05.11.1985
Sameinað þing: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

23. mál, aukafjárveitingar

Iðnrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka fyrir þær umræður sem hér hafa átt sér stað og að sjálfsögðu geri ég það vegna þess að ég fagna því að hafa getað tekið þátt í umræðum um aukafjárveifingar. En ég vil minnast á nokkra punkta sem fram hafa komið í seinni hálfleik þessara umræðna.

Virðulegur 10. landsk. þm. talaði um að það væri hættulegt ef ákvarðanir fjmrh., hver sem hann er, mótast af einstaklingnum sjálfum. Ég er ansi hræddur um að erfitt verði að koma í veg fyrir það. Að sjálfsögðu verður Alþingi þá og þeir sem kjósa sér ríkisstjórn að kjósa um manninn sem er í framboði, um einstaklinginn sjálfan, og að sjálfsögðu hlýtur svo að vera, hvort sem einstaklingurinn gegnir ráðherraembætti, þingmannsembætti eða nefndarstörfum, að störf hans mótist af eigin persónu. Það hlýtur alltaf að verða svo. Það væri huggulegt ef honum væri skammtaður persónuleiki bara við það að verða þm. eða ráðherra. Ég er hræddur um að það væri erfitt að setja mig í slíkt mót. Ég vona að það eigi aldrei annað eftir að ske en að persónan fái að njóta sín í hvaða starfi sem maðurinn gegnir.

Ég vil líka að það komi hér glöggt fram að fjárlagafrv. sem hér liggur frammi var komið fram áður en nokkrar fsp. um aukafjárveitingar komu fram og það fjárlagafrv. er með upplýsingum um allar þær aukafjárveitingar sem þekktar voru fram að þeim tíma að frv. fór í prentun. Síðan komu að sjálfsögðu til viðbótar þau afgreiðslumál sem ég gat um áðan að ég vildi ekki skilja eftir óafgreidd fyrir eftirmann minn.

Ég vil líka taka undir það í annað sinn í dag, sem kom fram hjá hv. 10. landsk. þm., að skuldir íbúðaeigenda, sem ekki eru á dagskrá þó að ummæli hafi slæðst inn í þessar umræður, eru að verða einstaklingnum um megn og ekki bara einstaklingnum heldur líka fyrirtækjum. Fyrirtæki sem þurfa á veltufé að halda að láni eru líka í auknum mæli að missa tök á sínum eignum vegna þess hve peningar eru orðnir dýrir. Ég tel það alveg óhæfu og getur ekki gengið lengur. Það er í annað sinn í dag sem ég segi það úr þessum hv. ræðustól að krónan sem er greidd í laun er að tapa verðgildi sínu frá degi til dags. Þetta eru hörð ummæli um sjálfan mig og þá sem ég starfa með, en krónan sem felst í lánum til þessara einstaklinga og launin eiga að standa undir annaðhvort heldur verðgildi sínu með vísitölu eða hún eykur það. Það getur ekki gengið og það sjá allir. Það finna allir! Það horfa allir upp á það í þjóðfélaginu hvert stefnir.

Ég vil segja nokkur orð í tilefni af ummælum hv. 7. landsk. þm., sem mikið hefur höggvið að mér frá því fjárlagafrv. kom fram og jafnvel áður í sambandi við aukafjárveitingar, án þess að ég hafi séð ástæðu til þess að svara. Það hefur vakið hvað mesta athygli og hún hefur dregið athygli að því að menningarmiðstöð kvenna að Vesturgötu 3 fékk 2 millj. til að standa í skilum, en ekki er talað um góðgjörðir kvenna. Það er alveg rétt. Það hefur ekki verið gert í þessu sambandi. En svo ung er hv. þm. ekki að hún hafi ekki orðið vör við það í gegnum tíðina og sérstaklega á ákveðnum tyllidögum, afmælisdögum t.d., Vífilsstaða og fleiri, Landspítalans og fleiri staða eða fæðingardeildarinnar, að kvenna hafi verið minnst með virðingu fyrir þau störf sem þær hafa unnið í fjársöfnun og uppbyggingu á þessum stofnunum, bæði byggingunum sjálfum og starfseminni, fyrir utan að styrkja það alla tíð síðan. Kvenfélög Íslands eru ekki bara eitthvað sem á að gleymast vegna þess að nýjar hreyfingar hafa komið upp. Kvenfélög Íslands eru undirrót að öllu sem kvenfólkið er að gera í dag. Við skulum átta okkur á því. Þær hafa unnið mikið og gott starf í gegnum tíðina. En í þessu sambandi er engin ástæða til að minnast á það sérstaklega hvað hinir eða þessir hafa gert í fortíðinni, hvort sem það er kvenfólk eða ekki.

Ég vil leiðrétta það, ef einhver hefur misskilið, að ég hafi verið að snúa sök frá mér og yfir á Alþingi. Það er mesti misskilningur og var ekki ætlunin.

En hv. þm. sagði að skoðanir sínar byggðust ekki á fjárveitingunum. Ég tók ekki eftir að hún héldi áfram að segði þá á hverju skoðanir byggjast. Það er eins og það væri í lausu lofti og hver og einn yrði að giska á á hverju byggðust þá skoðanir þm. Byggjast þær á pólitík eða eru þær persónulegar? Á hverju byggjast þessar skoðanir þá og þau ummæli sem hún hefur látið falla um mig persónulega og gerðir mínar sem fjmrh. og í skrifum dagblaða líka?