17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4052 í B-deild Alþingistíðinda. (3724)

Almennar stjórnmálaumræður

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Áður en ég vík að meginefni þess sem ég ætla að ræða hér í kvöld kemst ég ekki hjá að fara nokkrum orðum um ræðu Steingríms Hermannssonar. Ég þarf að vísu ekki að lýsa fjárhag ríkissjóðs því að forsrh. lýsti því skilmerkilega að hann væri í rúst og sú lýsing er rétt. Hitt fór í verra þegar Steingrímur hélt því fram að nú væri erlendri skuldasöfnun hætt og hrósaði sér af. Það er nefnilega beinlínis rangt.

Samkvæmt nýjum opinberum gögnum verður viðskiptahalli á árinu og erlendar skuldir munu enn vaxa um 3000-4000 millj. kr. á árinu. Það er óvefengjanlegt.

Ég gat svo ekki gert að því að brosa þegar Steingrímur fór að hrósa sér og ríkisstj. sinni af þeim úrbótum sem fram undan eru í húsnæðislánum. Allir vita að ríkisstj. hefur verið að vandræðast með þetta mál árum saman og það var ekki ríkisstj. sem leysti málin. Það var verkalýðshreyfingin sem leysti húsnæðismálin í seinustu kjarasamningum og útvegaði meira að segja peningana í það. Það hafa væntanlega fleiri en ég brosað að sjálfshóli Steingríms.

Hitt var svo reyndar hálfgrátlegt að Svavar Gestsson vildi líka eiga þessar úrbætur og þakka þær sínum flokki. Það var grátlegt því að allir vita að það var einmitt hann sem lagði húsnæðislánakerfið í rúst í ráðherratíð sinni.

Ég ætla svo ekki, herra forseti, að fjalla frekar um þetta eða um almenn efnahagsmál hér í kvöld. Ég ætla í staðinn að gera að umræðuefni tvö mál sem lýsa öðrum sérstökum veikleikum þjóðfélags okkar og taka á því eftir þeim hugmyndum sem við Alþýðuflokksmenn höfum.

Flest þekkjum við trúlega dæmi af fjölskyldum sem eru að sligast undan íbúðakaupum sínum. Þetta eru fjölskyldur sem byggðu eða keyptu íbúðir á árunum 1980-1985. Skýringin liggur í gölluðu húsnæðislánakerfi og svo sérstaklega í því að lánskjaravísitala æddi áfram á sama tíma og launakjör voru skert.

Í nokkrum mæli hefur verið gripið til svonefndra viðbótarlána til þess að þetta fólk missti ekki íbúðir sínar. Menn hafa sagt að með þessum viðbótarlánum hafi einungis verið lengt í hengingarólinni og það er rétt. Málið er nefnilega langtum stærra og alvarlegra en svo að úr því verði leyst með viðbótarlánum. Hér er í raun og sannleika á ferðinni óbærilegt misrétti sem þjóðfélagið verður að grípa á.

Staðreyndin er nefnilega sú að þeir sem öfluðu sér íbúðarhúsnæðis fyrir árið 1980 nutu til þess aðstoðar verðbólgu og neikvæðra vaxta. Að hinu leytinu liggur nú fyrir að stórbæta eigi húsnæðislánakerfið. Þeir sem afla sér íbúðarhúsnæðis samkvæmt nýja kerfinu munu því væntanlega njóta allhagstæðra lána.

Eftir situr þá sá hópur sem aflaði sér íbúðar á þessum árum. Þessum hópi hefur verið sökkt í skuldafen og hann hefur verið gerður eignalaus. Þetta hefur ekki gerst fyrir annan tilverknað þessa fólks en þann að leyfa sér að afla íbúðarhúsnæðis á einmitt þessum árum, 1980-1985. Það voru ytri aðstæður, sem þetta fólk gat ekki haft áhrif á, sem réðu því að skuldirnar hækkuðu sífellt. Það var þannig ekki þetta fólk, heldur þjóðfélagið, efnahagsástandið og efnahagsstefnan sem brást. Sökin liggur ekki hjá þessu fólki heldur hjá þjóðfélaginu sjálfu.

