18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4074 í B-deild Alþingistíðinda. (3736)

232. mál, talnagetraunir

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Það skal upplýst í upphafi máls míns vegna óseðjandi forvitni deildarmanna að ég lofaði engu.

Það er ekki á hverjum degi að sá sem hér stendur og hv. 5. landsk. þm. eru hjartanlega sammála. En ég kem nú í ræðustól ekki hvað síst til þess að það komi í ljós að hv. 5. landsk. þm. er ekki einn í andstöðu sinni við þetta frv. Ég held að sá málstaður sem hann hefur talað fyrir í þessari umræðu eigi fyllsta rétt á sér. Staðreynd er að það hafa engin rök komið fram af hálfu þeirra sem styðja þetta mál, og ekki bara styðja það heldur ýta á það með undarlega miklum þrýstingi, það hafa engin rök komið fram fyrir því hvers vegna þarf að afgreiða þetta mál í svo miklu snatri nú.

Þetta mál var hér í þingsölum undir þinglok í fyrra og þá fór þannig fyrir því að einn hv. neðrideildarmanna, sem sá mjög mikla agnúa á þessu frv., talaði svo lengi að menn heyktust á því að reyna að knýja málið fram.

Það sem hann hafði aðallega að þessu frv. þá að finna var það að hann taldi vera gengið á rétt íþróttahreyfingarinnar og hann taldi að íþróttahreyfingunni bæri stærri skerfur af þeim tekjum sem af þessu happdrætti kynnu að fást. Ég held að þó að menn séu alltaf að sefa sjálfa sig með því að lífið sé allt saman ein málamiðlun sé hægt að nota það sem rök í þessu máli að þegar þetta mál kom fyrst inn á þing var tekjum þessa happdrættis ætlað annað hlutverk en að styðja íþróttahreyfinguna með jafnmiklum hætti og gert er ráð fyrir í þessu frv. Það verður sannast að segja að viðurkennast að það kemur dálítið skringilega fyrir sjónir að setja þarna saman í hóp annars vegar íþróttahreyfinguna, sem einkennist af fullfrísku og mjög frísku fólki, að öllu leyti sjálfbjarga, að undantekinni þeirri deild íþróttahreyfingarinnar sem sérstaklega er fyrir fatlaða, og síðan samtök sem starfa að líknarmálum, starfa fyrir hagsmuni þeirra sem minna mega sín í þessu þjóðfélagi og er ætlað að afla tekna til að bæta úr sárum skorti á lífsgæðum þessa fólks. Mér finnst í fyrsta lagi mjög mikið ósamræmi í því, enda var það ekki þannig þegar þetta frv. var fyrst borið hér upp. En einhverra hluta vegna hefur samningsstyrkur íþróttahreyfingarinnar verið það mikill að síðan þessari umræðu lauk í fyrra og þar til nú hefur henni tekist að þrýsta svo mikið á að hún er orðin aðaltekjuaðilinn að þessu happdrætti.

Það er kannske óþarfi að minna menn á hvað margar líknarhreyfingar standa utan við möguleikann á því að njóta góðs af tekjum þessa happdrættis. Og maður spyr æ ofan í æ: Hvers vegna mega þær ekki vera með? Hvers vegna mega þær ekki njóta góðs? Að mínu mati ættu öll þau félög og fyrirtæki sem starfa að líknarmálum hér á landi að eiga jafnan rétt til að vera aðilar að þessu happdrætti og sá réttur ætti að koma þannig fram að hann skerti ekki rétt þeirra líknarmálahreyfinga sem nú er tekið tillit til í frv. heldur ætti að skerða rétt íþróttahreyfingarinnar.

Hv. 5. landsk. þm. hefur skýrt hvers vegna þessi réttindi voru upphaflega viðurkennd í 2. gr. frv., sem samþykkt var, um getraunir. Ég tel að atburðarásin hafi sannað þessa fullyrðingu og þessa skýringu einfaldlega vegna þess að íþróttahreyfingunni hefur aldrei dottið í hug að nýta sér þennan rétt. Það er ekki fyrr en aðrir aðilar fá áhuga á því að hún rís upp og ver rétt sinn, viðurkenndan með lögum, en rétt sem hún hefur ekki talið nauðsyn á að nýta hingað til.

