18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4077 í B-deild Alþingistíðinda. (3744)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. meiri hl. (Jón Sveinsson):

Hæstv. forseti. Landbn. hefur fjallað um það mál sem hér um ræðir, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, og mæli ég fyrir meirihlutaáliti nefndarinnar.

Nefndin hefur rætt málið á fundum sínum, eins og fram kemur í nál. Til viðtals við nefndina kom Guðmundur Sigþórsson frá landbrn. Nefndarmenn urðu ekki sammála um afgreiðslu frv., en meiri hl. leggur til að það verði samþykkt með þeirri breytingu sem flutt er á sérstöku þskj., þskj. 897, og dreift hefur verið hér í Ed.

Um þetta mál er það að segja að við samningu frv. voru kartöflur sérstaklega hafðar í huga. Heimildin skv. upphaflegu frv. er því óþarflega rúm, enda ekki ætlunin að breyta lögunum gagnvart búvörum almennt. Þetta hefur í raun fengist staðfest með yfirlýsingum formanna beggja stjórnarflokkanna þar sem þetta mál hefur nokkuð borið á góma í fjölmiðlum að undanförnu. Fullt samkomulag hefur nú orðið um að breyta orðalagi 1. gr. í þá veru sem brtt. meiri hl. nefndarinnar gerir ráð fyrir og nefna í því sambandi kartöflur eingöngu í stað búvara. Fer því ekki milli mála við hvað er átt.

Meginmálið er hins vegar að frv. veitir innlendum kartöflubændum vernd gagnvart innfluttri framleiðslu. Vísast í þessu efni til grg. með frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Vegna náttúrufars og legu landsins er ekki unnt að tryggja nægjanlegt vöruframboð allt árið á vissum tegundum búvara, t.d. garðávöxtum, grænmeti og oft kartöflum. Verður því að flytja þessar vörur inn, en í ýmsum tilvikum eru hinar erlendu vörur greiddar niður verulega af þarlendum stjórnvöldum. Þegar innlend framleiðsla er enn á markaði raskar innflutningur þessara vara því mjög samkeppnisaðstöðu innlendu framleiðslunnar og skerðir möguleika innlendra framleiðenda til að tryggja nægjanlegt vöruframboð í framtíðinni. Þessar aðstæður hafa m.a. gert þeim innlendu fyrirtækjum sem vinna úr kartöflum erfitt fyrir í samkeppni við niðurgreidda framleiðslu erlendis frá.“

Eins og ég nefndi áðan er það kjarni málsins sem getið er um í athugasemdum með frv. Því leggur meiri hl. landbn. til að það verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég gat um hér á undan.

Undir nál. skrifa þeir Egill Jónsson, formaður, Eyjólfur Konráð Jónsson, fundaskrifari, Jón Sveinsson, Skúli Alexandersson og Þorv. Garðar Kristjánsson.