05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

23. mál, aukafjárveitingar

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram, og reyndar hefur það margkomið fram hjá mér líka, á þeim tíma sem ég gegndi embætti fjmrh., að það er alveg nauðsynlegt að fjmrh. hafi ekki þá kvöð á herðum, og þá heimild eða það vald, að veita þær aukafjárveitingar sem fjármálaráðherrar hafa í fortíðinni þurft að veita.

Ég vil líka taka það fram að ég er sammála þeim sem hér hafa talað um að Alþingi eigi að vinna fjárlögin og eigi að vinna fjárveitingar almennt miklu betur en það gerir. Ég vil líka taka það fram að það verður að virka í báðar áttir. Ég held að enginn fjmrh. geri það að gamni sínu að fara með þá heimild sem aukafjárveitingar eru. Ekki vegna þess að Alþingi hafi með lögum veitt honum þetta, heldur Alþingi með hefð, með hefð, gert honum þá kvöð að þurfa að gegna því. Hitt er svo annað mál að það er ýmislegt annað sem Alþingi hefur líka gert með opnum augum, það er að samþykkja útgjöldin svo langt, langt umfram tekjumöguleika ríkisins að þjóðfélagið stendur ekki undir því. Er ég þá ekki með erlendar lántökur í huga, því flestar af þeim eru í arðbær fyrirtæki, þó að sjálfsögðu sé hægt að deila hart á sumt af því sem gert hefur verið í erlendum lántökum.

En ég vil taka það líka fram að aldrei fyrr, aldrei fyrr hefur nokkur fjmrh. lagt fram opinberlega lista yfir hverja einustu gjörð sína í peningamálum, fyrr en nú, aldrei. Það er kannske þess vegna sem þetta er líklega í fyrsta skipti sem það liggur fyrir prentað í skjölum Alþingis, tilefni fyrir þingheim allan til þess að ræða með rökum gerðir fjármálaráðherra. Og það er ekki ein einasta, ekki ein einasta gjörð fjmrh., Alberts Guðmundssonar, sem hann treystir sér ekki til þess að verja. Það kom, að mér fannst, afskaplega ljóst fram hjá hv. 3. þm. Reykn. að hann skilur þetta. Og hann skilur að þeir sem hafa fengið fjárveitingar hefðu líklega fengið þær, vegna þess að hann vitnaði til hjartalags þm. og taldi þar upp nokkur atriði sem ekki væri kannske hægt með góðu móti að neita. Ég er honum sammála. En það eru ýmis atriði hér í þessum lista sem að sjálfsögðu eru bundin við einstaklinginn sem gegnir embætti fjmrh. hverju sinni. Það er eflaust ýmislegt á þessum lista yfir aukafjárveitingar sem flestir þm., hefðu þeir gegnt embætti fjmrh. þann tíma sem ég gerði það, hefðu ekki samþykkt. Og það hefði þá komið annar listi, ef sá fjmrh. hefði unnið á sama hátt og ég gerði, að gera þann lista opinberan, til umræðu á Alþingi, vegna þess að ég held að það séu rétt vinnubrögð, og ég er nærri viss um að þessum vinnubrögðum verður ekki hætt. Hér eftir verða allir fjmrh. að leggja fram fjárlög eins skýr og þannig úr garði gerð að allir þm. skilji og viti hvað um er rætt.

Hv. 3. þm. Reykv. talar um miklar aukafjárveitingar síðustu daga míns tímabils í embætti fjmrh. Það er ekkert óeðlilegt. Það er ekkert óeðlilegt við það að ráðherra, fráfarandi ráðherra hverju sinni, við hvaða kringumstæður sem það er að hann fer frá, reyni að klára óafgreidd mál. Ég er sannfærður um það að allir ráðherrar vilja ganga hreint til verks og skila sínum eftirmanni, í hvaða pólitískum flokki sem þeir eru, eins hreinu borði og nokkur leið er. Það er ekki víst að allir menn afgreiði mál á sama hátt eða með sama hugarfari.

