18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4079 í B-deild Alþingistíðinda. (3746)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Hv. 8. landsk. þm. beindi til mín spurningum um hvernig þetta yrði framkvæmt, hvort skv. þessu frv. yrði eingöngu um ræða unnar vörur. Svo er alls ekki. Meðan Grænmetisverslun landbúnaðarins sá algerlega um innflutning var það gjarnan svo að þegar fóru að minnka birgðir innanlands og þurfti að flytja inn, sem var á fyrri árum misjafnlega mikið að vísu, verðjafnaði hún á milli þeirra þannig að allir sem keyptu innlendar eða erlendar kartöflur greiddu þær á sama verði. Eins og við vitum árar misjafnlega milli landshluta. Stundum voru til nægar kartöflur fyrir norðan sem mundu endast út árið þar, ef þær væru ekki fluttar í burtu, en hins vegar yrði dýrara að flytja þær hingað til Reykjavíkur og svo aftur aðrar inn fyrir norðan.

Ef ekki væri til verðjöfnunarheimild, eins og er ekki í núgildandi lögum, þýddi það að þegar vel árar fyrir norðan og næg kartöfluuppskera væri fyrir Norðlendinga allt árið yrðu þeir að borða miklu dýrari kartöflur en Sunnlendingar sem gætu þá flutt inn ódýrari vörur erlendis frá. Það er til að koma í veg fyrir þessa mismunun, sem þarna er um að ræða, að óskað er eftir þessu lagaákvæði.

Hv. 8. landsk. þm. sagði einnig að það mætti flytja inn kartöflur til verksmiðjanna erlendis frá allt árið. Vissulega er það möguleiki, en þá nýtist ekki innlend framleiðsla. Það er einmitt það sem þessum lögum er ætlað að gera, að tryggja nýtingu hennar. Það er stutt síðan kartöfluframleiðendur urðu að henda mjög miklum birgðum óseldum þegar nýja uppskeran kom. Ég þori ekki að segja um hvernig verður á þessu ári, en ég hygg að það muni ekki skorta mikið á að framleiðslan nýtist þangað til ný uppskera kemur á markaðinn í sumar. Þá væri það andstætt hagsmunum framleiðenda að vera að flytja inn kartöflur allt árið erlendis frá og koma í veg fyrir að þeir kæmu sínum á markað.

Þetta er með örfáum orðum dæmi sem ætti að skýra tilgang frv.