17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4060 í B-deild Alþingistíðinda. (3727)

Almennar stjórnmálaumræður

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Árásirnar á Alþb. og formann þess, Svavar Gestsson, hafa verið einkar athyglisverðar í kvöld. Ástæðurnar fyrir árásunum eru auðvitað ótti hinna flokkanna við Alþb. sem er í stórfelldri sókn um allt land nú fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Alþb. er flokkurinn sem íhaldsöflin óttast um þessar mundir og ræður stjórnarsinna lýsa taugaveiklun þeirra. Það er einkar fróðlegt fyrir hlustendur að þeir eyða ekki aukateknu orði á aðra stjórnarandstæðinga. Það segir líka sína sögu.

Þriðja þing ríkisstjórna er þeim oft erfitt. Þá fara þreytumerki oft að koma á liðið og áhuginn og getan til að gera eitthvað minnkar, nýjabrumið og áhuginn sem oftast er ríkjandi fyrstu tvö þingin er ekki lengur til staðar.

Það eru einmitt þreytumerkin á ríkisstjórnarliðinu sem einkennt hafa það þing sem nú situr og senn er lokið. Það er kannske vægt að orði komist að nefna það þreytumerki. Að sumra mati mætti nefna starfshætti ríkisstj. uppgjöf við að stjórna þjóðinni, þjóðarbúskapnum. Því ber vitaskuld að fagna að svo sé ástatt hjá þessari íhaldsstjórn, leiftursóknar- og frjálshyggjustefnunni sé ekki eins haldið til haga og við upphaf stjórnarsetunnar. Greinilegustu merki þreytunnar eru þau að þau þingmál sem í minnum verða höfð frá þessu þingi eru mál sem lögð eru fyrir þing og ríkisstjórn af aðilum utan þingsins. Málin hafa verið afhent ríkisstj. til afgreiðslu og framlagningar á Alþingi. Aðilar utan ríkisstj. hafa fyrir fram tryggt þeim meiri hluta á Alþingi. Þessi mál eru:

Í fyrsta lagi þau lög sem samþykkt voru í beinum tengslum við kjarasamningana í vetur. Í öðru lagi frv. um nýtt húsnæðislánakerfi sem enn er til umræðu hér í þinginu og er í beinum tengslum við kjarasamningana. Þetta frv. mun verða að lögum á þessu þingi. Í þriðja lagi frv. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sem er samkomulagsmál hagsmunaaðila innan sjávarútvegsins og verður vonandi að lögum nú í þinglokin.

Öll þessi mál eru staðfesting á uppgjöf ríkisstj. og að leiftursóknarstefnan og frjálshyggjupólitíkin gengur ekki upp hér hjá okkur á Íslandi frekar en annars staðar þar sem hún hefur verið reynd. Ríkisstj. hefur ekki tekist að ráða við verðbólguna, aðilar vinnumarkaðarins tóku ráðin af ríkisstj. í þeim málum. Þar hefur a.m.k. náðst tímabundinn árangur. Nú þarf að halda ríkisstj. við efnið og láta hana ekki komast upp með verðhækkanir eða aðrar millifærsluleiðir frá launafólki og framleiðslustéttum til afætuþátta í þjóðfélaginu.

Eftir þriggja ára valdatíma þessara manna, sem lofuðu hvað mestu í kosningunum 1983 um aðgerðir í húsnæðismálum, hefur ekki örlað á neinu í þá átt að leysa á varanlegan hátt lánaþörf og húsnæðisvandamál. Það er ekki fyrr en verkalýðshreyfingin knýr þessa herra til aðgerða við samningaborðið um kaup og kjör í landinu að þeir fallast á að gera samkomulag um nýtt húsnæðislánakerfi. Það er öll reisnin eftir stóru loforðin 1983, m.a. hjá hæstv. félmrh., 2. þm. Vesturl.

Þriðja málið nefndi ég, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Þetta frv. er samkomulagsmál hagsmunaaðila og í reynd orðið til á svipaðan hátt og Garðastrætismálin sem ég nefndi hér á undan. Þetta mál hefur verið blásíð út í fjölmiðlum sem eitthvert afrek sjútvrh. og ríkisstj., verið sé að leggja niður ýmislegt sem vont hafi verið í kerfinu án frekari skilgreiningar þar um. En hvað skyldi það vera þetta vonda sem verið er að leggja niður með þessu frv. ef að lögum verður?

Þar ber langhæst millifærslukerfi sem núverandi ríkisstj. hafði búið sér sjálf til og notað, m.a. sérstakur kostnaðarhlutur fram hjá skiptum, 29%, sem var grundvöllur bjargráðanna 1983 þegar ríkisstj. settist í stólana. Millifærslukerfi Aflatryggingasjóðs hefur verið uppáhaldskerfi ríkisstj. og síðast notað við fiskverðsákvörðun nú í vetur þótt auðvelt hefði verið að fella það niður og láta þá millifærslu koma beint í fiskverð.

Við samningu þessa frv. var öðruvísi að staðið og umfjöllun virðist ætla að verða allt önnur en þegar frv. um Framleiðsluráð landbúnaðarins var hér til umræðu í fyrravor. Nú komu aðilar sjávarútvegsins með fulltrúum þingflokka sér saman um frv. sem einfaldar margflókið kerfi ríkisstj.

