16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3941 í B-deild Alþingistíðinda. (3567)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. 3. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Frú forseti. Í tilefni af þeirri brtt. sem hér er fram komin verður að viðurkenna að hún er nokkuð seint til orðin. Þó að maður (EgJ: Það er ekki búið að afgreiða málið enn.) hafi þegar fyrir nokkru verið búinn að gera sér grein fyrir andstöðu hv. 11. landsk. þm. við þetta frv. teldi ég eðlilegt að deildin tæki sér einhvern tíma til að skoða brtt. Með hliðsjón af því, sem hefur komið fram í þessum umræðum, að nefnd sú sem fjallaði um þetta frv. tók sér aldrei ýkja mikinn tíma til þess ætti ekki að vera mikil eftirsjá að einhverjum smátíma í að skoða þessa till. og frv. hvort við hliðina á öðru.

Það skal ósagt látið hversu lífsnauðsynleg breyting það er sem hér er gerð tillaga um á frv. sem fyrir okkur liggur. Aftur á móti tel ég að það að fella algjörlega á brott IX. kaflann úr frv. sé í raun og veru mjög einföld og skiljanleg viðurkenning á því að hann er bæði í sínu fyrra formi og núverandi formi eftir breytingar Nd. gagnslaus og ónýtur og því alveg fyllilega réttlætanlegt að fella hann algjörlega á brott.

Í gærkvöld fór hér fram umræða um utanríkismál. Þar minntist ég á að í skýrslu utanrrh. kemur fram að í nóvember s.l. undirritaði Geir Hallgrímsson þáverandi utanrrh. í Strasbourg undir Evrópusamning fyrir Íslands hönd um sjálfsstjórn sveitarfélaga. Ég hef ekki haft tækifæri til að verða mér úti um þennan samning í heild sinni, en í skýrslu utanrrh. á bls. 19 er að finna útdrátt, mjög stuttan, úr þessum samningi og þar segir m.a., og verðum við að trúa því að það sé nokkuð sannferðug lýsing á innihaldi samningsins, að opinber þjónusta skuli almennt falin stjórnvöldum sem næst standa þegnunum og að sveitarstjórnir skuli hafa ákvörðunarvald til að laga eigin stjórnkerfi að staðbundnum þörfum, sveitarstjórnir sjálfar skuli hafa ákvörðunarvald um að laga eigin stjórnkerfi að staðbundnum þörfum. Ég fæ ekki betur séð en að það frv. sem hér er til umfjöllunar og við erum að tala um, meira að segja að afgreiða sem lög frá Alþingi innan skamms, stangist gjörsamlega á við þau markmið sem í þessum samningi eru sett fram.

Í þessum samningi er greinilega viðurkennd sú staðreynd, sem öllum mönnum er almennt orðin ljós í dag, að ríki er ekki til fyrir sjálft sig. Það er ekki tilgangur í sjálfu sér. Sveitarstjórn er ekki tilgangur í sjálfu sér. Stjórnapparöt eru til fyrst og fremst fyrir það fólk sem um er að ræða hverju sinni. Þess vegna eru það engin rök fyrir samþykkt frv. að það sé að einhverju leyti gagnlegt fyrir sveitarstjórnir. Á meðan ekki er hægt að sanna óyggjandi að þetta frv. komi raunverulega að einhverju gagni fyrir það fólk sem við erum að tala um, á meðan ekki er hægt að sanna að þetta frv. leysi vanda þess fólks sem við erum að tala um, á meðan þetta frv. gerir ekkert nema þá til hins verra til að stöðva þá óheillavænlegu þróun sem við horfum upp á í dag, og þá á ég við flóttann af landsbyggðinni, er engin ástæða til að samþykkja það. Ég sé ekki að sveitarstjórnarmönnum á Íslandi sé neitt betur þjónað þó að þeir sitji eftir einir heima í héraði með eitthvert stjórntæki sem er gott fyrir þá en ekkert fólk lengur til að þjóna.