05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

82. mál, loðnubræðsla á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 89 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. sjútvrh.:

„Hvað veldur verkefnaleysi loðnubræðslu á Reyðarfirði meðan löndunarbið er í öðrum höfnum?

Hver er skýring forráðamanna Síldarverksmiðja ríkisins á þessu ástandi?

Hyggst ráðherra beita sér fyrir úrbótum í þessu efni?" Þessi fsp. er borin fram að ósk heimamanna og ekki að ófyrirsynju. Í fyrsta lagi spyrja Reyðfirðingar eðlilega hvernig á því geti staðið að jafnhliða tugmilljóna endurbótum á Siglufirði, sem ekki skal dregið úr út af fyrir sig að hafi verið nauðsyn, standi mánuðum saman á einu tæki til bræðslunnar á Reyðarfirði, þ.e. tæki til þurrdælingar loðnunnar.

Hvernig má þetta vera - því að alla vega hamlar almennur fjárskortur ekki þessu fyrirtæki ríkisins? Það sjáum við á þeim risaframkvæmdum sem hafa verið á Siglufirði á þessu ári.

Í öðru lagi spyrja þeir einnig eðlilega hvernig það megi vera að á firði stutt frá, Seyðisfirði, skuli sama fyrirtæki vera búið að bræða loðnu í fleiri vikur, tugþúsundir tonna, en bræðslan á Reyðarfirði hefur allt í allt verið starfrækt í tæpa viku og tekið á móti rúmum 2000 tonnum. Á þetta er bent sérstaklega vegna þess að talað er um fjarlægðir frá miðum í þessu sambandi og þá má kannske geta þess um leið að verksmiðjan á Eskifirði, sem að vísu er í einkaeign, hefur tekið á móti tugþúsundum tonna einnig. Á þessu er rétt og skylt að fá skýringu og í kjölfarið önnur og betri vinnubrögð sem ég treysti engum betur en hæstv. ráðherra að beita sér fyrir. Í kjölfar ákvörðunar um aukinn loðnukvóta, stóraukna veiði, knýr þetta enn frekar á um að eðlileg vinnubrögð verði viðhöfð og þessu ófremdarástandi megi linna.