16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3936 í B-deild Alþingistíðinda. (3542)

312. mál, verkfræðingar

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er komið til okkar á ný. Því var breytt í Nd. Tvær breytingar voru gerðar þar. Önnur var sú að orðin „möbel- og interiörarkitekt“, sem voru í sviga í frv., eru felld niður.

Hin breytingin er sú að í frv. eins og Ed. afgreiddi það var gert ráð fyrir að engum mætti veita leyfi sem frv. fjallar um nema hann hefði stundað nám og lokið fullnaðarprófi við listiðnaðarskóla „eða aðra sérskóla sem stéttarfélag húsgagna- og innanhússhönnuða viðurkennir sem fullgilda skóla í þeirri grein“. Þessu breytti Nd. á þann veg að ákvæðið er nú svohljóðandi: „eða aðra sérskóla sem ráðherra viðurkennir sem fullgildan skóla í þeirri grein, að fenginni umsögn stéttarfélags húsgagna- og innanhússhönnuða“.

Iðnn. hefur tekið frv. á ný til athugunar með tilliti til þessara breytinga og samþykkt einróma að mæla með frv. eins og það kemur nú breytt frá Nd.

Er þetta vottur þess hversu þýðingarmikið er fyrir Alþingi Íslendinga að sitja í tveim deildum. Það er ekki einungis að þessi hv. deild geti leiðrétt Nd. heldur getur það komið fyrir að Nd. leiðrétti Ed. eins og hefur verið gert í þessu tilviki.