16.04.1986
Neðri deild: 82. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3989 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. sem birtist á þskj. 865. Texti nál. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur athugað málið á fundum sínum og aflað um það umsagna frá viðskiptabönkum og Sambandi sparisjóða. Þá kvaddi nefndin á sinn fund Þórð Ólafsson, forstöðumann bankaeftirlits, Lúðvík Jósepsson, Stefán Pálsson, bankastjóra, Val Valsson, bankastjóra, Sigurð Markússon, framkvæmdastjóra Sjávarafurðadeildar SÍS, Guðmund H. Garðarsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Hjört Hjartarson frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, Finn Geirsson og Árna Árnason frá Verslunarráði Íslands, Gunnar Helga Hálfdánarson frá Fjárfestingarfélaginu og Björn Líndal frá viðskiptaráðuneytinu.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Meiri hl. flytur brtt. við 1. málsgr. 8. gr. þar sem felld er niður heimild ráðherra til að ákveða með reglugerð hvað felist í orðinu „ráðstöfunarfé“. Þess í stað leggur meiri hl. til að orðið verði skýrt þannig í lögum að það taki til alls þess fjár sem innlánsstofnun hefur til útlána. Þar er auk innlána einkum um erlent lánsfé stofnunar að ræða, svo og fjáröflun innanlands með útgáfu og sölu verðbréfa og skuldabréfa. Meiri hl. nefndarinnar þykir þó ekki rétt að skylt verði að miða ætíð við þessa skilgreiningu og leggur því jafnframt til að heimilt verði að undanskilja tiltekna flokka útlána þegar og ef binding verður miðuð við ráðstöfunarfé. Er þá haft í huga að binding ráðstöfunarfjár trufli ekki eðlilega fyrirgreiðslu banka og annarra innlánsstofnana við framleiðsluatvinnuvegina. Leggur nefndin áherslu á að þessa sjónarmiðs verði ævinlega gætt þegar binding ráðstöfunarfjár er ákveðin. Í þessu skyni hefur meiri hl. nefndarinnar talið rétt að ráðh. samþykki hverjir skuli vera þeir flokkar útlána sem undanþegnir skuli bindingu þegar binding á ráðstöfunarfé stendur fyrir dyrum.

Einnig leggur meiri hl. nefndarinnar til að áskilið verði samþykki ráðherra til þess að reglur um grundvöll og framkvæmd bindingar geti öðlast gildi. Er með þessari till. m.a. stefnt að því að tryggja að sama féð verði ekki bundið tvisvar svo sem þegar banki annast milligöngu fyrir annan banka um útvegun erlends lánsfjár.

Hvað varðar breytingu á 10. gr. verður að telja eðlilegt að Seðlabankinn geti að fengnu samþykki ráðherra bundið vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum. Ekki getur talist heppilegt að vaxtaákvarðanir hér á landi þróist í miklu ósamræmi við það sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar. Einnig verður að gæta þess að vaxtamunur inn- og útlána verði ekki óhæfilega mikill.

Síðast en ekki síst má nefna að ríkisstj. kann að vera nauðsynlegt að geta haft bein áhrif á vaxtastig við undirbúning og framkvæmd alhliða efnahagsráðstafana.

Varðandi breytingar á 18. gr. þykir sjálfsagt að bankaráði viðskiptabanka, eða félagsstjórn sé um aðra innlánsstofnun að ræða, sé gerð grein fyrir kröfum, athugasemdum og fyrirhuguðum aðgerðum bankaeftirlitsins þegar í stað.

Þar sem enn hafa ekki verið sett sérstök lög um dráttarvexti er nauðsynlegt að lögfesta í seðlabankalögum ákvæði til bráðabirgða þar um.

Einnig er nauðsynlegt að setja ákvæði til bráðabirgða varðandi ákvörðun á greiðslu hagnaðar Seðlabankans í ríkissjóð á árinu 1986.“

Undir þetta rita Páll Pétursson, Ólafur G. Einarsson, Halldór Blöndal og Guðmundur H. Garðarsson.

Brtt. þær, sem við flytjum, eru á þskj. 866 og skýra þær sig að mestu leyti sjálfar. Þó langar mig til að fara örfáum orðum um sumar þeirra sem ekki var minnst á í nál.

Í 1. mgr. 11. gr. er lagt til að felld verði út skylda þess efnis að auk ríkissjóðs skuli aðrar ríkisstofnanir geyma innlán sín í Seðlabankanum eftir því sem við verði komið. Þessi breyting felur ekki í sér að ríkisstofnun verði óheimilt að geyma innstæður sínar í Seðlabankanum heldur einungis að slíkt skuli gert með milligöngu ríkissjóðs og fjmrn. Með þessu móti virðist mega auka aðhald fjmrn. með fjármálum einstakra ríkisstofnana. Breytingin skapar einnig möguleika á að ríkisstofnanir geti haft viðskipti sín annars staðar en innan Seðlabankans.

