05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

72. mál, jöfn staða og jafn réttur karla og kvenna

Fyrirspyrjandi (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Vissulega eru það vonbrigði að heyra að ekki hefur enn tekist að fullskipa í jafnréttisráð og það má furðu vekja að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hafi ekki fundið fulltrúa til að taka sæti í jafnréttisráði, því að ég er sannfærð um að innan BSRB er um fjölda álitlegra fulltrúa að ræða. En kannske er vafi í huga a.m.k. varaformanns BSRB núverandi um að svo sé eftir því sem fram kom í fréttum þegar hann á sínum tíma taldi að ekki hefði fundist álitlegur kvenfulltrúi til þess að setjast í stjórn BSRB. En ég tek fram að um nægilega marga álitlega kvenfulltrúa er að ræða ef hugsað er að skipa konu í jafnréttisráð af BSRB.

Ég vænti þess að hæstv. ráðherra ýti vel á eftir þessu máli eins og hann reyndar lofaði að hann mundi gera. Það má segja, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, að ekki er langur tími liðinn frá því að samþykkt laganna fór fram hér á Alþingi eða fimm mánuðir, en það er vissulega ekki ráð nema í tíma sé tekið og ástæða er til að fylgja þessu máli eftir, þ.e. framkvæmd laganna, og æskilegt að þessi framkvæmdaáætlun liggi fyrir áður en þessu ári lýkur. Kvennaáratugnum lýkur á árinu 1985. Það er dapurleg staðreynd, svo vægt sé til orða tekið, að á því herrans ári 1985 skuli íslenskar konur búa við slíkt misrétti á vinnumarkaðinum sem raun ber vitni og því verður að vænta þess að hæstv. félmrh. leggi áherslu á að fylgja eftir þeim þáttum laganna, sem fsp. mín fjallar um, þ.e. að leggja fram framkvæmdaáætlunina svo að tækifæri gefist til að fjalla um hana hér á hv. Alþingi.