17.04.1986
Sameinað þing: 76. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4011 í B-deild Alþingistíðinda. (3685)

322. mál, Alþjóðahugverkastofnunin

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Á fundi sínum 14. þ.m. tók utanrmn. til meðferðar till. til þál. um fullgildingu samnings um stofnun Alþjóðahugverkastofnunar.

Alþjóðahugverkastofnunin er ein af 15 sérstofnunum Sameinuðu þjóðanna og upphaf hennar má rekja til Parísarsamnings um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar sem gerður var þegar árið 1883 og Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum sem gerður var árið 1886. Tilgangur þessarar stofnunar er að stuðla að vernd hugverka um allan heim. Það er gert bæði með milliríkjasamvinnu og í samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir þegar þörf krefur. Jafnframt er það tilgangur stofnunarinnar að tryggja samræmda stjórnun ýmissa alþjóðasamninga á sviði hugverka. Stærstu samningarnir eru Parísarsamningurinn og Bernarsáttmálinn. Ísland varð aðili að Parísarsamningnum árið 1962 og að Bernarsáttmálanum árið 1947.

Nefndin er sammála um að mæla með samþykkt þessarar þáltill. um fullgildingu samnings um stofnun Alþjóðahugverkastofnunar.