Hv. þm. talar um að 1/3 af þeim aukafjárveitingum sem ég hafði veitt hafi verið án beiðni frá ráðherrum. Nú er það svo að oft koma beiðnir frá stofnunum og fyrirtækjum við gerð fjárlaga sem fjmrh. og fjárveitinganefnd hafna. Síðan líður ákveðinn tími og þá kemur kannske í ljós að sá niðurskurður hafi verið of mikill. Einstakar stofnanir og fyrirtæki, einstaka skólar, sem hluti af stærra kerfi, eru komnir í þrot af ýmsum ástæðum. Það er vitnað hér í einn skóla úti á landi, sem var tekinn út öðrum fremur. Það var vegna þess að sá skóli stóð frammi fyrir þeirri staðreynd að það var verið að loka fyrir hita og rafmagn hjá honum.

Það eru skýringar hér sem ég skal reyna að gefa þeim sem vilja við einstaka liði, en það er allt of langt mál að fara í hvern lið fyrir sig. Það er talað um klúbba og félög. Það er alveg rétt. Og af hverju þessir, en ekki einhverjir aðrir? Það er tekinn fyrir Lionsklúbbur. Það er vegna þess að þessi Lionsklúbbur var með ákveðna líknarstarfsemi í huga, eða styrkveitingar til líknarstarfsemi, og hafði þar með ákveðinn kostnað til þess opinbera sem ég hafði ekki heimild til lögum skv. að fella niður. En það var fordæmi fyrir því frá öðrum ráðherrum að aukafjárveitingar hafi verið veittar til sama klúbbs til að mæta þessum aukakostnaði, þannig að heildarárangur af sjálfboðaliðsstarfi félaganna færi í þetta líknarstarf.

Það er talað um íþróttafélögin. Það er hægt að segja að það sé gæluverkefni mitt. Og það er alveg rétt, vegna þess að ég er alinn upp í íþróttahreyfingunni. Ég þekki starfsemi og innviði íþróttahreyfingarinnar betur en nokkur hér inni. Ég er búinn að vera í íþróttahreyfingunni síðan ég man eftir mér, og ég er búinn að vera forustumaður íþróttahreyfingarinnar. Ég veit að nákvæmlega sama starf er unnið hjá ungmennafélögum og fleiri slíkum samtökum. Það er ekkert starf, sem unnið er hér á landi, meira fyrirbyggjandi fyrir æskulýðinn, og uppbyggjandi fyrir þjóðfélagið, og manndómsskapandi, en einmitt íþróttahreyfingin. En íþróttahreyfingin er gömul í augum þeirra sem ekki þekkja hana, alveg eins og Stórstúkan er að athlægi hjá sumum, vegna þess að hún er gömul og þar sitja gamlir menn, segja sumir, en átta sig ekki á því að þetta er fólk sem hefur eytt æskuárum til elliára í hugsjónir. Og það er bara vegna þess að skilning vantar sem hlegið er að þessum stofnunum í staðinn fyrir að styrkja þær. Það eru komin ný samtök sem eiga að koma í staðinn fyrir þessi gömlu.

Íþróttafélögin sóttu ekki öll um aukafjárveitingar. Það voru tvö. Það var KR og það var Fram. En af hverju sóttu þessi félög um aukastyrk, ekki styrk, heldur flýtingu á framlögum sem þeim ber skv. lögum, en fá ekki vegna þess að framlög til byggingarsjóðanna fyrir íþróttahreyfinguna eru ekki nógu stórir og sterkir? Það var vegna þess að þeir eru á því byggingarstigi í æskulýðsmiðstöðvum að þeir eru komnir í strand í staðinn fyrir að opna.

Hver þm., ef hann hefur tíma til eða nennu, getur gengið hér vestur í KR-hús og séð hvað er að ske þar. Hvað er að ske? Það er uppbygging íþróttafélags í samstarfi við borgarsamfélagið um æskulýðsmiðstöð í hverfinu. Hlutur þeirra sem gefa til félagsins og á að endurgreiðast af opinberum aðilum kemur ekki til baka. Þar með er það ríkisvaldið sem stöðvar framkvæmdir í þessu, má segja, stóra þorpi sem hverfið er, því það er stórt miðað við bæjarfélög utan Reykjavíkur.

Sama á sér stað um knattspyrnufélagið Fram. Það var komið í það mikla þröng með efnisúttöku til þess að halda sjálfboðaliðsstarfi gangandi að starfið var að stöðvast.

Það er talað um Íþróttasambandið. Ég verð að segja að bæði íþrótta- og ungmennasamböndin fá allt of lítinn styrk miðað við það verk sem þau vinna. Íþróttasambandið er með 24 millj. núna á fjárlögum, en leggur samt fram, bara í rekstur, milli 2 og 300 millj. s.l. ár. Allt þetta er unnið í sjálfboðaliðsvinnu og sníkjum. En þetta er rekið skv. lögum.

