18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4086 í B-deild Alþingistíðinda. (3749)

396. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til umræðu felur í sér heimild til álagningar sérstaks gjalds á innfluttar kartöflur eins og frv. er orðið eftir á breytingu sem fyrirhuguð er á því við þessa umræðu. Ég lýsti því yfir við 1. umr. að ég liti svo á að hér væri um verndartolI að ræða og þar sem flokkur minn er þeirrar skoðunar að verndartollar geti átt fyllsta rétt á sér í sérstökum tilvikum, þegar sérstaklega er á þeim þörf og þegar heimilt er að leggja þá á samkvæmt alþjóðlegum viðskiptasamningum, teljum við að fyllilega sé réttlætanlegt að grípa til slíkra aðgerða í tilviki eins og þessu.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á að í umræðum um þetta mál hafa menn stundum verið að rugla saman samningum okkar við Efnahagsbandalagið eða við EFTA, rugla saman umræðum um viðskiptafrelsi með iðnaðarvörur, sem orðið er meginregla í samskiptum þjóða Vestur-Evrópu, og svo hins vegar viðskiptum með landbúnaðarvörur, en um þær gilda allt aðrar reglur. Það þýðir ekkert að mæta máli af þessu tagi með spurningunni um hvort við mundum kæra okkur um að settur væri tollur á einhvern iðnaðarvarning sem við værum að flytja til annars lands. Við vitum ósköp einfaldlega að það er ekki heimilt, hvorki af okkar hálfu né af hálfu viðskiptaþjóða okkar vegna samninga, en það sama gildir ekki um landbúnaðarvörurnar. Landbúnaðarvörurnar falla undir allt annað kerfi. Þessu má alls ekki rugla saman, hvað þá að beita samningum um EFTA og Efnahagsbandalag sem einhverjum rökum í þessu samhengi.

En það er eitt atriði sem ég tel að hafi kannske ekki komið alveg nægilega ljóslega fram í þessari umræðu. Hv. 8. landsk. þm. Kolbrún Jónsdóttir bar fram þá spurningu til landbrh. í upphafi umræðunnar hvort hugsanlegt væri að lagaheimild þessi yrði notuð í því tilviki þegar innlend framleiðsla væri ekki fyrir hendi, t.d. að sumarlagi. Ég sé ástæðu til að ítreka þessa spurningu. Ég held að landbrh. ætti að gefa sér tóm til að svara henni því að hún skiptir verulegu máli. Er hugsanlegt að þetta gjald yrði lagt á innfluttar kartöflur undir þeim kringumstæðum að landið væri kartöflulaust, það væri engin innlend framleiðsla fyrir hendi? Þá væri ekki lengur um að ræða verndartoll, þá er ekki verið að vernda íslensku framleiðsluna. Þá væri með fullum rétti hægt að segja að verið væri að hækka vöruverð innanlands og skerða hag neytenda verulega frá því sem væri ef gjaldið væri ekki lagt á. Mér finnst að hæstv. ráðh. þurfi að svara þessari spurningu. Ég vænti þess fastlega að hann svari henni neitandi og hef alltaf gengið út frá því, eins og ég hef gert hér grein fyrir, að þetta sé verndartollur og hann sé einungis lagður á undir þeim kringumstæðum að verið sé að verja íslenska framleiðslu. Ég segi fyrir mig að viðhorf mitt til frv. mundi kannske eitthvað breytast ef hætta gæti verið á því að heimild af þessu tagi væri notuð þegar ekki væri um neina íslenska framleiðslu að ræða sem þyrfti að verja.

Ég er því almennt hlynntur að heimild af þessu tagi sé veitt til verndar íslenskri framleiðslu, tel nokkur rök fyrir því að svo verði að gera þó að ég viðurkenni vissulega það, sem kom fram hjá 1. þm. Reykv., að heimildin er nokkuð víðtæk og getur því verið spurning hversu langt á að ganga í því að Alþingi veiti ráðherrum heimildir af þessu tagi. En það eru mörg fordæmi af þessu tagi í löggjöfinni. Ég gæti t.d. nefnt löggjöfina um þungaskattinn sem dæmi eða gjaldið sem var lagt á innflutt einingahús svo að maður nefni annað dæmi. Það má tína út úr löggjöfinni fjöldamörg dæmi af þessu tagi þar sem löggjafinn hefur veitt ráðherra vald til að leggja gjöld á í sérstökum afmörkuðum tilgangi. Mér sýnist á öllu að þó að nokkuð langt sé gengið verði það að teljast réttlætanlegt í þessu sérstaka tilviki. En vissulega er varhugavert að þetta yrði mjög víðtæk regla.

En ég stóð sérstaklega upp til að óska eftir því að ráðherra svaraði spurningu hv. 8. landsk. þm. sem mér fannst að ekki hefði verið nægilega greinilega svarað.