16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3981 í B-deild Alþingistíðinda. (3655)

202. mál, verðbréfamiðlun

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það hafa fallið niður af vangá í d-lið 4. gr. frv. orðin „löggiltur endurskoðandi“, sem er eðlilegt þar sem ekki hefur verið athugað við samningu frv. að hér áður þurfti ekki viðskiptafræðipróf til þess að öðlast menntun sem löggiltur endurskoðandi. Það kemur í ljós í niðurlagsgrein 4. gr. að þar er gert ráð fyrir því að löggiltir endurskoðendur búi yfir þeirri þekkingu sem er forsenda þess að veita leyfi til verðbréfamiðlunar. Þar er gert ráð fyrir því að héraðsdóms- og hæstaréttarlögmenn og löggiltir endurskoðendur geti þrátt fyrir ákvæði 1. málsgr. veitt tilteknum viðskiptamönnum þjónustu sína sé hún veitt sem eðlilegur þáttur í víðtækara viðfangsefni. Það er m.ö.o. forsenda fyrir þessari lagagrein, eins og hún er byggð upp, að löggiltir endurskoðendur hafi kunnáttu til að veita þá þjónustu sem hér er gert ráð fyrir.

Ég hafði samband við Félag löggiltra endurskoðenda um þetta efni og þeir voru mér sammála um þetta. Þetta er lítil orðalagsbreyting og nánast leiðrétting.