Það er talað um halla til félaga og síðan minnst á Listahátíð í því sambandi. Það er samkomulag á milli ríkis og Reykjavíkurborgar um að standa undir kostnaði öllum af Listahátíð.

Ég get haldið svona áfram en ég sé ekki ástæðu til þess, enda hefur ekki komið nein sérstök hörð ádeila á neinn einstakan lið, nema framlag til Vesturgötu 3, framlag til menningarmiðstöðvar kvenna. (Gripið fram í: Frá konum.) Og sú harða gagnrýni hefur komið frá konum. En hún hefur líka komið víðar að. Í mín eyru hefur hún komið víðar að en frá konum. En konur eru oft grimmar við karlmenn og þær eru enn þá grimmari sín á milli, það er rétt, virðulegur þm.

En ég get útskýrt fyrir ykkur hvers vegna ég lét þessa peninga. Það er hægt að deila á mig fyrir það. Og ég gerði mér það fyllilega ljóst og sagði það við þær: Þetta verður minn „akkillesarhæll“, en ég ætla samt að gera það. Vegna hvers? Vegna þess, sem konur ekki skilja sjálfar enn þá, þrátt fyrir það sem þær hafa sagt og koma til með að segja, og karlmenn hér inni, sem ég hef heyrt tala, eru ekki farnir að átta sig á og munu kannske aldrei átta sig á, að konur eru að vakna af þyrnirósarsvefni. Og það pólitíska afl sem gömlu flokkarnir - og á ég við minn flokk ekki síður en aðra - eiga eftir að berjast við er hvorki BJ, né heldur önnur tímabundin fyrirbæri. Það eru ekki þau sem eiga eftir að verða hið nýja afl í þjóðfélaginu. Konur eru að skipuleggja sig. Þær eru að skipuleggja sig. Og við skulum ekki líta á það í einhverju gríni eða gamni. Við skulum taka það afl alvarlega og við skulum reyna að vinna með því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Vinna með því, en ekki á móti. Saman getum við orðið sterk. En ef við reynum að bæla niður það sem er að ske, í staðinn fyrir að byggja það upp, þá erum við á rangri braut.

Það getur vel verið að ég sé sá eini hér inni sem er þessarar skoðunar. En þetta er mín skoðun. Og þetta eru mín varnaðarorð líka um leið: Reynið ekki, reynið ekki að standa í vegi fyrir þessu afli. Reynið heldur að skilja það og kannske breyta því sem er gamalt og hefðbundið í það framfaraspor sem við verðum að taka ásamt með þessu nýja afli. Þess vegna var það að þegar á fyrsta gjalddaga, á fyrsta galddaga þeirrar menningarmiðstöðvar sem konur standa að baki - ekki pólitískt afl því að þær eru úr öllum flokkum - er þær horfðu framan í það svartnætti að missa úr höndum sér það sem þær bundu vonir við að gæti orðið framtíðarsamastaður, þá fannst mér það ekki mikið framlag í þá framtíðarsýn, sem ég hef fyrir konur, að ríkissjóður léti brot af því sem fer í að kaupa dagblöð og halda þeim við, til að styrkja þá starfsemi sem konur eru að byggja upp. Fyrir þetta var ég viss um að ég yrði dæmdur hvað harðast og það var það sem ég sagði við þær. Því get ég bætt við hér að vandamál þeirra var ekki bara afborgunin, heldur líka kvöð frá fyrstu afborgun, þetta var önnur afborgun, sem var um 500 þús. kr. og það fengu þær með og það er innifalið í þessum 2 millj. Fyrir þetta skal ég hvenær sem er falla eða falla ekki. En hér getið þið beint spjótum ykkar að mér.

Að tala um milljarða í aukafjárveitingu, þegar vitað er að bara ein fjárveiting vegna kjarasamninga var um 800 millj., það er villandi og engum til sóma og að gefa í skyn að þetta sé allt í smásporslum hingað og þangað. Jafnvel stundum hefur mér fundist deilt á mig vegna aukafjárveitinga, vegna þess að ég birti þær fyrstur fjmrh., í þeim tón að ég hafi jafnvel sjálfur verið að auðgast eitthvað. Ég hefði gaman af að vita hvort sú skoðun þekkist hér inni.

