17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4048 í B-deild Alþingistíðinda. (3721)

Almennar stjórnmálaumræður

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hvert stefnir heimurinn? Þessi spurning er áleitin nú í kjölfar þeirra atburða sem orðið hafa við sunnanvert Miðjarðarhaf undanfarna daga. Með ugg í brjósti hafa menn spurt sig: Er það ofbeldið sem enn á að ráða för? Hefur því enn tekist að ná tangarhaldi á heiminum? Hafa menn ekki lært af reynslunni?

Menn eiga engin svör við þessum spurningum. En í hjarta sínu vita menn að ofbeldi er engin lausn á neinu máli og getur aldrei verið til heilla í samskiptum manna og þjóða.

Sennilega hafa fáir verið í vafa um að hermdarverk væru ofbeldisverk. Hins vegar kunna þeir að hafa verið einhverjir sem ekki töldu hernað til ofbeldis. Með árás sinni á Líbýu hafa Bandaríkjamenn hins vegar þurrkað út skilin sem að nafninu til hafa verið á milli hernaðar og hermdarverka og sýnt heiminum að ofbeldi, hvaða nafni sem það nefnist, er ávallt eitt og það sama.

Það er gegn ofbeldi í hvaða mynd sem er og hvaða nafni sem nefnist sem okkur, hverjum og einum, ber skylda til að snúast því að við liggur ekki aðeins heiður okkar og mannúð, heldur líf allra heimsins barna. Í því efni skiptir álit hvers og eins, almenningsálitið, öllu máli því að það er því aðeins að menn sameinist um að vilja heim án ofbeldis, heim friðar og frelsis, að takast megi að byggja slíkan heim.

Íslensk þjóð er að sönnu lítil þjóð út við ystu höf og vissulega ekki ráðandi í heimsmálum. En við erum rödd í samfélagi þjóðanna og þá rödd eigum við að láta hljóma hátt og skýrt gegn hvers konar ofbeldi, kúgun og valdbeitingu hvar sem er í heiminum.

Að snúast gegn ofbeldi er það sama og að snúast til varnar fyrir rétti þeirra sem minna mega sín og það er ekki aðeins á sviði alþjóðamála sem slíkt skiptir máli. Slíkt skiptir máli á öllum sviðum mannlífsins og hvarvetna í samfélagi manna.

Ef við lítum okkur nær þá eru mér efstar í huga upplýsingar, sem fram hafa komið að undanförnu, um vaxandi neyð fólks hér á landi. Sérfræðingar á Þjóðhagsstofnun reikna nú út að fjórða til fimmta hver fjölskylda hér á landi búi við afkomu sem telja verður undir fátæktarmörkum. Landlæknir segir okkur að fólk sé farið að tapa heilsu og verða veikt vegna fátæktar. Frá félagsmálastofnununum berast upplýsingar um geigvænlega fjölgun þeirra sem þangað leita eftir hjálp. Barnaverndarmálum fjölgar, hjónaskilnuðum fjölgar og þeir sem með sálgæslu fara, s.s. prestar og geðlæknar, segja okkur að sífellt fleiri láti bugast og gefist upp við að reyna að lifa lífinu upp á eigin spýtur. Þannig er ástandið þessa vordaga í sjötta ríkasta landi heims.

Þetta ástand er með öllu óverjanlegt í íslensku velferðarþjóðfélagi fyrir utan það að vera þjóðfélaginu dýrt - því að menn skulu ekki gleyma því að það er rándýrt að brjóta fólk niður. Menn skulu heldur ekki gleyma því að fátækt er ekkert náttúrulögmál. Hún er til komin af manna völdum, vegna ákvarðana sem menn hafa tekið, ekki guðir. Og eins og öðrum mannanna verkum má henni af sér hrinda.

