05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (364)

23. mál, aukafjárveitingar

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það eru í rauninni tvö plögg sem þm. hafa á borðum sínum varðandi þessar aukafjárveitingar. Annars vegar er sú skýrsla sem hér er til umræðu og hins vegar svar við fyrirspurn frá mér. Munurinn er einungis í tíma, þ.e. að fyrirspurnin tekur til aukafjárveitinga á öllu árinu, en skýrsla sú sem hér er til umræðu tekur til aukafjárveitinga frá 15. júlí til 10. október. Skýringin á þessum mismun er sú að ég lagði inn mína fyrirspurn áður en ljóst varð að það mundi fylgja fjárlagafrv. yfirlit yfir aukafjárveitingar fram til þess tíma sem skýrslan nær til. En það er ekki meginatriði málsins. Mér telst reyndar svo til að hér sé um 201 aukafjárveitingu að ræða á þeim níu og hálfa mánuði sem liðinn var ársins hinn 15. okt. Að jafnaði voru þetta þá 17 aukafjárveitingar á mánuði þangað til í október, en þá urðu þær 45 á hálfum mánuði eða sem samsvaraði því að þær hefðu getað orðið 90 ef mánuðurinn hefði orðið heill. Það var því nokkuð vel að verið þarna seinustu dagana.

Það kemur líka mjög glöggt fram af þessu að það liggja ekki fyrir skriflegar óskir frá ráðherrunum um nema hluta af þeim fjárveitingum sem hér um ræðir og það virðist vera að 60 eða þar um bil hafi verið veittar án þess að viðkomandi fagráðherra hafi óskað eftir því. Það er tæpur þriðjungur sem er af því tagi.

Í þessu yfirliti kemur fram að mjög margar fjárveitingar eru til ýmiss konar líknarfélaga, klúbba og félagasamtaka, áhugasamtaka, og sjálfsagt eru flest þessi félög að fást við mjög áhugaverð verkefni, en menn hljóta að spyrja hvað hafi ráðið því að einmitt þessi félög og þessir klúbbar urðu fyrir valinu. Enn fremur kemur fram að að það er veitt til ýmiss konar bygginga, eins og skólabygginga, án þess að fagráðherra hafi um það vitað. Þá kemur fram hvað snertir m.a. kjördæmi formanns fjvn., sem ég þykist vita að hafi gætt ýtrustu aðhaldssemi að því er varðaði fjárveitingar í eigið kjördæmi, Sauðárkrók og Siglufjörð, að ráðherra hefur ekki talið ástæðu til að fara eftir vilja Alþingis í því efni og veitt ríflegar aukafjárveitingar til einmitt skólabygginganna sem ég gerði að umtalsefni og ég veit reyndar að höfðu verið skornar niður í fjvn. Þetta gildir reyndar um fleiri skóla, t.d. Seljaskóla í Reykjavík. Án þess að fagráðherra hafi vitað það eða óskað eftir því skriflega hefur verið veitt sérstaklega til hans aukalega álitlegri upphæð, 2,5 millj. kr.

Eins og ég sagði kennir hér ýmissa grasa, en það er einkennandi að ýmis samtök fá halla frá fyrri árum greiddan. Ég veit ekki hvaða félagasamtök það eru sem mega gera ráð fyrir því, ef þau fara upp í fjmrn. og það reynist hafa verið halli á búskapnum hjá þeim, að þá verði sá halli jafnaður af hálfu fjmrn. Hér er um ýmislegt að ræða. Listahátíð í Reykjavík fær 1658 þús. kr. svo dæmi sé tekið. Þar er halli sem hefur verið jafnaður með sérstakri aukafjárveitingu úr ríkissjóði.

Þetta kemur fram víðar. Körfugerð Blindrafélagsins, ágætisverkefni, er rekin með halla 1984, verndaður vinnustaður, Bjarg, er rekinn með halla 1983, Sjálfsbjörg á Akureyri er með halla 1983 og 1984, endurhæfingarstöð Þroskahjálpar er með halla 1984. Þetta eru tölur á bilinu 300 þús. og upp í 1,5 millj. hverju tilviki. Þetta eru þau dæmi sem ég tek eftir af þessu tagi við tiltölulega fljótan yfirlestur. Eins og ég sagði eru þetta ágæt verkefni. Ég hugsa að hjarta flestra þm. slái með ýmsu því starfi sem þarna er unnið. En það eru bara svo mörg félagasamtökin í landinu sem sjálfsagt eru að sinna ekki síður áhugaverðum verkefnum.

Það eru ýmsar aðrar fjárveitingar sem maður hlýtur að spyrja hvers vegna svo brýna nauðsyn bæri til að verja til fé og hvers vegna aukafjárveiting skuli vera sú aðferð sem notuð er. Hér er Friðarhreyfing íslenskra kvenna, hér er Pólýfónkórinn, hér er Úlfljótsvatn, hér er Langholtssöfnuður, hér er MFA, hér er kirkjuviðgerð, hér er heimsframboð fyrir JC, hér eru rekstrarerfiðleikar hjá Vernd, hér er styrkur til ljóðahátíðar, styrkur til Frjálsíþróttasambandsins og vel þekkt upphæð vegna Vesturgötu 3 upp á 2 millj. kr. Hér er Hið íslenska bókmenntafélag, hér er stórstúkan og Hallgrímskirkja, ólympíunefnd og síðan er ÍSÍ, Fram og KR af íþróttafélögum. Kannske eru íþróttafélögin fleiri. M.a. er HSÍ hér vegna þátttöku í heimsmeistaramóti og Bridgesamband Íslands hefur tekið þátt í Evrópumóti. Enn fremur er sérstök fjárveiting til dómara til að fara í kynnisför, væntanlega til útlanda. Ekki hafa þeir verið að kynna sér dómsmál innanlands, trúi ég. Þetta eru dæmi.

Alþingi hefur fjárveitingavaldið. Alþm. setja sig í þær stellingar, venjulega að kröfu ríkisstjórnar, að sýna nú fyllsta aðhald, að skera niður. Við erum búin að hlusta á það, eiginlega frá því á miðju sumri, hvernig þáv. fjmrh. var byrjaður að munda hnífinn í niðurskurði, fjvn. situr nú að störfum í niðurskurði, það er sérstök nefnd á vegum stjórnarflokkanna í niðurskurði, sem í sitja alþm., og ráðherrarnir hafa hver um sig fengið það verkefni að skera niður. En síðan gerist það með aukafjárveitingum að hlutunum er lyft. Hvers virði er þá Alþingi? Til hvers er þá Alþingi? Getum við af þessari skýrslu séð að það hafi verið einhver sérstök, brýn og bráð nauðsyn sem réð hverri einstakri úthlutun þannig að Alþingi gæti ekki einu sinni verið viðræðuhæft um það eða fjvn., að það hafi verið brýn og bráð nauðsyn sem ekki var kannske ástæða til að viðkomandi fagráðherrar vissu um eða formaður fjvn.? Ég fæ ekki séð það. Ég get ekki séð annað en að þessi úthlutun sé ákaflega tilviljanakennd. Ef menn vilja vera með styrki af ýmsu því tagi sem hér er talið upp á það að vera öllum ljóst í þjóðfélaginu að slíkir styrkir séu veittir, að halli sé jafnaður þannig að menn geti gert upp hug sinn um það að sú úthlutun sé þá skynsamlega unnin og réttlátlega unnin. Þetta plagg eins og það liggur fyrir bendir til að tilviljun ráði, að kylfa ráði kasti í ýmsum tilvikum.

Ég veit að aukafjárveitingar hafa tíðkast um þó nokkurt skeið og mér er vitanlega ljóst að þegar óhjákvæmileg og lögbundin útgjöld, geta verið samningsbundin launahækkun, geta verið önnur lögbundin útgjöld, eiga sér stað verði að veita aukafjárveitingu fyrir því. En þá er Alþingi í raun búið að marka stefnuna vegna þess að það hefur sett þau lög sem þar um ræðir og það hefur gert ráð fyrir þeim mannskap á ákveðnum launum sem í fjárlagafrv. eru og ef launin hafa breyst hefur ekki verið farið út fyrir ákvörðun Alþingis. En þegar tilviljun er farin að ráða úthlutun af þessu tagi og þegar tilviljunin er orðin svo rík að seinustu ráðherradaga einhvers tiltekins ráðherra verði útstreymið ekki þrefalt heldur sexfalt meira en í venjulegum mánuðum er eitthvað meira en lítið að.

Ég tel að Alþingi geti ekki unað slíkum vinnubrögðum. Ég veit að aukafjárveitingarnar eru allar meira og minna lögleysa, en þær eru helgaðar af hefð í vissum greinum. Hér hefur verið farið langt út fyrir það sem getur talist helgað af hefð, eins og lögfræðingarnir segja. Ég tel að það sé nauðsynlegt að Alþingi taki þetta mál fyrir alveg sérstaklega, hvernig með aukafjárveitingavaldið skuli fara, breyti þá þeim lögum sem það varða til þess að hafa ákvæðin skýr og skilmerkileg. Ég ætla að leyfa mér að skilja hæstv. fjmrh. þannig að hann hafi verið að tala í þá veru og fyrir því að þannig yrði að málum staðið þegar hann talaði um að þetta mál væri vandmeðfarið og að ekki mætti raska stefnu fjárlagafrv. Ég held að hann hafi líka gert að umræðuefni að það þyrftu að vera nokkuð skýr mörk í þessum efnum. Ég tel að það sé nauðsynlegt að Alþingi taki þetta mál upp.

Ég ætla ekki að rekja þessar fjárveitingar í öllu fleiri greinum þó að ýmislegt reki á fjörurnar sem mann undrar, en ég skal taka eitt dæmi til viðbótar, kartöfluverksmiðju í Þykkvabæ. Hvers vegna aukafjárveitingu til hennar? Er ekki einhver kartöfluverksmiðja fyrir norðan líka? Fær hún þá kannske aukafjárveitingu á því sem lifir ársins? Hvað er hér á ferðinni? Ég rek líka augun í það að nýr húsaleigusamningur vegna Þroskaþjálfaskóla Íslands á að kosta 350 þús. kr. Ég veit ekki betur til en að Þroskaþjálfaskóli Íslands hafi ekki skipt um húsnæði og sé í nákvæmlega sama húsnæði og áður. Þegar ég kynnti mér málið síðast var það síst lægri húsaleiga sem var greidd fyrir það húsnæði en hliðstætt húsnæði á sömu slóðum og þess vegna engin ástæða, að því að maður getur séð, til að hækka þá húsaleigu sérstaklega nú á útmánuðum og veita til þess aukafjárveitingu. En ég skal ekki rekja þessi dæmi frekar.

Aðalatriðið er að Alþingi getur í fyrsta lagi ekki látið bjóða sér að það sitji hér í einhverju tilteknu aðhaldshlutverki, skeri og skeri, en síðan sé aukafjárveitingum dreift um víðan völl með tiltölulega tilviljanakenndum hætti og þannig að það sé ekki tryggt að allir þeir sem að ágætum málum starfa og menn vildu gjarnan umbuna sitji ekki við sama borð, að það sé tryggt bærilegt réttlæti í úthlutun peninganna. Þetta tvennt verður að gilda. Þess vegna endurtek ég að sú skýrsla sem hér liggur fyrir og það svar við þeirri fyrirspurn sem ég hef lagt fram á að vera tilefni til þess að skýrar reglur verði settar vegna þess að vitaskuld þarf að vera heimild í samræmi við stefnu frv. til að gefa út aukafjárveitingar, en umfram það hefur Alþingi í rauninni ekki afsalað sér neinu valdi og það er meira og minna tekið og helgað af hefð. Um það hvernig með þetta skuli farið eiga að vera skýrar reglur og það er öllum fyrir bestu. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. fjmrh., og reyndar hæstv. fyrrv. fjmrh., hljóti að vera sammála um það og sammála mér um það að um þetta eigi að vera skýr ákvæði. Svo oft hefur hæstv. fyrrv. fjmrh. gert að umtalsefni hversu óæskilegt væri að vera með aukafjárveitingar og látið okkur heyra það hér á þinginu. Á sama hátt tel ég að hæstv. núv. fjmrh. hafi sýnt á því skilning að um þetta þurfi að vera skýrar reglur.