Ég er sammála, ég er mjög mikið sammála því að Alþingi getur ekki látið bjóða sér að sitja undir aukafjárveitingunum. En í augnablikinu, eins og kerfið er hjá okkur, virðulegi 3. þm. Reykn., þá býður það ekki upp á annað en að fjmrh. verður að taka ákvarðanir um aukafjárveitingar þó hann vilji það ekki. En hann á ekki að fela það. Hann á ekki að fela það og ég sem þm. í áratug hef aldrei séð aukafjárveitingar fjmrh. fyrr en nú að ég kem í embætti og fer að gera athugasemdir við vinnubrögð.

En við skulum ekki gleyma því, á sama tíma og við gagnrýnum þetta, og ég endurtek það sem ég sagði áðan, að Alþingi sjálft hefur samþykkt meira í útgjöldum en þjóðin hefur efni á, með því að útgjöldin eru meiri og hærri upphæðir en tekjumöguleikar þjóðarinnar eru samtals. Því er það sem ég hef látið virðulegan lögmann hér í bæ, Pál Líndal, sortera lögin eftir málaflokkum. Hann hefur þegar, eins og alþm. vita, klárað landbúnaðarþáttinn, og er nú með fjármálaþáttinn í fjmrn., til þess að þm. geti á einum stað séð virkilega þar spegilmyndina af sjálfum sér. Sem sagt tölurnar yfir það sem þeir hafa samþykkt í hvern málaflokk fyrir sig.

Hér hafa ekki átt sér stað neinar tilviljanakenndar úthlutanir á peningum. En ég tek undir það að hvort sem þær eru tilviljanakenndar eða ekki, hvort sem þær verða tilviljanakenndar eða ekki, þá eiga þær að vera öllum ljósar. Allar úthlutanir eiga að liggja fyrir. Það tel ég að ég hafi lagt á borðið. Ég tel að aukafjárveitingarnar séu öllum ljósar og ekkert falið.

Ég vil líka samþykkja og taka undir að Alþingi breyti lögum, komi í veg fyrir aukafjárveitingar, ef það er hægt. Eða hafi einn lið, hafi einn lið til að ráðstafa fyrir fjmrh. - það er ekkert óeðlilegt heldur - í það sem upp kann að koma. Því mikið kemur upp af aukafjárveitingum sem Alþingi getur ekki ráðið við þó það vildi vegna þess að uppgjör verka er kannske á því stigi rétt fyrir fjárlagagerð að það er ekki tilbúið fyrr en eftir að fjárlög eru gerð og þá þarf að standa í skilum við verktaka og fleiri.

Ég ætla ekki að fara að verja hér einstaka liði því að ég held að það sé erfitt að taka mál Þroskaþjálfaskóla eða eitthvað annað út úr. - Ég trúi því ekki að virðulegur 3. þm. Reykn. hafi tekið það sem var auðveldast fyrir fyrrverandi fjmrh. að svara, eða erfiðast, skulum við segja, með því að taka Þroskaþjálfaskólann. Ég held að það sé alveg óþarft að svara þessu vegna þess að Þroskaþjálfaskólinn er þannig stofnun, og Blindrafélagið og fleiri slíkir aðilar, að þeir koma ekki til fjmrh. með beiðni nema af því að þeir eru í vanda með rekstur eða tækjakaup. Það er óhjákvæmilegt að skoða slík mál með velvilja. Það er alveg sama hvaða ráðherra eða þm. fengi það erindi. Og ég vil taka fram að mörg af þessum erindum hef ég fengið frá þm., erindi um viðkomandi stofnanir hafa verið send til mín af þm.

Ég vil segja það við Guðrúnu Helgadóttur, hv. 10. landsk. þm., og ég er reyndar búinn að segja það áður, að þessar aukafjárveitingar hafa ekki verið af neinu handahófi. Auðvitað er ekki ástæða til að dreifa til allra í hliðstæðum rekstri, eða með hliðstæð vandamál, ef þeir geta leyst það einhvern veginn öðruvísi. En þeir sem koma með vandamál til einstaklinga, til ykkar hvers og eins, gera það af því að þeir hafa trú á að þið getið leyst það, hver og einn. En það eru ekki öll félög sem hafa sama hlutverki að gegna sem koma með þessi vandamál til ykkar vegna þess að þeir treysta ekki allir jafnt sama manninum. Þess vegna dreifist vandinn á marga. Að sjálfsögðu dregur ráðherra í hverjum málaflokki að vissa aðila með vanda. Og síðan verður hann að vega og meta. Ef hann er sannfærður um að vandinn sé mikill, vandinn geti valdið tjóni, eða engin önnur úrlausn sé, þá hugsar hann allt öðruvísi um hann. En þetta er ekki af handahófi gert í einu einasta tilfelli. Ekki einu einasta tilfelli.

