16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3957 í B-deild Alþingistíðinda. (3581)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. 2. minni hl. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Ég tek ekki til máls að ástæðulausu vegna þess að hér hafa í dag gerst þeir atburðir, sem ekki eru óalgengir reyndar núna hjá þessari hæstv. ríkisstj., að þegar stjórnarandstaðan beitir sér fyrir því í hverju málinu á fætur öðru að greiða fyrir málum og reyna að flýta fyrir þeim er það stjórnarliðið sem með einhverjum hætti kemur allt í einu á óvænt og gengur ekki undir þann regnboga sáttagjörðarinnar sem hæstv. félmrh. var að ræða áðan að hann hefði breitt út yfir, en hv. 11. landsk. þm. hefði aldrei komist undir þann góða regnboga.

Ég bendi virðulegum forseta á það og í raun og veru má það vera til umhugsunar okkur öllum að á dagskrá þessa fundar eru 16 mál frá hæstv. ríkisstj. sem öll eru þess eðlis að stjórnarandstaðan hefur á allan máta reynt að greiða fyrir og flýta fyrir framgangi þeirra. Ég held að við verðum að skoða þetta alveg í nýju ljósi og sjá til þess að ríkisstj. eigi ekki svona léttan leik, jafnvel með þau mál sem eru kannske ágreiningslaus og menn vilja ekki bregða fæti fyrir. Við eigum kannske eftir að fá framhald af selasinfóníunni á eftir. Þar er stjórnarliðið greinilega í ham og ætlar að sjá til þess að um það mál verði býsna langar umræður öfugt við að sem ég hygg að stjórnarandstaðan í þessari hv. deild hugsi sér.

Þegar menn gera athugasemdir við frumvörp koma hæstv. ráðherrar heldur klaufalega fram, svo að ég noti ekki sterkara orð, gagnvart hv. þm. og segja þeim, eins og hæstv. félmrh. sagði áðan, að þeir hafi eðlilega ekkert vit á þessum málum. Ekki er það til að draga úr mönnum löngunina til að fara upp í ræðustól og segja nokkur vel valin orð í framhaldi af því. Þetta var nákvæmlega það sem hæstv. félmrh. sagði áðan við hv. 8. þm. Reykv. og hann hefur þegar svarað fyrir. En þá bendi ég líka hæstv. félmrh. á að það hefur verið margsinnis gagnrýnt í þessari deild sem og í Nd. að það sem vantar inn í þennan lagabálk, sem við erum að afgreiða og sjálfsagt er á lokastigi nema stjórnarliðið haldi áfram uppteknum hætti, er einmitt sá kafli sem hefði þurft að vera í frv. að til virkilegrar valddreifingar, til virkilegrar verkefnadreifingar út í sveitarfélögin með þeim auknu tekjumöguleikum sem sveitarfélögin hefðu þá haft meðferðis í malnum til þeirra nýju verkefna og til þess nýja valds sem þau áttu að fá. Það er svo, þó að ég þykist vita að hæstv. félmrh. hafi góðar meiningar í þessum efnum, að það gildir gamla setningin: Góð meining enga gjörir stoð. Það mun nefnilega engin breyting verða á þessum málum að einu eða neinu leyti þó að við samþykkjum þennan lagadraug sem hér er að ganga í gegnum þingið, þetta steinbarn hæstv. ráðh. eins og hv. þm. Skúli Alexandersson nefndi svo réttilega hér, en taldi reyndar að fleiri hefðu gengið með en hæstv. ráðh.

Ég vil hins vegar nota tækifærið og þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör sem hann gaf mér áðan varðandi að reynt yrði að lengja tímann sem tækifæri gefst til að greiða atkvæði utan kjörfundar. Það er mjög nauðsynlegt. Ég skildi hans orð á þann veg að hann mundi freista þess til hins ýtrasta að lengja þann tíma. En eftir þá tillitssemi sem ég m.a. hef sýnt í þeim nefndum sem ég hef átt sæti í og afgreitt mál út úr síðustu dagana get ég ekki annað en vakið athygli virðulegs forseta á því að þegar þessi tillitssemi er sýnd hæstv. ríkisstj. í svo ríkum mæli skuli hvað eftir annað gerast þeir hlutir að stjórnarliðið eða ráðherrar hafi ekki minnstu ráð á sínum mönnum í þessu efni. Það er allt í lagi. (EgJ: Sínum mönnum?) Sínum mönnum, já. Það er allt í lagi. Ég tek það skýrt fram. En þá ætti stjórnarliðið og hæstv. ráðherrar, sem eru að óska eftir því að við greiðum fyrir málum í nefndum, að láta okkur vita af þessum deilum við sína menn um þessi tilteknu atriði og að það sé engin ástæða fyrir okkur að mæta óskum þeirra vegna þess að stjórnarsinnar eru af eðlilegum málefnalegum ástæðum - ég vona að hv. 11. landsk. þm. misskilji mig ekki neitt - alls ekki á sama máli og hæstv. ráðh., hvort sem það er í þessu máli, selamálinu eða hvaða öðru máli. Það er það minnsta sem hæstv. ráðherrar geta gert að láta stjórnarandstöðuna vita af því, þegar verið er að reyna að ganga til samninga um að mál nái hér fram að ganga, að það sé engin trygging fyrir því að ekki logi allt innbyrðis í þeirra eigin herbúðum. Það er þá rétt að láta vita af þeim eldsvoða og að þeir geti ekki slökkt hann áður en þeir koma knékrjúpandi í nefndir þingsins til að biðja okkur um að slá á þá elda.