Það er þetta sem er kjarni málsins. Þjóðfélagið hefur hér skapað óbærilegt misrétti. Þjóðfélagið hefur mismunað þegnum sínum. Og þá er það verkefni og skylda þjóðfélagsins að jafna muninn. Þá duga ekki viðbótarlán. Það verður beinlínis að létta á skuldum íbúðabyggjenda og íbúðakaupenda áranna 1980-1985 svo að þeir geti staðið nokkurn veginn jafnfætis öðrum þjóðfélagshópum.

Það er á þessum forsendum og út frá þessum sjónarmiðum sem við þm. Alþfl. höfum lagt fram tillögu hér á Alþingi um að ríkið í gegnum Húsnæðisstofnun ríkisins leggi fram fé til að lækka skuldir þessa þjóðfélagshóps. Hér er stórt sagt en þetta er nauðsynlegt.

Í till. okkar er gert ráð fyrir að 50% af hækkun þessara skulda vegna íbúðaröflunar á þessum árum umfram hækkun almenns kaupgjalds í landinu myndi sérstakan endurgreiðsluhluta sem viðkomandi aðili ætti rétt á og yrði þessari upphæð þá varið til þess að greiða vanskil og lækka skuldir hans.

Vafalaust geta menn haft skiptar skoðanir um ýmis framkvæmdaatriði í þessu sambandi. Það má skoða. En aðalatriðið er að menn viðurkenni að þann ójöfnuð, sem hér um ræðir, verður að jafna og að hér er um félagslegt verkefni að ræða sem greiða verður úr almannasjóði því að annars hefur þjóðfélagið mismunað fólki með óbærilegum hætti eftir því einu á hvaða tímabili það aflaði sér íbúðarhúsnæðis.

Þetta vantar í það húsnæðismálafrv. sem ríkisstj. hefur nú lagt fram á sama hátt og þar vantar ákvæði um kaupleigu á íbúðum eins og við Alþýðuflokksmenn höfum flutt tillögur um. Ég skora á þingheim að bæta hér úr því að mikið er í húfi.

Næst ætla ég, herra forseti, að víkja að máli sem nokkrum sinnum hefur komið til umfjöllunar á Alþingi en þingið hefur ætíð gefist upp við af ástæðum sem ég skal greina frá hér á eftir. Ég á hér við lífeyrissjóðsmálin. Það er best að ég segi það strax að þegar ég fór að kynna mér núverandi kerfi komst ég að því að það er langtum verra og gallaðra en ég átti von á og vissi ég þó að það væri ófullkomið. Helstu staðreyndirnar um núverandi kerfi eru þessar:

1. Í landinu eru starfandi 90 lífeyrissjóðir.

2. Fólk er í mörgum sjóðum. 7300 manns eru í sex sjóðum eða fleiri. Maður spyr: Hvernig gengur fólki að halda til haga réttindum sínum og e.t.v. rifja þau upp marga áratugi aftur í tímann við þessar aðstæður? Kerfið er herfilegt.

3. Fjöldi fólks greiðir verulegar fjárhæðir í lífeyrissjóði án þess að öðlast nokkurn rétt út á það eða einungis mjög skertan rétt. Þetta finnst ykkur sjálfsagt ótrúlegt. Það fannst mér líka þegar ég uppgötvaði það. Skýringin liggur í því að sjóðirnir setja alls konar og reyndar margbreytileg skilyrði fyrir því að menn öðlist rétt út á iðgjaldagreiðslu.

Algengast er að krafist sé ákveðins lágmarkstíma, t.d. fimm ára iðgjaldagreiðslu, til þess að réttur til lífeyris fáist. Þegar sjóðfélagi hættir þátttöku í ákveðnum lífeyrissjóði er venjulegast að réttindi falli niður ef ekki eru uppfyllt skilyrði um lágmark greiðslutíma. En jafnvel þótt þeim skilyrðum sé fullnægt þegar menn flytjast úr ákveðnum sjóði skerðist réttur samt á ýmsa lund. Margir sjóðir fella þá niður barnalífeyri, aðrir fella niður rétt til örorkulífeyris og í sumum sjóðum verður verðtrygging einskis virði við þessar aðstæður. Af þessu má ráða að mörg iðgjaldagreiðslan ber ekki ávöxt í réttindum.

