17.04.1986
Neðri deild: 84. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4017 í B-deild Alþingistíðinda. (3705)

Um þingsköp

Menntmrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég bið og segi að menn stilli nú hugi sína í þessu máli. Ég fyrir mitt leyti er þess fullviss að þetta mál er orðið gott samkomulagsmál og þannig úr garði gert að allir megi vel við una. Málið er mjög mikilvægt og var raunar þáttur í kjarasamningum kennara og alveg ástæðulaust að menn séu með orðhengilshætti og hæpnum fullyrðingum að nota þetta til að fá útrás fyrir gremju sína sem einhver kann að vera og oft vill verða á síðustu stundum þings þegar menn þurfa að leggja sig mjög fram um afgreiðslu mála. Ég er fullkomlega sáttur við stjórn hæstv. forseta á þessu máli og hér er ekki teflt í neina tvísýnu varðandi þetta mál.