17.04.1986
Sameinað þing: 77. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4066 í B-deild Alþingistíðinda. (3729)

Almennar stjórnmálaumræður

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hvert þing hefur sitt svipmót. Það sem nú er senn á enda hefur mörgum þótt dauft og sviplítið lengst af. Ef að er gáð hljótum við þó að minnast hressilegra skoðanaskipta um hin margvíslegustu málefni, kjaramál og okurmál, húsnæðismál og stjórnun fiskveiða, afvopnunarmál og gjaldþrotamál, selveiðar og sveitarstjórnarmál og svo eru öll hin málin, sem of langt yrði upp að telja, sem ekki síst þm. stjórnarandstöðu hafa lagt fram til umfjöllunar en litlu fengið áorkað því stjórnarliðum er hreint ekki sama hvaðan gott kemur. Slíkur er samkeppnisandinn og eiginhagsmunapotið, því miður.

Það er þó engan veginn tilgangslaust að leggja fram till. hér á Alþingi, þótt þær leiði ekki til tafarlausra úrbóta. Hugmyndir þurfa sinn tíma til að skjóta rótum og öðlast viðurkenningu og skilning og stundum sjá stjórnvöld sér hag í því að nýta hugmyndir óbreyttra þm., jafnvel úr stjórnarandstöðu. Mestu skiptir þó að allur almenningur fylgist sem best með störfum fulltrúa sinna, kynni sér málflutning þm. og hvetji þá og letji eftir atvikum, frjóvgi þá með hugmyndum og bendi á hvað eina sem betur má fara. Almenningur á ekki að láta sér nægja þau áhrif sem hafa má í kjörklefanum.

Eitt þeirra mála sem í mínum huga skipa hvað stærstan sess af þeim sem fjallað hefur verið um á þessu þingi er baráttan um Lánasjóð ísl. námsmanna. Kvennalistinn hefur alltaf látið sér annt um málefni lánasjóðsins og snúist hart gegn öllum hugmyndum sem vinna gegn markmiði hans, en það er að jafna aðstöðu fólks til náms óháð búsetu, kynferði og efnahag.

Sá vöxtur sem orðið hefur á sjóðnum er ekki vegna núgildandi laga heldur vegna uppbyggingar í skólakerfinu. Með síauknum menntunarkröfum, fjölgun námsleiða og fjölgun framhaldsskóla um allt land hefur lánshæfum umsóknum að sjálfsögðu fjölgað mjög mikið og það er gleðileg þróun. Við eigum að hafa metnað til að búa svo um hnútana að allir fái notið menntunar og þroskað hæfileika sína eftir því sem hugur stendur til.

Auðvitað kostar það fé, það kostar mikið fé, en því fé er vel varið. Og við skulum hugsa dæmið til enda. Þörfin fyrir háar fjárveitingar úr ríkissjóði mun fara ört minnkandi innan tiltölulega fárra ára þegar sá stóri hópur sem nú nýtur námslána verður farinn að endurgreiða lánin sín. Ætla má að um aldamótin þurfi framlag ríkissjóðs ekki að vera nema sem svarar 100-200 millj. kr. á núvirði, þ.e. ef skammsýnum mönnum tekst ekki að eyðileggja þetta kerfi.

Það fólk sem nú nýtur námslána mun að stórum hluta standa undir námslánakerfi barna sinna með endurgreiðslum eigin lána, ég tala nú ekki um eftir að horfið hefur verið frá láglaunastefnunni sem er að brjóta niður allar venjulegar fjölskyldur.

Kvennalistinn hafnar algjörlega öllum hugmyndum um vexti á námslán og stórfellda hækkun á lágmarksendurgreiðslu á ári sem mundi bitna fyrst og fremst á hinum efnaminni, þ.e. námsmönnum utan af landi, börnum einstæðra og efnalítilla foreldra og stúlkum sem sjá ekki fram á að geta ráðið við endurgreiðslu lánanna.

Það verða einnig konurnar sem fara verst út úr því ef hætt verður að taka tillit til tekna við úthlutun námslána, ekki síst þær sem eiga fyrir börnum að sjá. Þær eiga erfiðara með að fá vel launuð störf milli anna og geta því síður bætt sér upp óhagstæðari námslán. Við skulum ekki gleyma því hvern þátt lánasjóðskerfið hefur átt í aukinni sókn kvenna í framhaldsnám. Lánasjóðskerfið er helsta skjól jafnréttis hér á landi. Kvennalistinn vill verja það skjól.

En jafnréttið á víðar í vök að verjast en hjá Lánasjóði ísl. námsmanna. Árin 1984 og 1985 fækkaði fólki á landsbyggðinni í beinum tölum reiknað, en slíkt hefur ekki gerst síðan á árunum 1945-1946 þar eð náttúrleg fjölgun hefur vegið upp fækkun vegna flutninga. Þessi þróun á rætur í þeim erfiðleikum sem sjávarútvegur og landbúnaður eiga nú við að etja og þeim stórfelldu breytingum og endurskipulagningu sem þessar atvinnugreinar ganga nú í gegnum. Hún er enn fremur afleiðing af samdráttarstefnunni í ríkisfjármálum sem hefur bitnað harkalega á framkvæmdum á landsbyggðinni. En hún á einnig rætur í breyttum og vaxandi kröfum fólks til félagslegrar og menningarlegrar þjónustu og fjölbreytts mannlífs á alla lund. Síauknar kröfur um menntun og sérhæfingu á öllum sviðum, breytingar á fyrirvinnuhlutverkinu, síaukin þátttaka kvenna í atvinnulífinu samhliða breyttri stöðu þeirra í þjóðfélaginu, allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á þróunina.

