16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3987 í B-deild Alþingistíðinda. (3668)

399. mál, almannatryggingar

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa fullum stuðningi mínum við þetta frv. hæstv. ráðh. og ríkisstj. Ég vil jafnframt þakka hæstv. ráðh. fyrir að taka upp það frv. til laga sem liggur fyrir þinginu á þskj. 20 og er 20. mál þingsins. Efnislega er málið náskylt og ég tel ekki ástæðu til að halda til streitu tillögunni eins og hún var þegar ég lagði hana fram hér fyrr í vetur, tel ekki muninn það mikinn.

Hinu get ég ekki stillt mig um að vekja athygli á, hvernig í raun og veru er farið með vinnu þm. á hinu háa Alþingi. Þetta frv. mitt er búið að liggja í hv. heilbr.- og trn. frá fyrstu dögum þingsins. Allir nefndarmenn voru því í hjarta sínu sammála og gerðu sér fullkomlega grein fyrir að hér væri mikið réttlætismál á ferðinni, að mæðralaun væru greidd til 18 ára aldurs eins og barnameðlög og barnalífeyrir. Af hverju var þetta þá ekki samþykkt þá þegar og varð að lögum fljótlega á eftir? Jú, það er ofur einfalt. Stjórnarandstöðuþingmanni líðst ekki að fá samþykkt mál af þessu tagi sem varðar beinlínis hagsmuni þúsunda íslenskra fjölskyldna. Þetta er auðvitað mikill ljóður á ráði Alþingis. Hér eigum við að afgreiða mál málefnanna vegna en ekki í einhverri samkeppni um hver hafi borið málið fram. Það á ekki að skipta neinu minnsta máli.

Þar á ofan vil ég benda hæstv. ráðh. á, um leið og ég endurtek að ég met mikils að hún skyldi veita þessu máli brautargengi, að stórmannlegra hefði verið að hæstv. ráðh. hefði gert sína brtt. við frv. sem ég lagði fram vegna þess að þar átti brtt. beint við. Lagalega og formlega er hins vegar ekkert rangt við að bera það fram sem brtt. við allt annað mál, sem hún hafði lagt fram, sem er einnig frv. til laga um breytingu á almannatryggingalögum. En ef hæstv. ráðh. taldi ráðherraheiður sinn þar í veði skal ég upplýsa að mínum þingmannsheiðri er misboðið. Ég tel ekki að það eigi að vera viðurkennt hér á hinu háa Alþingi að efnislega sams konar mál sé verra ef ég flyt það en hæstv. ráðh. Menn sem tala hátt um lýðræði og þingleg vinnubrögð hljóta að viðurkenna þetta. Því segi ég þetta hér að við megum sæta því ár eftir ár, þingmenn stjórnarandstöðunnar, að ágæt mál, sem allir eru sammála um, liggja óhreyfð í nefndum þingsins vegna þess að það er ekki liðið að þau mál nái fram að ganga. Oft er einasta ráðið til þess að þau nái samþykki að velviljaður ráðherra beri málið fram sjálfur. Það ber að meta þegar slíkt gerist. Það vil ég endurtaka.

En ég vek athygli á þessu og ég held að það væri mál til komið að þm. stjórnarandstöðunnar ræddu þessi mál nokkuð og hér yrðu tekin upp öðruvísi vinnubrögð. Það er á engan hátt sæmandi að ekki sé sama hvaðan gott kemur ef Alþingi Íslendinga hefur það verkefni eitt að vinna að velferð þegna þessa lands og þess fólks sem hefur kosið okkur til að vinna á hinu háa Alþingi. En að sjálfsögðu mun ég styðja frv. hæstv. ráðh. og fagna því að þetta mál er í höfn.