að sönnu. Nákvæmlega sama gildir hér. Og þetta eru athyglisverðar staðreyndir. Alþb. stendur nú uppi sem nátttröll meðal þessara flokka. Það á kannske réttilega einna helst samleið með þeim fáu hreinu kommúnistaflokkum sem enn starfa á Norðurlöndunum.' Vinstri sósíalistar viðurkenna staðreyndir í þessum efnum. Það skyldi nú aldrei vera svo, þrátt fyrir stóru orðin sem fallið hafa hér í kvöld, fyrst í hinni afar löngu ræðu hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifs Guttormssonar, síðan í ræðu hv. þm. Steingríms Sigfússonar og svo í ræðu formanns Alþb., að þessi stefna Alþb. ætti eftir að breytast áður en langt um líður, innan tveggja ára. (SJS: Hefurðu áhyggjur af því?) Nei, ég vonast til að hv. þm. Alþb. sjái ljósið í þessum efnum. Ég vonast til að þeir vitkist um síðir. Það gæti nefnilega skapað mjög breyttar forsendur í íslenskri pólitík. Það gæti skapað forsendur fyrir víðtækara samstarfi á vinstri væng íslenskra stjórnmála og traustara samstarfi en tekist hefur að skapa nokkurn tímann til þessa. En forsenda þess held ég að sé sú að Alþb. vitkist og forustumenn þess í öryggis- og varnarmálum íslensku þjóðarinnar. Ég held að það sé forsenda þess að þarna verði breyting á.

Herra forseti. Það eru mörg mál sem ástæða væri til að fara um nokkrum orðum. Það hefur lítið verið talað um Sameinuðu þjóðirnar í þessum umræðum. Það hefur lítið verið talað um vandamál þróunarlandanna. Það hefur lítið verið talað um stjórnmálaþróun t.d. í Mið-Ameríku sem væri þó sannarlega ástæða til. Það hefur lítið verið talað um hafréttarmál. Enn sýnir þetta mér að þessi umræða þyrfti að vera með töluvert skipulegri hætti þannig að hún væri ekki meira og minna karp um þessa hversdagslegu og kannske fánýtu hluti sem okkur hættir, því miður, og undirritaður ekki undanskilinn, til að fara út í í þessari umræðu þannig að hér gæti verið meiri verkaskipting og þessi umræða öll með skipulegri hætti. Hér hefur líka verið talað um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum. Ég ætla að víkja að því örfáum orðum.

Ég hef ekki breytt um skoðun á því að einhliða yfirlýsing um kjarnorkuvopnalaus svæði er lítils virði og kannske einskis virði, en ég hef heldur ekki breytt um skoðun á því að þær umræður sem hafa átt sér stað og eiga eftir að eiga sér stað um þetta kunna að geta leitt til einhvers konar samkomulags sem við teldum af hinu góða. Ég er ekkert sérlega bjartsýnn á það. Ég hef ekki séð þau rök sem sannfæra mig um að slík einhliða yfirlýsing auki á öryggi eða geri friðvænlegra í okkar heimshluta. Hins vegar er það bjargföst sannfæring mín að við eigum að taka þátt í öllum þessum umræðum og fylgjast með og vera þar þátttakendur hvort sem það leiðir til einhvers eður ei. En engu að síður eigum við að fylgja Norðurlöndunum og taka þátt í þessu samstarfi, taka þátt í þeirri nefndaskipan sem tilmæli hafa borist um hingað frá Anker Jörgensen, formanni danska jafnaðarmannaflokksins. Við eigum að gera það alveg tvímælalaust og hispurslaust af fullri einurð og velvilja og það segi ég enda þótt ég sé ekkert bjartsýnn á að það leiði til neins árangurs.

Hér hefur líka verið lögð fram skýrsla um norrænt samstarf og starfið í Norðurlandaráði. Þar sem ég á sæti í Norðurlandaráði og hef raunar um nokkurt skeið gegnt formennsku í einni af nefndum ráðsins þykir mér hlýða að víkja að því nokkrum orðum. Það er raunar svo að það væri sérstök ástæða til að í tengslum við umræðuna um skýrslu utanrrh. væri sérstök umræða um norrænt samstarf. Ég held að það væri mjög brýnt í ríkisstjórninni ef einn ráðherranna, hæstv. sjútvrh., sem sérstaklega sinnir þessu samstarfi, flytti fyrir hönd ráðherranefndarinnar sérstaka skýrslu og síðan yrði almenn umræða um hið norræna samstarf. Þar er ýmislegt að gerast. Ég nefni sérstaklega samstarfið í sjónvarpsmálum, fjarskiptahnöttinn Tele-X sem á að byrja að senda á miðju ári 1987. Það er nú ekki nema rúmt ár þangað til það á að gerast og hefur satt best að segja heldur lítil umræða um það farið fram hér á hinu háa Alþingi.