Oft er það svo að aðilar - við skulum segja í kerfinu, því að þetta er allt undir ríkisvæng, það er alveg sama hvort það eru íþróttafélög eða annað, það er allt skv. lögum, og ekki að ósk íþróttahreyfingarinnar að það er undir væng opinberra aðila - koma kannske án þess að fagráðherra viti. Það er alveg rétt. En oftastnær er erindið búið að vera hjá fagráðherra við fjárlagagerð og þá að framkvæmdur hefur verið niðurskurður sem hefur kannske verið of mikill. Þá koma þeir beint til fjárveitingavaldsins. Og framan af, fram að sumarleyfum, og m.a.s. í einu eða tveimur tilfellum í sumarleyfunum, hafði ég mjög náið samband við forustu fjárveitinganefndar, svo lengi sem ég gat haft samband við þá af þeirri ástæðu að Alþingi sat ekki, og að sjálfsögðu þurftu menn á sumarfríum að halda og fóru þá í burtu. Eftir að sumarleyfum lauk hef ég minna haft samband við forustu fjárveitinganefndar.

Það er alveg rétt, sem kemur fram hjá virðulegum 10. landsk. þm., að veitt var fjárveiting til Stofnunar Árna Magnússonar. En hún var veitt vegna þess að stofnunin var með verkefni sem gat ekki beðið en hafði verið skorið niður af fjárlögum, en fagráðherra hafði lagt til að stofnunin fengi. Þegar það kom í ljós að þessi niðurskurður á fjárveitingu gat valdið tjóni frekar en hitt, þá var þessi fjárveiting samþykkt. Ég get um þetta af því að hér er talað um þessa fjárveitingu til Stofnunar Árna Magnússonar sérstaklega.

Virðulegur 10. landsk. þm. talar um Ólympíunefnd Íslands, að það sé ekki forgangsverkefni. Er nokkurt æskulýðsstarf forgangsverkefni hér á Alþingi? Eitt er víst að Ólympíunefnd Íslands hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Og þegar líður að Ólympíuleikum þá fara opinberir aðilar að styrkja ólympíunefndina, ekki í undirbúningsstarfinu sem sjálfir Ólympíuleikarnir byggjast á, heldur til að sækja fundi sem fer fjölgandi eftir því sem nálgast Ólympíuleikana sjálfa. Fólk hefur ekki haft skilning á því að það þarf að undirbúa þátttöku í þessum leikjum. Það er það sem við höfum verið að styrkja núna. Og það getur vel verið að þar sé ég opinn fyrir ákveðinni ádeilu, vegna þess að skilningur minn sem íþróttamanns er allt annar en sá að byrja að styrkja ólympíunefndina þegar líður að Ólympíuleikum, í staðinn fyrir að styrkja undirbúninginn sem þarf oftast nær, ja, tvö til þrjú tímabil Ólympíuleika. Það þarf svona 8-12 ár til undirbúnings Ólympíuleikum. Og hvers vegna fylgi ég því nú eftir fastar en áður? Það er vegna þess að íslenskir íþróttamenn hafa aldrei, hafa aldrei orðið okkur meira til sóma heldur en á síðustu Ólympíuleikum. Við áttum þar verðlaunahafa. Við fylgdumst með handknattleiksmönnum í sjónvarpi hér, sem er meira virði í auglýsingu fyrir þjóðina, bara þeir leikir í handbolta, en nokkur íslensk fjárlög geta staðið undir í gegnum sjónvarp um víða veröld og skrif og tal. Sundmenn okkar, hver á eftir öðrum, komu heim með nýtt Íslandsmet, betri árangur en nokkur Íslendingur hafði nokkurn tíma náð áður. Og það er hægt að telja þannig á öllum sviðum. Spursmálið er: Viljum við taka þátt í Ólympíuleikum eða ekki? Við erum alltaf að þykjast. Við þykjumst vera fjölskylda með fjölskyldum þjóða. Og svo er verið að tala hér um smáaukafjárveitingu til þess að starfið geti hafist fyrr en á síðasta augnabliki fyrir átök. Við skulum kalla þessar aðgerðir, eins og kom fram hjá hv. 10. landsk. þm., niðurlægjandi aðgerðir fyrir fjvn. Ef svo er, ef fjvn. telur þetta niðurlægjandi fyrir sig bið ég hana afsökunar. En látum fjvn. tala fyrir sig sjálfa.

