16.04.1986
Efri deild: 78. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3974 í B-deild Alþingistíðinda. (3627)

248. mál, póstlög

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að vekja athygli á því að hér er um að ræða frv. sem er meira og minna staðfesting á hlutum sem hafa verið að þróast um árabil og það flýtti auðvitað fyrir starfi í nefndinni. Það er grundvallaratriði í þessu máli, finnst mér, að ekki er klárt hvað verið er að samþykkja ef frv. er samþykkt. Það eru u.þ.b. 2000 reikningshafar á póstgíróreikningum í pósthúsum landsins. Það eru lauslegar grunnhugmyndir að menn gætu fengið nokkur mánaðarlaun lánuð eða til yfirdráttar. Við gætum verið að tala um 200- 500 millj. kr. tilfærslu inn í bankalán, þá í póststofum, sem út af fyrir sig er sjónarmið. En mér finnst ótækt að skoða það ekki miklu nákvæmar í hv. nefndum þingsins áður en slíku yrði hleypt fram. Ég kalla það ekki afturför. Ég kalla það að vita hvað menn eru að gera nákvæmlega því að þetta er veruleg breyting sem er spennandi en óljós.