06.11.1985
Efri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

108. mál, Jarðboranir hf.

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka það fram að ég átti von á því eins og hv. 4. þm. Vesturl. að fá að fjalla um málið í iðnn., en ég geri engan ágreining um það, enda lítt til þess bær býst ég við, hvort því er vísað til iðnn. eða fjh.- og viðskn.

Ég vildi þá fyrst taka undir þetta mál. Ég tel að það sé skref í rétta átt. Að því leyti get ég ekki verið sammála hv. 9. þm. Reykv. Málið er vissulega skref í rétta átt þó ef til vill sé skrefið óþarflega stutt.

Af þessu máli fengum við sumir pata í fyrravor, að það væri á döfinni. - Sumir að minnsta kosti. Ég veit ekki um alla. - Það kom upp einhver draugagangur í kringum það. Ég fagna því vissulega að þeir draugar virðast nú hafa verið kveðnir niður með kraftakveðskap, býst ég við.

Þær áhyggjur sem heyrðust í fyrravor í þessu sambandi voru fyrst og fremst þær að hin litlu og vanmáttugu sveitarfélög mundu verða afskipt og ættu lítinn kost á þátttöku í þessu væntanlega fyrirtæki. Nú virðist þeim áhyggjum, að nokkru a.m.k., rutt úr vegi ef lesið er yfir bréf frá Sambandi íslenskra hitaveitna sem fylgir hér með sem fylgiskjal og reyndar sú bókun sem gerð hefur verið sameiginlega milli iðnrh. og borgarstjórans í Reykjavík.

Fyrst málið ekki kemur til iðnn. voru einstök atriði sem ég hefði viljað nefna í sambandi við frv. Mér finnst það nokkur galli í 4. gr. að enn sé verið að tala um að bæta við undanþágum frá söluskatti með lögum. Mér finnst líka gott að fá upplýst, án þess að ég biðji þar um ákveðnar tölur, hvað eðlilegur arður af hlutafé er samkvæmt 5. gr. Eins get ég ekki annað en tekið undir það með hv. þm. Skúla Alexanderssyni, og telja sjálfsagt ýmsir að nú gerist menn allmjög sammála, að mér finnst allóvanalegt að sjá þessar bakdagsetningar dálítið aftur í tímann. Ég veit ekki hversu algengt það er í lagasmíðum.

En að öðru leyti tek ég undir meginefni frv. og fagna því að þessir draugar hafa verið kveðnir niður. Mér dettur í hug í því sambandi að hugsanlega megi kveða niður reimleika sem komu upp í sambandi við Sementsverksmiðju ríkisins í fyrravor.