16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3939 í B-deild Alþingistíðinda. (3558)

401. mál, söluskattur

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur skoðað mál þetta og mælir einróma með samþykkt frv. Stefán Benediktsson var viðstaddur fundi nefndarinnar og er samþykkur því áliti.

Hér er um að ræða þá meginreglu, sem gilt hefur við söluskattsálagningu þar sem fyrirtæki annast ýmiss konar þjónustu fyrir sjálf sig, ef svo má að orði komast, eða láta vinna á verkstæðum vinnu sem verktakar taka einnig að sér, að þá verði reiknaður söluskattur. Þetta hefur verið svo í framkvæmd um langa tíð og gert ráð fyrir að það verði þannig áfram, en nýlega féll dómur sem Eimskipafélag Íslands höfðaði, í undirrétti að vísu, þar sem skattheimtu af þessu tagi var hnekkt. Því er nauðsynlegt að úr verði bætt. Að vísu gerir fjmrn. ráð fyrir að vinna þetta mál í Hæstarétti, en enginn veit það auðvitað fyrir fram. Þess vegna er eðlilegt að bæta úr þessu. Þarna er ekki um efnislega breytingu að ræða frá framkvæmdinni heldur einungis staðfestingu á því að framkvæmdin skuli vera sú sem hingað til hefur verið.

Þess má geta að Landssamband iðnaðarmanna leggur mjög ríka áherslu á að allur vafi verði þarna af tekinn vegna þess að svo gæti farið að starfsemi sjálfstæðra verkstæða mundi meira og minna leggjast niður ef öll fyrirtæki færu af þessum ástæðum að hafa sérstaka menn í þjónustu sinni til þess að annast allar slíkar viðgerðir og framkvæmdir.