Nýgerðir kjarasamningar hafa af ýmsum verið kallaðir tímamótasamningar. Það eru þeir, ekki síst fyrir þá sök að þeir festa í sessi það ástand sem ég hef hér gert að umtalsefni. Fyrir utan það að stefna ríkisfjármálum í óvissu og byggja á ótraustum forsendum verða samkvæmt þeim áfram greidd laun á Íslandi fyrir fulla dagvinnu sem ekki nægja einstaklingi til framfærslu. Samkvæmt nýjum útreikningum kjararannsóknarnefndar var kaupmáttur kauptaxta á síðasta ári sá lægsti sem verið hefur í 20 ár. Sömu útreikningar benda til að svo verði áfram út þetta ár. Það var um þetta sem þjóðarsáttin margfræga, samningarnir, var gerð - þjóðarsátt um lægstu laun í 20 ár, um fátækt. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Svavar Gestsson eða hæstv. ráðh. Þorstein Pálsson né þá Framsóknar- og Alþýðuflokksmenn að standa hér upp og sverja af sér fátæktina. Þeir greiddu henni allir atkvæði, allir sem einn, þegar þeir staðfestu síðustu kjarasamninga hér í þingsölum.

Hverjir skyldu svo fara verst út úr þessum kjarasamningum? Hverjir vinna eftir lægstu töxtum og njóta hvorki launaskriðs né annarra launatengdra fríðinda? Það eru fyrst og fremst konur. Þær eru mikill hluti þeirra sem ekki geta séð sjálfum sér farborða í dag með launum fyrir fulla vinnu.

Ætli það sé einhver tilviljun að það eru fjórir karlastjórnmálaflokkar og karlstýrð verkalýðshreyfing og vinnuveitendasamtök sem semja um þessi lágu laun? Auðvitað er það engin tilviljun, svona mundi enginn semja fyrir sjálfan sig. Í raun er hér aðeins komið enn eitt lifandi dæmið um það hversu það á langt í land að konur njóti fullrar mannvirðingar hér á landi.

Til þess að bregðast við þessu ástandi í launamálum höfum við Kvennalistakonur lagt fram hér á Alþingi frv. til laga um lágmarkslaun þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að greiða lægri laun fyrir fulla dagvinnu en sem nemur framfærslukostnaði einstaklings. Frv. þetta nær til um 20 þús. launþega, þeirra sem lægstu launin hafa. Samkvæmt lauslegum útreikningum Þjóðhagsstofnunar hefði það aðeins um 3-4% hækkun á launakostnaði í för með sér. Hvorki mun þessi kostnaðarauki setja atvinnulífið á hliðina, allra síst nú á tímum óvenju hagstæðra efnahagsskilyrða, né valda aukningu á verðbólgu að ráði. Það kostar m.ö.o. ekki mikið í peningum að hækka lægstu laun í landinu, það er ekki þröskuldurinn. Þröskuldurinn er að það kostar töluvert í virðingu. Það kostar það að saumakonan, sem nú er með rúm 17 þús. á mánuði, fær kannske verkstjóralaun fyrir vinnu sína án þess að verkstjórinn hækki nokkuð. Það er það sem ekki gengur að mati þeirra sem nú ráða ferðinni í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Þar erum við komin að kjarna málsins. Erum við í raun tilbúin til að breyta þessu þjóðfélagi á þann veg að hér njóti allir, konur, karlar og börn, sömu virðingar? Erum við tilbúin til að tryggja að hér líði enginn skort? Erum við tilbúin til að bera þá lágmarksvirðingu fyrir tilverurétti manna? Og erum við tilbúin til að sýna lífinu þá virðingu að gera allt sem við getum til að láta rödd okkar hljóma hvarvetna í þágu friðar og frelsis og gegn ofbeldi og valdbeitingu í hvaða mynd sem er og hvar sem er? Þetta bið ég þing og þjóð að íhuga því að þetta eru þær spurningar sem enga bið þola á þessum vordögum. - Ég þakka þeim sem hlýddu.