18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4078 í B-deild Alþingistíðinda. (3745)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Frsm. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hl. landbn. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Minnl hl. nefndarinnar er andvígur frv. af eftirgreindum ástæðum:

Sú breyting, sem lögð er til í frv., verndar ekki hag framleiðenda. Þeir njóta nú þegar verndar vegna þess að innflutningur á grænmeti og garðávöxtum er ekki heimill meðan nægilegt framboð er af innlendri framleiðslu. Varðandi kartöflur er um að ræða mjög stutt tímabil þegar innlend framleiðsla og erlend eru samtímis á markaðnum og þess vegna ekki þörf þeirrar verndar sem frv. gerir ráð fyrir.

Þá er minni hl. nefndarinnar andvígur því að samþykkja svo víðtækt framsal skattlagningarvalds frá Alþingi til ráðherra. Vafasamt getur raunar verið hvort slíkt er heimilt miðað við ákvæði stjórnarskrárinnar.

Enn fremur skal sérstaklega varað við því víðtæka ákvæði frv. að umræddan skatt megi leggja á vörur unnar úr kartöflum. Þar er um að ræða mjög margar vörutegundir og fráleitt að geðþótti ráðherra eigi að ráða því á hvaða verði neytendur þurfi að kaupa þær vörur, sem og aðrar vörur.

Samþykkt frv. leiðir til hækkunar til neytenda á þeim vörutegundum sem frv. tekur til. Því mun minni hl. nefndarinnar greiða atkvæði gegn frv.“

Undir nál. skrifar ásamt mér hv. þm. Eiður Guðnason.

Það kom fram hjá frsm. meiri hl. landbn. að hér væri um verndun að ræða og nefndi hann sérstaklega unnar vörur úr kartöflum. Þetta mál er tvenns konar. Annars vegar er innflutningur á óunnum kartöflum og hins vegar innflutningur á steiktum eða unnum kartöflum. Það hefur ekki komið mjög skýrt fram í nefndinni hvernig þessu ákvæði verður beitt. Mér finnst mjög mikilsvert að það komi skýrt fram hvort hér er ætlast til að allt að 200% tollur verði lagður á innfluttar kartöflur meðan innlend framleiðsla annar ekki eftirspurn og þar með hækki kartöfluverð yfir allan sumartímann þegar innienda framleiðslan nær ekki því magni sem neytt er eða hvort hér er um að ræða ákvæði sem á að nota eingöngu á innfluttar unnar kartöflur. Þetta finnst mér vera mjög mikið atriði.

Í grg. er talað um meira en kartöflur. Þar er talað um grænmeti líka. Mig rekur minni til þess að í síðustu kjarasamningum var sérstakt ákvæði um að lækka tolla á grænmeti, en þar voru ekki sérstaklega undanteknar kartöflur. Er þá ekki þessi löggjöf brot á þeim kjarasamningum sem ríkisstj. stendur að?

Ég vil áður en ég tjái mig mjög mikið um þetta mál fá það greinilega fram hvernig á að nota þetta vald og hvort ekki hafi komið til greina, ef þetta er eingöngu hugsað til að vernda unnar kartöflur, að vernda einungis framleiðslu frá þeim tveim verksmiðjum sem framleiða slíka vöru hér á landi og hvort ekki hafi komið til tals að flytja inn hæfara hráefni til steikingar í þeim verksmiðjum. Þeir sem eitthvað þekkja til mála vita að það er ekki sama varan sem unnin er úr mjög blautum innlendum kartöflum eða mjölmiklum erlendum kartöflum. Þær innlendu þurfa lengri steikingartíma. Þess vegna hækkar vöruverð til neytenda. T.d. munu hótel kaupa inn enn þá erlendar kartöflur höfum við ekki sambærilega vöru á markaðnum.

Það er engin goðgá að flytja inn kartöflur t.d. yfir 60 mm að stærð til kartöfluverksmiðjanna yfir allt árið vegna þess að þá mundi verða meira til af kartöflum til neyslu innanlands og lengdist því tíminn sem innlendar kartöflur væru á markaðnum. Það er mjög sjaldan sem innlend framleiðsla nær saman, þ.e. að uppskera frá síðasta ári nægi þar til ný uppskera er tilbúin á markaðinn.

Svo er líka eitt atriði í þessu að ef, eins og ákvæði laganna segja til um, þarna geti orðið um jafnaðarverð að ræða, ef jafnaðartollur er settur á innflutning, munu menn ekki reyna að ná hagstæðum innkaupum á kartöflum erlendis því að eftir því sem kartöfluverðið verður lægra, eftir því verður tollurinn hærri.

Það eru mörg atriði í þessu sem eru svo óljós að það er ekki nokkur hemja að samþykkja slíkt frv. án þess að þau verði skýrð, hvorki fyrir stjórnarsinna eða stjórnarandstöðu. Ég hef spurt nokkuð marga og beðið þá að skýra þetta út fyrir mér og hef komist að því að þeir vita ekki mikið um hvað málið snýst. Þannig hefði ég viljað að hæstv. ráðh. kæmi í ræðustól og útskýrði málið nánar.