05.11.1985
Sameinað þing: 11. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

82. mál, loðnubræðsla á Reyðarfirði

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fsp. þessi er í tveimur liðum. Í fyrri hluta er spurningin: Hver er skýring forráðamanna Síldarverksmiðja ríkisins á því ástandi sem hér er um rætt, og les ég hér upp svar frá Síldarverksmiðjum ríkisins vegna þessa:

„1. Þegar loðna hefur veiðst á sömu slóðum og í haust er mjög sjaldgæft að tekist hafi að fá hráefni til Reyðarfjarðar því fjórar stórar bræðslur á Austfjörðum eru á leiðinni, á Seyðisfirði, Norðfirði og Eskifirði. Og meðan þær ekki fyllast fara skipin ekki lengra en þau þurfa.

2. Hráefni sem borist hefur í tvær næstu bræðslur fyrir norðan verksmiðju SR á Reyðarfirði er nær eingöngu af heima- og eigin skipum ásamt nokkrum sem eru tengd viðkomandi verksmiðjum.

3. Ekkert loðnuskip er gert út frá Reyðarfirði né af Síldarverksmiðjum ríkisins.

4. Í upphafi loðnuvertíðar buðu Síldarverksmiðjur ríkisins loðnuskipum sömu yfirborgun og aðrar verksmiðjur, þ.e. 10% á skiptaverð.

5. Þegar loðnuskip settu löndunarstopp á Siglufjörð og Krossanes í októbermánuði s.l. jókst framboð á Austfjarðahafnir. Þá bárust 2500 tonn af loðnu til Reyðarfjarðar með tveimur skipum. Skipstjóri annars skipsins kvartaði um lélega útkomu og vigtun. Þetta var leiðrétt við útgerð skipsins.

6. Í aprílmánuði s.l. þegar sýnt þótti að fyrirhugaður viðlegukantur fyrir framan verksmiðju SR kæmi ekki fyrir næstu loðnuvertíð var samþykkt á stjórnarfundi hjá SR að koma upp nýjum löndunarbúnaði, þ.e. þurrlöndun, sem notaður yrði þar til breyting yrði á hafnaraðstöðu. Þessi búnaður var pantaður frá Myren í Noregi í maí s.l. og var afgreiðslu lofað í ágúst. Dráttur varð á afgreiðslu og er þessi búnaður nú að koma til landsins 5. nóvember og verður strax tekinn í notkun“, þ.e. í dag.

„7. Á síðustu loðnuvertíð var landað 28 þús. tonnum af loðnu á Reyðarfirði og gekk vinnslan vel. Þessari loðnu var landað með dælum veiðiskipanna sjálfra. Engar kvartanir bárust.

F.h. stjórnar SR,

Þorsteinn Gíslason.“

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Hyggst ráðherra beita sér fyrir úrbótum í þessu efni?

Það er nú svo að Síldarverksmiðjur ríkisins eru ekki undir beinni stjórn sjútvrh. Þær eru í reynd undir stjórn Alþingis því að Alþingi hefur kosið fyrirtæki þessu stjórn. Ég er að sjálfsögðu áhugamaður um það eins og hver annar að hér verði ráðin bót á og hef fyrir allnokkru rætt þessi mál við forráðamenn Síldarverksmiðja ríkisins.

Það er ljóst að mistök hafa orðið því að sá búnaður sem pantaður var var ekki settur upp á þeim tíma sem til stóð og ég ætla ekki að reyna að útskýra það eða taka upp nokkrar varnir fyrir þann atburð, síður en svo. Hér hefur verið um að ræða alvarleg mistök. Auk þess virðist svo sem verksmiðjurnar séu misjafnlega aðgangsharðar í að afla sér hráefnis og má vel vera að þessi verksmiðja hafi ekki verið nægilega aðgangshörð í þeim efnum.

Hitt er svo annað mál að vonandi verður það svo á allra næstu dögum að loðnubræðslurnar fái allar verkefni. Það er mjög mikilvægt fyrir landið í heild. Hins vegar eru veiðarnar mjög vestarlega og um 29 tíma sigling er bæði til Vestmannaeyja og til Seyðisfjarðar. En ég vænti þess að úr þessu muni rætast á næstunni bæði vegna þess búnaðar sem átti að vera kominn upp á staðnum og einnig vegna aukinna loðnuveiða.

Ég tel ekki ástæðu til að fara að blanda inn í þetta mál fjárfestingum fyrirtækisins á Siglufirði. Það hefur verið ákveðið að bæta allar verksmiðjurnar og byggja þær upp. Þær eru allar vanbúnar og byrjað var við verksmiðjuna á Siglufirði. Þeirri uppbyggingu verður haldið áfram eftir því sem efni standa til og ég tel það mál út af fyrir sig vera þessu máli óskylt, en hins vegar er mjög slæmt til þess að vita að ekki skuli hafa orðið af þeim framkvæmdum sem átti að vera búið að koma í framkvæmd.