En ég vildi gjarnan áður en þessari umræðu lýkur nefna nokkra þætti úr norræna menningarmálasamstarfinu, sem ég held að við ættum að gefa gaum, sem menningarmálanefnd Norðurlandaráðs hefur fjallað um og sem eru á döfinni þar. Ég held að ein af forsendunum fyrir aukinni norrænni samvinnu, sem tvímælalaust á að stefna að, sé sú að það fáist aukið fjármagn til samstarfsins. Ég minni þá á tillögu sem norrænir jafnaðarmenn hafa flutt innan Norðurlandaráðs um að framlögin til samstarfsins verði 0,1% af þjóðartekjum hvers lands. Þetta mundi þýða í raun fimm- til sexföldun á framlaginu til Norðurlandaráðs og mundi tvímælalaust verða bylting í þessu samstarfi. Það er ekki miðað við í tillögunni að þetta gerist í einni svipan heldur að þetta mundi gerast á allmörgum árum, einum 6-8 árum, og að markinu yrði náð í kringum 1994-1995.

En meðal annarra mála sem ég vildi nefna hér er að menningarmálanefndin hefur lagt til að gerð verði sérstök framkvæmdaáætlun á sviði norrænu menningarmálasamvinnunnar sem lögð verði fyrir næsta þing ráðsins. Við höfum líka ályktað í menningarmálanefndinni um sjónvarpssamvinnuna að leggja beri sérstaka áherslu á samstarf á sviði dagskrárgerðar við undirbúning þessa samstarfs á sviði útvarps og sjónvarps og gera tillögur um hvernig samstarfi um dagskrárgerðina skuli háttað. Ég get sagt frá því í framhaldi af því að ég hef innan Norðurlandaráðs lagt fram tillögu um að stofnaður verði sérstakur sjóður til að styrkja samstarf um kvikmyndagerð, gerð sjónvarpsþátta og myndbandaefnis, en eins og kunnugt er eru bæði kvikmyndagerð og framleiðsla sjónvarpsþátta orðin svo dýr að það er oft einu landi eða einu fyrirtæki ofviða að standa straum af slíku. Þessi tillaga hefur þegar verið lögð fram. Hún verður tekin til umfjöllunar á næsta fundi menningarmálanefndarinnar og væntanlega til afgreiðslu á næsta þingi Norðurlandaráðs. Ég hygg að allir íslensku fulltrúarnir í Norðurlandaráði hafi gerst meðflutningsmenn að þessari tillögu.

Það hefur verið ályktað um það líka eftir sérstaka ráðstefnu sem menningarmálanefndin gekkst fyrir að kanna hvernig megi með skipulegum hætti stuðla að auknum nemenda- og kennaraskiptum á Norðurlöndunum. Þetta er tiltölulega nýtt mál, en á eftir að verða býsna stórt mál og það hefur þegar verið veitt fjármagni til þessa samstarfs en það þarf að veita meira fjármagni til þess.

Menningarmálanefndin gerði einnig tillögur um breytingar á ýmsum fjárveitingum. Þar náðist ekki nema fátt eitt fram. Þó náðist það að bókmennta- og tónlistarverðlaunin verða hækkuð verulega, þ.e. úr 75 000 kr. í 125 000 kr. á næsta ári, en nefndin hefur um nokkurt skeið beitt sér fyrir því að fá þessa hækkun fram. Innan menningarmálanefndarinnar held ég að sú skoðun sé uppi að framlögin til menningarmálanna og menningarmálasamstarfið hafi í mörgum tilvikum skilað meiri og áþreifanlegri árangri en samstarfið á ýmsum öðrum sviðum.

Við reyndum líka að fá auknar mjög fjárveitingar til Norrænu eldfjallarannsóknastöðvarinnar hér á landi. Það tókst ekki nema að nokkru leyti, en þegar starfsemi þeirrar stofnunar var metin að tíu árum liðnum fékk hún einhvern besta dóm og eitthvert mesta hól sem ég minnist að nokkur norræn stofnun hafi fengið í slíku mati. Það var alþjóðleg sérfræðinganefnd sem framkvæmdi þetta mat. Við megum vera stolt af þeim íslensku vísindamönnum sem þarna hafa starfað með svo góðum árangri.

Ég ætla ekki í ljósi þess hversu framorðið nú er, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri, en ég vísa til þess að nýju, sem ég sagði í upphafi máls míns, að ég held að það sé brýnt að endurskipuleggja formið á þessum umræðum um skýrslu utanrrh. vegna þess að þetta er svo mikilvægt mál að það á betra skilið en að vera til umræðu að næturþeli þegar tiltölulega fáir þingmenn eru viðstaddir og menn eru kannske orðnir þreyttir, alla vega þeir sem voru hér til kl. 1 s.l. nótt og byrjuðu nefndarfundi kl. 8 í morgun. Þetta eru ekki hin æskilegustu vinnubrögð og ég vona að við getum náð samstöðu um að breyta þeim.