Það var þó einn ljós punktur í þessu. Það var þakkað fyrir skýrsluna eins og hún lá fyrir. Mér finnst full ástæða til þess að þakkað sé fyrir skýrsluna. Ég bið hæstv. núverandi fjmrh. að koma því þakklæti til þeirra sem unnu hana faglega í fjmrn. Hún er vel gerð. Hún er gerð á þann hátt að hún veitir meiri upplýsingar á einum stað en áður og spá fram í tímann líka, fyrir utan þessar margumtöluðu aukafjárveitingar.

Ég skal reyna að hafa þetta.ekki miklu lengra. En ég vil þó, ef fyrirspyrjendur á tveim þskj. óska eftir, reyna að svara fyrir einstaka liði. Því miður var þessi dagskrárliður settur inn á dagskrána eftir að ég hafði fengið dagskrána senda upp í ráðuneyti þannig að ég er ekki með öll gögn, en það skiptir út af fyrir sig ekki neinu máli.

Eitt vil ég minnast á til viðbótar. Það var talað um framlag til kirkjunnar. Ég held að það hafi verið hv. 8. landsk. þm. sem nefndi kirkjuhús við Suðurgötu. Það er alveg rétt. Þar var aukafjárveiting. En það var heimild til að kaupa skrifstofu fyrir biskupsembættið. Það getur vel verið að það hafi verið rangt að staðið, en þannig var að staðið og þannig er ég hugsandi að á meðan Sjálfstfl. er í ríkisstjórn getur kirkjan ætlast til þess að henni sé hjálpað á sem mestan og bestan hátt. Hún getur ekki ætlast til þess að neinn annar stjórnmálaflokkur geri meira fyrir hana. En hvernig var svo staðið að þessu? Kirkjan var í mjög þröngu skrifstofuhúsnæði við mestu umferðargötu bæjarins, sem er Hverfisgatan, á horni Klapparstígs og Hverfisgötu. (JBH: Var þessi aukafjárveiting úr flokkssjóði, herra fyrrv. fjmrh.?) Nei, nei. Hv. þm. minnti mig svo mikið á mann úr biblíusögunni þegar hann rak höfuðið þarna inn að ég var hissa að hann skyldi bera fram þessa spurningu. - En þannig var að staðið ..

... Af hverju hlær fólk? Hafa þm. ekki séð biblíumyndir? Þannig var að staðið að kirkjan var í þessu litla, allt of litla og þrönga húsnæði og var búið að taka ákvörðun um að hún skyldi fá betri samastað. Þá bauðst til sölu aðstaða þar sem Krabbameinsfélag Íslands hafði áður haft sína rannsóknarstöð við Suðurgötu. Þetta hús, þrátt fyrir vandamál ríkissjóðs, var keypt undir biskupsskrifstofu og borgað út í hönd vegna þess að andvirðið fór í hús og aðstöðu Krabbameinsfélags Íslands. Með þessari aðgerð var verið að hjálpa tveimur stofnunum í einu og ég vona að menn geti samþykkt að það hafi ekki verið slæm ráðstöfun. A.m.k. sparaði það ríkissjóði að uppfylla óskir frá Krabbameinsfélaginu um frekara framlag í það starf sem þeir voru að undirbúa í nýju húsi. Ég vona að hv. 8. landsk. þm. telji því fé ekki hafa verið illa ráðstafað.

Ég vil ekki lengja þessa umræðu frekar, en ég vil reyna eftir minni og eftir þeim plöggum sem ég af tilviljun hafði í skúffunni hér gera grein fyrir einstökum atriðum aukafjárveitinga, einstökum liðum, ef fsp. koma fram. Ég þakka ykkur kærlega fyrir að hafa fengið tækifæri til að ræða þessar fjárveitingar og ég vona að í framtíðinni verði allir fjmrh. með eins gott yfirlit yfir þær og ég hef gert fyrstur fjmrh.