4. Sumir sjóðanna eru svo illa staddir að þeir geta engan veginn risið undir þeim lífeyrisgreiðslum sem þeir hafa lofað sjóðfélögum sínum. Þeir sjóðfélagar, sem greiða í þessa sjóði, munu því beinlínis verða sviknir um það sem þeim var lofað.

Fleira mætti nefna en ég læt þetta nægja. Það sýnir að núverandi lífeyrissjóðskerfi er óviðunandi og veitir léleg réttindi. Það hefur vissulega verið reynt að lappa upp á þetta kerfi. En þetta kerfi verður ævinlega ófullkomið og stenst engan samanburð við kosti eins sameiginlegs lífeyrissjóðs allra landsmanna.

Kostir þess að hafa einn sameiginlegan lífeyrissjóð eru fjölþættir. Ég ætla að nefna fáeina:

1. Þegar einn sjóður nær til allra landsmanna þarf enginn að velkjast í vafa um rétt sinn. Rétturinn er á einum stað og engum glatast neinn réttur þótt hann skipti um starf.

2. Einn sjóður yrði sterkur og öflugur. Sjóðnum væri því ekki hætt vegna áfalla, t.d. vegna slysa, eins og hinum litlu sjóðum er hætt sem nú eru við lýði.

3. Rekstrarkostnaður af einum sameiginlegum sjóði yrði mun lægri en af núverandi fjölsjóðakerfi. Þannig nýttust tekjur sjóðanna betur til að standa undir réttindagreiðslum.

„Hvers vegna“ hljóta menn þá að spyrja, „hefur þá hugmyndin um einn sameiginlegan lífeyrissjóð ekki náð fram að ganga?" Ég held að skýringin liggi í því að ýmsir svokallaðir áhrifaaðilar hafi brugðið fæti fyrir málið og Alþingi því gefist upp. Ég held hins vegar að miklum fjölda fólks, líklega meiri hluta landsmanna, séu ljósir kostir sameiginlegs sjóðs og vilji að honum verði komið á fót.

Það er á þessum forsendum og við þessar aðstæður sem við nokkrir þm. Alþfl. höfum flutt till. um að málinu verði beinlínis skotið til þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Tillaga okkar er að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram við næstu alþingiskosningar og þjóðin sjálf fái þar að segja til um hvers konar lífeyrisréttindakerfi hún vill hafa.

Í tillögu okkar hér á Alþingi er lýst megineinkennum hins sameiginlega sjóðs. Í fáum orðum eru þau þessi:

1. Sjóðurinn leysi gamla kerfið af hólmi 1. jan. 1990 og eftir það verði allir landsmenn félagar í nýja sjóðnum.

2. Þau réttindi, sem fólk hefur aflað sér fram til þess tíma í gamla kerfinu, haldist en gömlu sjóðirnir eigi kost á að sameinast nýja sjóðnum.

3. Sjóðurinn greiði tekjutengdan og verðtryggðan lífeyri til viðbótar greiðslum almannatrygginga.

4. Settar verði nýjar reglur um lífeyrisréttindi hjóna.

5. Sjóðurinn verði undir stjórn samtaka launafólks, atvinnurekenda og ríkissjóðs. Við teljum að fólkið sjálft eigi að fá að velja hvort það vill slíkan sameiginlegan sjóð eða núverandi fjölsjóðakerfi.

Herra forseti. Ég hef gert að umtalsefni sérstaklega tvö mál sem eiga það sameiginlegt að fólki er herfilega mismunað við þær aðstæður sem nú ráða. Við Alþýðuflokksmenn teljum að slík mismunun sé óviðkomandi og hér verði úr að bæta.

Mismunun og misrétti slítur sundur þjóðina og það er hættulegt. Við erum ein þjóð í einu landi. Það á að vera styrkur okkar að styðja hvert annað. Við eigum að leita eftir jöfnuði og jafnrétti. Það eykur þjóðarsamstöðu. Þannig áréttum við það og eflum sem er öðru mikilvægara að við erum og ætlum að vera ein þjóð í einu landi. - Góðar stundir.