Lagt er til að á 20. gr. verði gerð sú breyting að Lánastofnun sparisjóðanna verði bætt við þær stofnanir sem heimilt sé að versla með erlendan gjaldeyri. Er sú breyting í samræmi við ákvæði XII. kafla laga nr. 86 1985, um sparisjóði.

Þá er rétt að vekja á því athygli að skýringar þær, sem prentaðar eru í upphaflega þskj. með 10. gr. í frv., eiga ekki við greinina eins og hún er nú orðin. Hún hefur breyst í meðförum síðan þessar skýringar voru samdar.

Minni hl. fjh.- og viðskn. setur fram á þskj. 878 margar brtt. við frv. til l. um Seðlabanka. Þessar till. eru flestar komnar frá eða að hluta til unnar upp úr frv. bankamálanefndar sem prentað er sem fskj. með nál. þeirra minnihlutamanna. Þetta eru brtt. sem eru þess eðlis að ég vil fara örfáum orðum um þær og tel það nauðsynlegt til að varpa ljósi á hvern skilning við í meiri hl. höfum á þeim og því sem í frv. stendur.

1. till. er um birtingu stefnu ríkisstj. til Seðlabankans. Hér er í raun um endurtekningu á ákvæðum Ólafslaga að ræða. Í 2. gr. þeirra laga er gert ráð fyrir að skýrsla um þjóðhagsáætlun sé lögð fyrir á Alþingi á hverju hausti. Ljóst er að til þess er ætlast að efni þjóðhagsáætlunar taki m.a. til þeirra atriða sem þessi brtt. gerir ráð fyrir að verði sérstaklega kynnt Seðlabankanum. Að vísu eru það nýmæli að það sé sett beinlínis í lög að birta eigi Seðlabankanum stefnu ríkisstj. en ætla verður að það leiði af ýmsum öðrum ákvæðum laga að ríkisstj. komi markmiðum sínum í efnahagsmálum á framfæri við þær ríkisstofnanir sem ætlað er að annast framkvæmd stefnunnar. Það er ekki aðalatriðið hvort þessi markmið séu kynnt ársfjórðungslega, oftar eða sjaldnar. Meginatriðið er að sjálfsögðu að stefnan sé ætíð skýr. Af þessari ástæðu er lögfesting þessarar brtt. að okkar dómi ekki nauðsynleg. Hún er hins vegar allrar athygli verð og það er rétt að leggja áherslu á að reynt sé að bæta vinnubrögð við gerð þjóðhagsáætlunar enn frekar.

2. brtt. er við 6. gr., þ.e. að Seðlabankinn taki við innlánum frá innlánsstofnunum. Hér er m.a. lagt til að viðskiptabönkum, sem hafa með sér takmarkað samstarf, verði heimilt að hafa sameiginlegan viðskiptareikning hjá Seðlabankanum. Þessi möguleiki er fyrir hendi í frv. en í lokamálsgrein 6. gr. segir að Seðlabankinn skuli setja nánari reglur um viðskipti sín við innlánsstofnanir. Það er því ekkert sem mælir gegn sameiginlegum viðskiptareikningi t.d. tveggja viðskiptabanka hjá Seðlabankanum hafi þeir með sér samstarf. Þetta mun þó ekki hafa tíðkast samkvæmt gildandi lögum. En samkvæmt orðanna hljóðan er ekkert í lögunum sem kemur í veg fyrir að unnt sé að semja um slíka reikninga við bankann. Það má ekki álykta svo að Lánastofnun sparisjóðanna einni sé heimilt að koma fram gagnvart Seðlabankanum í viðskiptum sem fulltrúi margra innlánsstofnana. Ástæða þess að hún er sérstaklega til tekin er ósk sparisjóðasambandsins sem fram er komin vegna þess að hér er um nýja stofnun að ræða sem nauðsyn ber til að treysta verulega í sessi.

Jafnframt er hér lagt til að í stað Seðlabankans verði það ráðherra sem setji nánari reglur um viðskipti Seðlabankans við innlánsstofnanir samkvæmt 6. gr. frv. Þessari hugsun skýtur víða upp í brtt. hv. þm. í minni hl. nefndarinnar og má sem dæmi nefna brtt. við 7. og 8. gr. frv.

