16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3946 í B-deild Alþingistíðinda. (3570)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Ég skal ekki tefja þessar umræður. Ég vil aðeins segja að mér kom á óvart þessi brtt. frá hv. 11. landsk. þm. vegna þess að ég reiknaði með að þær yfirlýsingar og sú brtt. sem ég lagði fram mundu hafa fært mönnum heim sanninn um að það er ekki meiningin að ganga með neinu offorsi að þessum málum. Ég vil aðeins rifja upp að sú yfirlýsing sem ég gaf var þannig að þegar að lokinni samþykkt frv. mun ég skipa nefnd sem fylgist með yfirfærslu verkefna og eigna sýslufélaga til sveitarfélaga og héraðsnefnda. Nefndinni verði einnig falið að gera tillögur að reglugerð vegna þessara breytinga. Jafnframt gæti nefndin, eftir því sem þurfa þykir, gert tillögur til breytinga á lögunum um þau verkefni er varða verksvið hennar. Nefndin verði skipuð fulltrúum frá félmrn., Sambandi ísl. sveitarfélaga og Sýslumannafélagi Íslands. Félmrn. mun gera sérstakt átak til að aðstoða litlu sveitarfélögin við að kanna hagkvæmni aukinnar samvinnu og/eða sameiningar við nágrannasveitarfélög og beita sér fyrir beinum fjárstuðningi við litlu sveitarfélögin í slíkum tilvikum. Brtt. sem samþykkt var í hv. deild var um það að lengja umþóttunartíma yfirfærslunnar til ársloka 1988. Ég vona samt sem áður að menn átti sig á því að hér er um grundvallaratriði að ræða.

Í sambandi við ræðu hv. 8. þm. Reykv. einu sinni enn verður að líta svo á að ýmsar skoðanir hans, sem hann hefur látið í Ijós, séu til orðnar af ókunnugleika á sveitarstjórnarmálum, leyfi ég mér að segja. Hv. þm. ætti að vita að það er verið að færa valdið nær fólkinu í landinu, til sveitarfélaganna sjálfra. Það er verið að efla og auka sjálfstæði sveitarfélaga með þessu frv. Það þekkjum við vel sem höfum unnið að sveitarstjórnarmálum í 20-30 ár. Við vitum vel hvað við erum að tala um. Það er verið að færa valdið nær þegnunum, nær þeim vettvangi sem fólkið býr á. Það er aðalatriðið. (Gripið fram í: Getur þú nefnt mér dæmi um það?) Það er í nærri því annarri hverri grein í frv. ef hv. þm. gefur sér tíma til að lesa frekar frv. en þau plögg sem hann las við 2. umr. málsins.

Ég vil segja nokkur orð í sambandi við það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði. Í fyrsta lagi ræddi hann um stöðuna í Nd. Þá vil ég minna á að það voru þrír stjórnarþingmenn fylgjandi frv. erlendis þegar frv. kom til lokaafgreiðslu. Þannig var meiri hluti í hv. Nd., það vil ég fullyrða, eins og kemur í ljós.

Hann var að spyrja um utankjörstaðaatkvæðagreiðslu. Strax og frv. hefur orðið að lögum mun ég skipa sérstaka embættismannanefnd til að fjalla um framkvæmd kosninganna sérstaklega. Ég hef fullan hug á að ganga til móts við það sjónarmið sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl.