16.04.1986
Neðri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3978 í B-deild Alþingistíðinda. (3643)

387. mál, þjónustu- og endurhæfingastöð sjónskertra

Frsm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Nd. hefur fjallað um frv. þetta, breytingu á lögum um þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra.

Frv. þetta fjallar um breytingu á 2. gr. laganna þar sem kveðið er á um að ráðherra sé heimilt að semja við augndeild sjúkrahúss til að annast læknisþjónustu á vegum stöðvarinnar og jafnframt að yfirlæknir augndeildarinnar verði yfirlæknir stofnunarinnar.

Reynslan hefur leitt í ljós að það fyrirkomulag hentar ekki og frv. gerir ráð fyrir að niður úr þessari lagagrein verði fellt það ákvæði að yfirlæknir augndeildar, sem hugsanlega er samið við, sé jafnframt yfirlæknir stofnunarinnar og verði breytingin samþykkt verði þessi staða yfirlæknis við þjónustu- og endurhæfingarstöð sjónskertra auglýst laus til umsóknar.

Á fund nefndarinnar komu fulltrúar frá Augnlæknafélagi Íslands, þeir Ólafur Grétar Guðmundsson og Vésteinn Jónsson, og settu fram þær óskir Augnlæknafélagsins að málsliðurinn um heimild ráðherra til að semja við augndeild sjúkrahúss til að annast læknisþjónustu á vegum stofnunarinnar yrði einnig felldur niður úr lögunum, málsgr. öll sem sagt felld burtu. Um það náðist ekki samstaða í nefndinni. Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt eins og það var lagt hér fyrir Nd., þ.e. að 2. málsgr. 2. gr. laganna orðist svo:

Ráðherra er heimilt að semja við augndeild sjúkrahúss að annast að einhverju eða öllu leyti læknisþjónustu á vegum stöðvarinnar.

Þar með eru þá felld niður ákvæðin um að yfirlæknir þeirrar augndeildar sé jafnframt yfirlæknir stofnunarinnar.

Eins og ég sagði varð ekki samkomulag í nefndinni. Hún klofnaði í afstöðu sinni til málsins og leggur meiri hl. til að frv. verði samþykkt óbreytt. Fjarverandi við afgreiðslu málsins var Guðmundur H. Garðarsson. Undir þetta nál., sem er á þskj. 864, skrifa Guðmundur Bjarnason, Ólafur G. Einarsson, Kjartan Jóhannsson og Geir H. Haarde.