Vissulega getur verið nauðsynlegt að draga nokkuð úr áhrifavaldi Seðlabankans. En það er hins vegar að sjálfsögðu ekki ætlunin að Seðlabankinn verði deild í viðskrn., eins og sumar af þessum till. virðast næstum gera ráð fyrir. Seðlabankinn á að vera sjálfstæð stofnun og annast framkvæmd þeirra markmiða sem ríkisstj. setur í efnahagsmálum, einkum þeim er lúta að framvindu peningamála. Honum ber að hafa nokkurt sjálfstæði um það hvernig hann hagar þessari framkvæmd. Í því efni skal hann gæta ákvæða 4. gr. sem fjallar um samstarf ríkisstjórnar og bankans. Þar segir í frv., herra forseti:

„Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstjórnina að ræða er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því að sú stefna, sem ríkisstjórnin markar að lokum, nái tilgangi sínum.

Seðlabankinn skal eigi sjaldnar en tvisvar á ári senda ráðherra grg. um þróun, horfur í peningamálum, greiðslujafnaðar- og gengismálum.“

Það er auðvitað nauðsynlegt að Seðlabankinn sé í takt við ríkisstjórnina á hverjum tíma. Seðlabankinn verður að kappkosta að hafa gott samstarf við ríkisstjórnina um framkvæmd. þeirrar peningamálastefnu og efnahagsstefnu sem ríkisstjórn markar á hverjum tíma. Taki bankaráð Seðlabankans mikilvæga ákvörðun sem ráðherra telur brjóta gegn sinni skoðun er ótvírætt að hann getur lagt fyrir bankann að breyta þessari ákvörðun, enda er honum falin yfirstjórn bankans ásamt bankaráði samkvæmt frv.

Um 4. brtt. vil ég segja þetta: Hún fjallar um innlánsbindingu og þar er um ýmsar breytingar að ræða frá frv. Stærsta breytingin er fólgin í því að niðurlagsákvæði greinarinnar er fellt brott. Þar segir að Seðlabankanum sé heimilt að setja innlánsstofnun reglur um lágmark eða meðaltal lauss fjár sem þeim ber ætíð yfir að ráða. Ekki er ljóst hvers vegna þetta er lagt til af hv. flm. en vera kann að hér sé um mistök að ræða.

Um aðrar breytingar má almennt segja að þær feli í sér takmörkun á notkun þess stjórntækis sem felst í bindingu Seðlabanka á innlánsfé eða ráðstöfunarfé innlánsstofnana. Um það er ekki ágreiningur að takmarka ber notkun þessa stjórntækis frá því sem gildandi lög heimila. Í frv. og brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. er gert ráð fyrir að svo verði gert. Má þar nefna að bindingu má einungis beita þegar sérstaklega stendur á og er þetta orðalag skýrt í athugasemdum á þann hátt að þessu stjórntæki skuli aðeins beitt þegar telja megi að önnur stjórntæki dugi ekki til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Þá leggur meiri hl. nefndarinnar til að binding skv. 9. gr. verði felld brott og jafnframt sérstök binding skv. 42. gr. frv. Verði þessar breytingar lögfestar er ekki unnt að skýra vilja Alþingis á annan veg en að takmarka beri bindingu frá því sem nú tíðkast. Slík afgreiðsla verður að teljast fullnægjandi.

8. brtt. við 13. gr. frv. má ekki líta á eina sér. Hún verður að skoðast í tengslum við önnur ákvæði kaflans um innlend viðskipti Seðlabankans. Ef ákvæði kaflans eru skoðuð með hliðsjón af brtt. meiri hl. má segja að brtt. minni hl. sé að mestu ástæðulaus.

Um 9. brtt. er þetta að segja: Þessi brtt. felur í sér afskaplega erfitt stjórnarmunstur innan Seðlabankans og vekur þá spurninguna hvers vegna minni hl. leggur ekki einfaldlega til að skrefið verði stigið til fulls og bankaeftirlitið gert að sjálfstæðri stofnun, sem líka hefði mjög vel getað komið til greina. Niðurstaðan varð samt sú hjá meiri hl. að ekki sé ástæða til að fjölga ríkisstofnunum og betra sé að kveða á um aukin og virkari afskipti ráðuneytis og ráðherra af starfsemi bankaeftirlitsins með stofnun sérstakrar samstarfsnefndar.

Um 9. brtt., upplýsingaskylduna, er þetta að segja: Þessi brtt. felur einungis í sér þá breytingu að bankaeftirlitið hafi lögboðna upplýsingaskyldu gagnvart ráðherra. Slík skylda er fyrir hendi hvort sem ákvæðið er tekið upp í frv. eða ekki. Jafnframt má minna á niðurlagsákvæði 18. gr. frv. en það má alls ekki skilja þannig að þar séu lögfest að öllu leyti samskipti bankaeftirlitsins við ráðuneytið.

Um brtt. 10 a. má vísa til þess sem sagði undir 9. tölulið.

