16.04.1986
Efri deild: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3971 í B-deild Alþingistíðinda. (3624)

248. mál, póstlög

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Hér hefur nú verið skýrt frá störfum og umfjöllun samgn. varðandi þetta mál. Það sem þar hefur komið fram er að sjálfsögðu allt saman rétt með farið eftir því sem ég fæ best séð.

Mér finnst hins vegar vert að það komi hér fram, eins og reyndar hefur komið fram hjá öðrum hv. ræðumönnum, að fyrir þessari till. var nokkuð mikið fylgi í samgn. Ed. Alþingis. Af þeirri ástæðu hafði ég samband við samgrh. um tillöguflutning af þessu tagi og hann endurtók það í mín eyru, sem hann sagði raunar í framsögu fyrir málinu, að hann væri því engan veginn andvígur ef nefndinni sýndist svo að tillaga af þessu tagi yrði flutt.

Það má til sanns vegar færa að um þessa till. og þennan efnisþátt frv. hafi ekki mikið verið fjallað. Það verður að segjast eins og er að það var ekki mjög mikil umfjöllun um póstlagafrv. Það var haldinn einn fundur fyrir páska með sérfræðingum eða fólki sem starfaði að undirbúningi frv. og þar kom greinilega fram að frv. var frekar auðvelt í umfjöllun. En strax á þeim fundi kom það líka fram - ég held að ég mun það örugglega rétt - að þetta ákvæði, sem till. byggist á, hafi verið fellt út við meðferð málsins í ráðuneytinu. Það var af þeirri ástæðu sem okkur þótti vert að kanna hug samgrh. nánar í þessum efnum.

Út af því sem hér hefur verið sagt vildi ég einungis leggja áherslu á tvennt. Í fyrsta lagi það að hér er ekki um neina bankastofnun að ræða og þessi þjónusta gæti aldrei orðið nema smá í sniðum. Hins vegar hefur hún sérstöðu að því leyti fram yfir aðra bankastarfsemi að hún gæti liðkað til í þeim byggðarlögum þar sem enginn banki er. Þess vegna er þetta að mörgu leyti skemmtilegt mál. Ég segi það sem mína skoðun. Það er alveg augljóst, eins og kom fram í ræðu hv. flm.till., að hér yrði ekki um mikil umsvif að ræða og að þetta tæki að sjálfsögðu fyrst og fremst og kannske eingöngu til þeirra sem eiga launareikninga í póstgíróinu.

Hitt atriðið, sem ég vildi svo leggja líka áherslu á, eins skýrlega og ég get gert, er það að þetta er heimildarákvæði. Það má fullyrða að áður en tekin yrði ákvörðun um að nota þessa heimild yrði gengið frá þeim reglum sem unnið væri eftir.

Þetta fannst mér rétt að taka fram þótt margir ræðumenn hafi hér skýrt málið rétt og vel með tilliti til þess sem gerðist í samgn. Ed. Alþingis.