Ég vil biðja þann hæstv. ráðh. sem fyrir þessu stendur og flytur það hér lengstra orða að gefa mönnum aðeins meiri tíma, hafa eilítið meiri biðlund, sýna þeim, sem í hlut eiga og þeim líka sem enn þá eiga ekki hlut að, meiri skilning og víðsýni. Það samræmist einhvern veginn ekki þeim vinnubrögðum sem menn, alla vega í orði kveðnu stefna að, að veita einhverjum sérstökum aðilum svona mikil forréttindi og skilja aðra nánast eftir úti á köldum klaka. Menn skyldu líka, sérstaklega þeir sem sitja í ráðherrastólum, hugleiða að með aðgerðum sem slíkum skuldbinda þeir sig ekki lítið gagnvart þeim sem ekki fá notið þessara tekna því að ekki einasta fá þeir ekki notið þessara tekna heldur er nánast girt fyrir aðra möguleika þeirra til tekna. Það vita allir sem vilja vita að þessi tegund happdrættis er einhver drýgsta tekjulind í þessari tegund verslunar sem um ræðir í öllum löndum þar sem hún er til. Þess vegna skora ég á hæstv. ráðh. að sjá til þess að þessu máli verði frestað um sinn. Það var hægt að fresta því í fyrra þegar miklir hagsmunir voru taldir vera í húfi. Það eru enn þá miklir hagsmunir í húfi. Þess vegna tel ég að það sé enn þá hægt að fresta því um sinn og leitast við að fá samstöðu þeirra hreyfinga og fyrirtækja sem starfa að líknarmálum, a.m.k. þó að ekki væri nema að bjóða þeim aðild að þessu happdrætti. Ef þeir ekki vilja er það þeirra ákvörðun og á þeirra ábyrgð, en vilji þeir það ætti að sjá til þess með samningum að þeir nái sanngjarnri hlutdeild. Ég tel að menn verði ekki minni menn fyrir að reyna slíka leið því að ég get ekki séð annað en að með því að knýja á samþykkt þessa frv. sé líka verið að reka á mjög leiðinlegan hátt fleyg í þá samstöðu líknarstarfs hér á landi sem þó hefur verið fyrir hendi og etja mönnum upp hverjum á móti öðrum því að þeir sem út undan verða horfa náttúrlega á þessa gífurlegu mismunun.

Ég mun víst hafa minnst á það í gær að í dönsku stjórnarskrána okkar vantaði þá mikilvægu grein að allir væru jafnir fyrir lögum, en ég tel nú og taldi að þetta hefði almennt frést hingað upp til Íslands. Mér finnst aftur á móti að löggjöf sem hér er verið að knýja fram með þessum hætti sé þvert á anda slíkrar hugsunar og ég tel að þó að hún mæti e.t.v. skilningi hjá einhverjum þrýstihópum og hagsmunaaðilum, sem stjórnmálaflokkar binda trúss sitt við og telja nauðsynlega mjög, sérstaklega á dögum kosningabaráttu, sé það þegar til lengdar lætur mjög óheppilegt að láta störf sín ráðast af slíkum stundarhagsmunum. Ég vil þess vegna eindregið fara fram á það við hæstv. ráðh. að hann hlutist til um að þessu máli verði frestað til næsta þings og þess verði freistað að ná samstöðu allra þeirra líknarfélaga sem með sanngjörnum hætti eiga rétt á því, sjálfsagðan rétt, alveg jafnmikinn rétt og þau líknarfélög sem hér þegar um ræðir að ég tali ekki um íþróttahreyfinguna sem ég tel að eigi í þessu tilviki annaðhvort réttinn allan eða engan.

Ég vil þar með, frú forseti, ljúka máli mínu, en ég vil samt sem áður áður en ég lýk því minna hæstv. ráðh. á að það eru engin rök komin fram í þessu máli sem sannfæra mann um að viðkomandi aðilar eigi rétt umfram aðra á aðild að þessu talnagetraunahappdrætti, ekki nema þá að menn viðurkenni einfaldlega að íþróttahreyfingin eigi réttinn allan eða engan. Í öðru lagi endurtek ég enn áskorun mína til hæstv. ráðh. um að hann hlutist til um að fresta þessu máli þannig að hægt sé að ljúka því á næsta þingi með þeim farsæla hætti að veita öðrum líknarfélögum aðild að þessu happdrætti.