Brtt. 10 c. felur í sér eðlilegar reglur um starfsskyldur þeirra sem starfa hjá bankaeftirliti Seðlabankans. Þær hafa víðtækara gildi og ættu að ná til ýmissa annarra starfsmanna bankans. Á hinn bóginn á þetta ákvæði illa heima í frv. Því má ekki heldur gleyma að lög nr. 38 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, virðast hiklaust eiga að ná til starfsmanna ríkisstofnunar eins og Seðlabankans. Þar er að finna nú þegar sett lagaákvæði sem eiga að varna hagsmunaárekstrum. Af þessum sökum tel ég nægilegt að ákvæði þess efnis, sem brtt. felur í sér, verði sett í reglugerð um Seðlabankann og taki þá jafnframt til annarra starfsmanna eftir því sem við á. Ég tel að ráðherra ætti vel að geta staðfest að þessa verði gætt við samningu reglugerðarinnar.

Brtt. 12 a. og b. er að finna í frv. til laga um verðbréfamiðlun og það er óþarfi að lögfesta sömu ákvæðin tvisvar á sama þingi.

Brtt. 12 c. er um kreditkortin. Samkvæmt upplýsingum viðskrn. er unnið að samningu reglna um greiðslukort hjá Verðlagsstofnun. Þar mun verða gert ráð fyrir að Verðlagsstofnun fylgist með þessum viðskiptum og það er ástæðulaust að samþykkja lagaákvæði sem gengur í aðra átt en þessi framvinda mála. Á það ber einnig að líta að óeðlilegt er að taka út eina tegund lánsviðskipta og setja undir eftirlit bankaeftirlitsins en láta t.d. hefðbundin afborgunarkjör í verslunum eiga sig.

Varðandi till. þeirra um að bankaeftirlitinu beri skylda til að veita ráðgjöf er þess að geta að sjálfstæð ráðgjöf og eftirlit fara tæplega saman innan einnar og sömu stofnunar. Æskilegt er að þannig sé búið um hnútana við rekstur innlánsstofnana að þar sé fyrir hendi staðgóð þekking og reynsla á slíkum rekstri. Þá má minna á Tryggingasjóð sparisjóða sem ætlað er að veita sparisjóðum þá þjónustu sem brtt. gerir ráð fyrir að bankaeftirlitið veiti.

Um brtt. 15 a.: Með orðalaginu „stjórn innlánsstofnunar“ er vitaskuld átt við bankaráð viðskiptabanka og félagsstjórn annarra innlánsstofnana.

Varðandi 16. brtt., þar sem kveðið er á um innlánsstofnun sem stofnar útibú, afgreiðslu, þá er sú breyting óþörf, því að heimildir bankaeftirlitsins í þessu efni eru þegar fyrir hendi skv. 17. gr. frv.

Um brtt. 17-20 er það að segja að varðandi launakjör kemur til greina að minna á sérstöðu Seðlabankans í stjórnkerfinu og nauðsyn nokkurs sjálfstæðis bankans.

Varðandi 21. till.: Í athugasemdum með frv. kemur fram að ætlunin sé að setja reglur, sem brtt. felur í sér, í reglur um gerð ársreiknings. Hér er um sömu till. að ræða og í viðskiptabanka- og sparisjóðslögum. Þar hefur við útgáfu reglna um gerð ársreiknings verið staðið að öllu leyti við þau loforð sem viðskrh. gaf á Alþingi um þetta atriði fyrri hluta árs 1985.

Um 22. brtt. varðandi arðgreiðslur Seðlabankans ber þess að geta að það getur verið óskynsamlegt að hirða allan hagnaðinn af Seðlabankanum á hverju ári. Hvernig fer þá ef tap kemur? Á þá að greiða tapið úr ríkissjóði? Meiri hl. velur þá leið að taka helming hagnaðarins, ef um hann er að ræða, en láta Seðlabankanum eftir hinn helminginn, m.a. til að mæta rekstrartapi í næstu framtíð. Með þessu verða tekjur ríkissjóðs af Seðlabankanum einnig jafnari.

Ég hef hér fjallað í nokkuð löngu máli um brtt. minni hl. Það hef ég talið nauðsynlegt til að sýna fram á að margt, sem í þeim felst, felst einnig í frv. og hefur verið unnið upp úr þeim stofni sem bankamálanefnd lagði til á sínum tíma. Jafnframt hef ég talið nauðsynlegt að gera þetta svona ítarlega til þess að síðar verði ekki gagnályktað þannig að með því að fella þessar brtt. minni hl. sé verið að afneita ýmsu í efni þeirra sem er gagnlegt og felst þegar í frv.

Að lokum vil ég þakka fjh.- og viðskn. gott samstarf við meðferð þessa frv. Við höfum unnið mjög vandlega og með opnum huga að þessari vandasömu lagasetningu.