16.04.1986
Efri deild: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3962 í B-deild Alþingistíðinda. (3592)

400. mál, verslun ríkisins með áfengi

Haraldur Ólafsson:

Hæstv. forseti. Samkvæmt reglunni kallar þetta stjfrv. á andsvör og andmæli stjórnarþingmanna og ég vil ekki láta hjá líða að taka þátt í því. Að vísu gefst mér vonandi kostur á að ræða hér um selinn á eftir og sem upprunninn við Breiðafjörð hlýt ég að taka þar til máls.

Ég sé eiginlega ekki tilganginn með þessu frv. annan en þann að veita einum aðila leyfi til að framleiða tiltekna áfengistegund hér á landi í því skyni einu að unnt sé í auglýsingum að geta þess að hún sé framleidd á Íslandi. Í athugasemdum við frv. eru að vísu settar fram tölur um sölu á vodka til Bandaríkjanna og gefið í skyn - og það er eiginlega hið furðulegasta við þetta frv. - að hér geti verið um allt að 300 millj. kr. gjaldeyrisþénustu fyrir Íslendinga að ræða. Ég hefði mjög gjarnan viljað heyra hæstv. fjmrh. útskýra á hverju þessar tölur eru byggðar og hvort það er ekki dálítið glannalegt að setja slíkt fram í virðulegu stjfrv.

Ég sé engan kost við að samþykkja þetta frv. Ég sé hins vegar marga ókosti, m.a. þá, eins og þegar hefur verið bent á af hv. þm. Ragnari Arnalds, að þetta gefur fjmrh. mjög víðtækt vald til að leyfa framleiðslu áfengra drykkja hér á landi. Ég held að öllum ætti að vera ljóst að ef það yrði algengt og almennt mundi það knýja mjög á að teknar yrðu upp auglýsingar í margs konar formi fyrir þessum drykkjum á allt annan hátt en er þó fyrir erlendum drykkjum. Það er því augljóst mál að a.m.k. væru miklir möguleikar á því að þetta stuðlaði að aukinni drykkja.

Ég held að öll mál sem snerta framleiðslu og neyslu áfengra drykkja hér á landi og yfirleitt öll áfengislöggjöf eigi miklu fremur að miða að því að draga úr neyslu áfengis. Ég mun því greiða atkvæði gegn þessu frv.