05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

23. mál, aukafjárveitingar

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Það er virkilegt umhugsunarefni fyrir hv. Alþingi að lesa þau plögg sem hér liggja fyrir og frétta úr dagblöðum til hvers hæstv. fjmrh. hefur efni á að veita fjármagni og til hvers ekki. Það er líka umhugsunarefni til hvers verið er að samþykkja hér á hæstv. Alþingi skerðingarákvæði sem nefnd eru „þrátt fyrir ákvæði laga“ og fylgja yfirleitt á hverju ári lánsfjárlögum. Á hverju ári er það samþykkt þar. En um leið og þau eru samþykkt koma aukafjárveitingar, 10 millj. hér og 10 millj. þar. Og hver hefur ákveðið þessar aukafjárveitingar? Jú, það er fjmrh. Jafnvel hefur það í sumum tilfellum verið kynnt fyrir fjvn. en í sumum tilfellum ekki.

Í þessu sambandi langar mig til að nefna t.d. Kvikmyndasjóð. Það var mikið rætt um það á síðasta þingi að skert var framlag til Kvikmyndasjóðs, en síðan komu 10 millj. þar og þá var því máli bjargað en ekki samþykkt af hæstv. Alþingi. Upp á síðkastið höfum við séð líka framlög til hlutafélaga. Maður veltir því fyrir sér hvern verið sé að styrkja í því sambandi. Ekki eru það félagasamtök.

Ég vil nefna hér t.d. pökkunarverksmiðju í Þykkvabænum. Þar fór heil milljón. Hvern er verið að styrkja? Jú, þá einstaklinga sem eiga þessa pökkunarverksmiðju. Ég er alls ekki að mæla því á mót að það þurfi að styrkja iðnað, en það á þá að vera í formi þess að fella niður söluskatt, aðflutningsgjöld eða lögfesta einhver þau ákvæði sem ganga yfir alla en ekki á að styrkja beint hlutafélög þar sem hluthafarnir hljóta á endanum að vera þeir sem hagnast.

Sama má segja um kvennahús. Ég efast ekki um að hæstv. Alþingi hefði samþykkt að veita einhvern styrk til kvennahúss eða einhverrar starfsemi sem þar ætti að fara fram. En 2 millj. til kvennahúss? Það er virkilega spurning. Hvers vegna á að styrkja það hlutafélag sem þar stendur að baki?

Fleira má til taka. Ég gerði það að gamni mínu að taka hérna saman frá 1. til 15. október hvað hefði farið til íþróttamála. Það eru rúmar 6 millj. Í fjvn. er svo verið að fara fram á 2, 3, 4 eða 5 millj. til að ljúka við byggingu skóla fyrir börn okkar. Því miður verður að segja að það er ekki bjart fram undan því það eru svo fáar milljónir ætlaðar til slíkra framkvæmda á næsta ári. En á sama tíma er hægt að veita 6 millj. til ýmissa íþróttamála. Þar eru Frjálsíþróttasambandið, ÍSÍ, Fram, ólympíunefndin og Knattspyrnufélag Reykjavíkur. Þetta eru þeir útvöldu þetta árið í íþróttamálunum.

Ég vil líka benda á að þessar aukafjárveitingar eru ógreiddar. Það er eftir að hækka skatta til að mæta þessum útgjöldum. Það er bara verið að stækka það fjármálagat sem fyrir er. Og það er engin ábyrgð að baki þessara ákvarðana, ekki nokkur, því að í framtíðinni eigum við eftir að innheimta skatta til að fylla upp í það fjárlagagat sem við stöndum nú frammi fyrir og var talið nógu stórt í upphafi sumars og á liðnu sumri þó að ekki væri bætt um betur. Það er spurning fyrir okkur hv. alþm. til að velta fyrir okkur hvað við erum yfirleitt að gera með að samþykkja fjárlög ef þessu heldur svona áfram. Til hvers sitjum við yfir fjárlagafrv. og deilum niður milljón hér og milljón þar eða 10 milljónum hér og 10 milljónum þar? Við höfum ekki hugmynd um, þegar búið er að samþykkja þessi fjárlög, hvaða upphæðir endanlega fara til framkvæmda. Við höfum ekkert yfir því að segja, ef marka má það sem skeð hefur þetta árið, ekki nokkurn skapaðan hlut, ef fjmrh. getur í krafti síns embættis leyft sér að skrifa út, ekki tugi milljóna heldur milljarð, hátt í það, því þetta er 1 089 919 000 kr. fram að 15. október, án þess að þetta hafi verið samþykkt á Alþingi, þrátt fyrir að haft hafi verið samráð við fjvn. um hluta af þessu, og hluti af þessu er líka vegna launahækkana og því geri ég mér fulla grein fyrir og hefði örugglega verið hægt að samþykkja það á þinginu og hefði enginn rétt upp hendi á móti því.

Hér er verið að auka við útflutningsbætur sem var ákveðið að skerða en ekki hægt að standa við. Þó var ákveðið á Alþingi að þær yrðu skertar. Þar er um 40 millj. að ræða. Niðurgreiðsla á rafhitun er 51 millj. Síðan eru Ríkisspítalarnir með 40 millj. og Bifreiðaeftirlit ríkisins með 10 millj. Það fer kannske í leigu á því stóra húsi sem stendur ónotað, er notað sem geymsla. Ekki hef ég heyrt um í hvað þessum 10 millj . hefur verið varið. Kirkjuhús við Suðurgötu hef ég aldrei heyrt minnst á í fjvn. Ég hef ekki hugmynd um hvers vegna þetta kirkjuhús er styrkt upp á 10 millj. og rúmlega það. Þetta eru örfá dæmi sem ég tek af handahófi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Það getur, eins og hér hefur komið fram áður, hver og einn flett þessu plaggi og séð hvaða tölur það hefur að geyma. En það eru líka takmarkaðar upplýsingar sem koma fram í þessu plaggi varðandi þær ákvarðanir sem liggja að baki þessara talna.

Það er virkilega kominn tími til að hv. þm. staldri við og hugsi sitt mál. Á að halda þessu áfram, á að ganga svo á virðingu Alþingis að ráðherrar, hver og einn fjármálaráðherra geti skrifað út úr tómu tékkhefti og ætlast til þess að skattar verði sífellt hækkaðir á þegnum þessa lands og fjármálagötin stækkuð?