Framleiðsluráðsfrv. var undirbúið í þröngum hópi og þrýst gegnum þingið gegn margháttuðum mótmælum. Stjórnarandstaðan fékk ekki að koma nálægt undirbúningi málsins. Ráðherra voru fengið stóraukin völd til að taka ákvarðanir í málefnum bænda.

Það er gott þegar þreyta og uppgjöf ríkisstj. birtist á þann veg sem kemur fram í samanburði á meðferð þessara mála. Um þjóðfélagið allt er þó skaðinn skeður af öðrum verkum ráðherranna, heildarstjórnarstefnunni. Afleiðingar framleiðsluráðslaganna og þá kannske frekar aðdraganda þeirra og mistök við stjórnun landbúnaðarframleiðslunnar undanfarin ár eru nú að verða þess valdandi að við blasir eignamissir margra bænda með tilheyrandi röskun á byggð.

Niðurskurður framlaga á fjárlögum til sameiginlegra verkefna ríkis og sveitarfélaga á valdatíma ríkisstj. er að verða þess valdandi að uppbygging félagslegrar þjónustu er í algjöru lágmarki víða á landsbyggðinni. Minnkandi félagsleg þjónusta og erfiðleikar sveitarfélaga eru einn aðalvaldur þess að fólk flytur af landsbyggðinni hingað á Reykjavíkursvæðið.

Miðað við fjárlög 1983, síðustu fjárlög Ragnars Arnalds sem fjmrh., er útkoman þessi miðað við verðlag fjárlaga 1986: Framlag til grunnskóla er 44,4% af framlagi ársins 1983. Framlag til hafnarframkvæmda er 41,9% af framlagi 1983. Framlag til dagvistarstofnana er 64,3%. Framlag til flugvalla er 40,2% af framlagi 1983. Framlag til mennta- og fjölbrautaskóla er 43,6% af framlagi 1983. Framlag til héraðsskóla er 64,3% af framlagi 1983. Og framlag til sjúkrahúsa er 44,1% af framlagi 1983. Meðalhlutfallstala á framlögum þessara þátta á fjárlögum 1986 miðað við fjárlög fjmrh. Alþb. 1983 er 44,7%.

Nú þegar líður að sveitarstjórnarkosningum er rétt að festa sér þessar tölur í minni, muna eftir því að aukið afl íhaldsins þýðir minni félagslegar framkvæmdir og þjónustu. Aldrei fyrr hefur jafnmargt ungt fólk haft rétt til að kjósa á Íslandi og í hönd farandi sveitarstjórnarkosningum. Ég óska því unga fólki til hamingju með þann rétt og 18 ára kosningaaldurinn. Engum er eins nauðsynlegt og unga fólkinu að séð sé vel fyrir félagslegri þjónustu. Til að tryggja það þarf að efla Alþb., öflugasta mótvægið gegn íhaldsstefnunni.

Herra forseti. Í lokin nokkur orð um fiskveiðistefnuna.

Fjölmiðlar hafa ekki gert mikið úr ábendingum okkar sem höfum talið þá fiskveiðistjórnun sem við höfum búið við undanfarin rúm þrjú ár mjög gallaða. Ábendingar okkar um það hvaða leiðir væru betri hafa ekki átt greiða leið í fjölmiðla.

Einn er sá þáttur sem hvað mest hefur verið lofsunginn í sambandi við aflamarkið eða kvótann. Það er aukin hagkvæmni í rekstri, kvótakerfið stuðlaði að sparnaði á marga vegu. Þjóðhagsstofnun hefur m.a.s. reiknað út að hagkvæmnin sé mjög mikil!

Eins og við vitum öll hefur þorskurinn gert mikið að því að flækja sig í netum sjómanna í vetur, sérstaklega þó við Vesturland. Breiðafjörður virðist vera fullur af fiski og þar hefur veiðst mjög vel og góður fiskur borist á land, stutt á miðin, netaeyðsla í lágmarki, tíðarfar mjög gott.

Ef Þjóðhagsstofnun reiknaði út sparnað þeirra Breiðfirðinga nú mundi tölvan hjá þeim varla hafa forrit til að vinna það. Breiðafjörður hefur verið fullur af fiski frá því í febrúar og er það enn, en þeir eru alltaf fleiri og fleiri Breiðafjarðarbátarnir sem ekki eru á miðunum heldur bundnir við bryggju vegna þess að þeim er bannað að fiska meira. En það fjölgar jafnframt bátum frá Suðurlandi sem eru á Breiðafjarðarmiðum, bátum frá Grindavík, bátum frá Þorlákshöfn og jafnvel frá Hornafirði og veri þeir velkomnir á Breiðafjarðarmið. Þeir eru 15-20 klst. á miðin frá heimahöfn, jafnvel lengur, og þeir sigla með aflann til heimahafnar. Hvert skyldi vera tap þjóðarbúsins af því að meina Breiðafjarðarbátum að veiða þorskinn við landsteinana heima hjá sér, færa hann næstum spriklandi að landi, miðað við þann kostnað sem fer í siglingatíma Sunnlendinganna og verðmætisrýrnun sem óhjákvæmilega verður á afla þeirra?

Herra forseti. Er nokkurt vit í fiskveiðistefnu sem stuðlar svona að auknum sóknarkostnaði og um leið verðmætisrýrnun á afla?