16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3950 í B-deild Alþingistíðinda. (3575)

368. mál, selveiðar við Ísland

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég mun ekki fjalla sérstaklega um þetta frv. og ætlaði reyndar ekki að koma hér í ræðustól fyrr en ég heyrði fullyrðingar hv. 6. landsk. þm., Karls Steinars, um það að hringormurinn skerti kaup fiskvinnslufólks á Íslandi um 25-30%. Ég hef ekki trú á því að hv. þm. sé með svona yfirlýsingu af heilum hug hér uppi í ræðustól á hv. Alþingi. Býst hann við því að Vinnuveitendasamband Íslands, samningsaðilarnir sem verkalýðshreyfingin á við, mundi samþykkja það að hækka kaup fiskvinnslufólks um 25-30% sérstaklega ef enginn hringormur væri í fiskinum? (Gripið fram í: Gera það með bónus.) Ég geri ekki ráð fyrir því að núna á síðustu mánuðum, þegar fiski, sem er næstum því alveg hringormalaus, hefur verið landað á Breiðafirði, geti fiskvinnslufólk á því svæði komið með útreikning sinna vinnulauna á þann máta að laun þess hafi hækkað um 25-30%. Því hef ég ekki trú á og fullyrðingar í þessa veru standast að mínu mati alls ekki. Og ég er nokkurn veginn viss um það að vinnuveitendur mundu finna leið til þess að draga úr bónusgreiðslunum, ef hlutirnir væru á þann veg að bónusinn væri allt í einu orðinn þetta gífurlega hár gegnumgangandi, þannig að ekki væri of mikill mismunur á milli fiskvinnslufólksins, iðnaðarfólksins og verslunarfólksins og þeirra annarra aðila sem þeir væru að semja við. Nei, hringormurinn hefur ekki svona mikil áhrif á efnahagsástandið og launagreiðslurnar í þjóðfélaginu. Það er nú staðreynd.

En þrátt fyrir það er aukning hringormsins vandamál sem sjálfsagt er að reyna að takast á við og það er sjálfsagt að reyna að finna leið til þess að halda selnum í skefjum. Það er ekki nýtt vandamál á Íslandi að það sé hringormur í fiski. Það er af og frá. Sjálfsagt hefur það eitthvað aukist á síðustu árum en ekki í neinni líkingu við það sem verið er að tala um oft og tíðum í fjölmiðlum og sumir hafa lagt fram á svipaðan máta og hv. þm. gerði hér, að þetta munaði í kaupgjaldi fiskvinnslufólks um 25-30%. (Gripið fram í: Er þm. fulltrúi hringormsins?) Ég tel mig vera alveg fullkomlega fulltrúa þeirra aðila sem vita nokkurn veginn hvað hringormurinn veldur miklum skaða. Ég hef fylgst með þessu máli, ekki aðeins í nokkra mánuði heldur í nokkur ár, og ég veit, eins og ég sagði áðan, að vandamálið í sambandi við hringorminn er ekki nýtt vandamál á Íslandi og við höfum ekki þurft að lækka kaup eða breyta kaupi fiskvinnslufólks vegna þess. Það er af og frá. Og sem betur fer sýnir það sig í dag, þegar fiskgengd eykst á miðunum, að þá er sá fiskur, sem er ekki af grunnslóð, mjög lítið sýktur. Og þær fréttir, sem er verið að setja í fjölmiðla um það að á þessu eða hinu svæðinu sé svo mikið af hringormi að það sé eitthvað um 30 í hverju flaki o.s.frv. (Gripið fram í: Kílói.) eða kílói, þær finnst manni einhvern veginn vera pantaðar inn í þessa umræðu. Og á sama tíma og fréttin berst um þennan óskaplega hringorm í Grundarfirði, þá er ekki verið að flagga því að aðalaflinn sem hefur verið landað við Breiðafjörð hefur verið næstum hringormalaus, og að fiskvinnslufólk við Breiðafjörð hefur ekki fundið í pyngjunni sinni neina 25-30% aukningu á launum þrátt fyrir það.