16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3938 í B-deild Alþingistíðinda. (3553)

366. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Þó að ég eigi aðild að því að mæla með samþykkt frv. gerði ég mér grein fyrir þessu atriði, en taldi það ekki mikilvægt að svo komnu máli einfaldlega vegna þess að sá galli, sem hv. 1. þm. Reykv. bendir á, kemur í raun og veru ekki til álita fyrr en eftir drjúgan tíma, þ.e. eftir gildistöku þessara laga og þeirra fyrningarfresta sem hugsanlega ættu að gilda í þessum tilvikum miðað við aðra innheimtu með dráttarvöxtum. Því er fullt tækifæri, að því er ég tel, til að taka þessa hluti annaðhvort sértækt til endurskoðunar í þessu tilviki eða þá, eins og hv. 1. þm. Reykv. benti á, að hugsa þetta í heild með tilliti til innheimtu annarra skulda einnig. Þess vegna tel ég allt í lagi að samþykkja þetta hér og nú, einfaldlega vegna þess að við höfum þó einhvern tíma fyrir okkur til að bæta um betur.