Sumarið 1984 fóru Kvennalistakonur í hringferð um landið og hittu hvarvetna að máli konur og fræddust um hagi þeirra. Tvennt lá þeim alls staðar þyngst á hjarta: Einhæfni atvinnulífsins og erfiðar aðstæður til menntunar. Þessu verður að breyta.

Kvennalistinn hefur gert ýmsar tillögur um bætta aðstöðu í skóla- og menntunarmálum landsbyggðarinnar, svo sem um námsgagnamiðstöðvar í öllum fræðsluumdæmum og fjölgun skólaselja svo að engin börn undir 10 ára aldri þurfa að dveljast í heimavist. Þá höfum við hvatt til eflingar fullorðinsfræðslu og lagt fram frv. til l. um fjarnám sem mundi gjörbreyta aðstöðu fólks um allt land til náms og símenntunar. Sem betur fer virðist vaxandi áhugi stjórnvalda á fjarnámi, enda vonum seinna að við förum að nýta okkur nútímatækni til annars en léttvægrar afþreyingar.

Ekki skiptir minna máli hvernig til tekst með atvinnuþróun á landsbyggðinni. Fjölgun starfa hefur á síðustu árum fyrst og fremst verið í þjónustugreinum og að flestra áliti mun svo verða áfram í náinni framtíð. En hvaða líkur eru á því að landsbyggðin fái aukna hlutdeild í þeirri atvinnusköpun sem á sér stað í þjónustugreinunum? Líkurnar eru háðar því hvort okkur auðnast að gera umtalsverðar breytingar í stjórnkerfi landsins sem færi landsbyggðinni aukna sjálfsstjórn og forræði um eigin málefni og aflafé.

Í gær voru afgreidd héðan frá Alþingi ný sveitarstjórnarlög og því miður nýttist ekki það tækifæri til að gera neinar þær breytingar á stjórnsýslukerfinu sem skipt geti sköpum fyrir fólkið í landinu. Meiri hluti Alþingi náði ekki saman um þetta stærsta hagsmunamál landsbyggðarinnar. Það eru mörgum mikil vonbrigði og ég óttast að þessi niðurstaða verði til þess að draga á langinn nauðsynlega uppstokkun í stjórnkerfinu. Kvennalistakonur telja að ekki megi dragast öllu lengur að koma á nýrri verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga með það að markmiði að færa ábyrgð og verkefni nær fólkinu sjálfu og tryggja að saman fari ábyrgð á fjármálum og framkvæmdum. Sveitarfélögin eru of sundurleit og flest of fámenn til þess að gegna stærra hlutverki en þau gera nú, enda hafa verkefni flust frá þeim til ríkisvaldsins á undanförnum árum að tilhlutan þeirra sjálfra. Sameining þeirra í stærri heildir virðist þrautreynd. Hér þarf því að koma til millistig stjórnsýslu sem hafi bolmagn til framkvæmda og reksturs á sviði menntunar og menningarmála, heilsugæslu, samgangna, brunavarna og skipulagsmála. Jafnframt afsali ríkið sér tekjum sem staðið geti undir þessum þáttum. Til þessa stjórnsýslustigs vill Kvennalistinn láta kjósa beinni lýðræðislegri kosningu án takmörkunar á kjörgengi. Slík grundvallarbreyting í stjórnsýslunni gæti snúið við eða a.m.k. dregið úr þeirri óheillaþróun síðustu ára sem ógnar öllu jafnvægi í byggð landsins. Valddreifing og virkara lýðræði eru kjörorð nútímans. Tími er til kominn að gerðir taki við af orðum.

Góðir hlustendur. Allt bendir nú til þess að konum fjölgi verulega í bæjar- og sveitarstjórnum landsins eftir nokkrar vikur. Það er okkur Kvennalistakonum fagnaðarefni, enda ekki minnsti vafi á hlutdeild okkar í þeirri jákvæðu þróun. Trú mín er að áhrif kvenna og ungs fólks fari jafnt og þétt vaxandi á næstu árum til góðs fyrir þjóðfélagið allt, en til þess að svo megi verða eigum við konur að þora að vera við sjálfar, þora að vera konur, hlusta á röddina í eigin brjósti. Annars verður engu breytt til betri vegar.

Hið sanna jafnrétti kynjanna er ekki fólgið í því að konur leitist við að haga sér nákvæmlega eins og karlar, tala eins og karlar og tileinka sér störf, áhugamál og leikreglur karla. Konur verða að gera kröfu til að verða metnar á eigin forsendum, að þjóðfélagið virði áhugaefni kvenna og meti þær leikreglur og þau störf sem konum henta best engu síður og minna en það sem hæst er skrifað hjá körlum. Á það skortir svo sannarlega enn í dag. Hugarfarsbreytingin er ekki enn orðin að byltingu, en við skulum næra þann vaxtarbrodd sem svo vænlegur er á þessu vori. Það er líka vor í kvennabaráttunni og sumarið á næsta leiti.

Gleðilegt sumar, góðir hlustendur, og þökk fyrir áheyrnina. - Góða nótt.