18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4101 í B-deild Alþingistíðinda. (3771)

228. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hér er um að ræða gamlan kunningja okkar í þessari hv. deild, þ.e. breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands þannig að heimild bankans til að binda innstæður verði lækkuð úr 28% niður í 10%.

Þetta frv. var flutt í fyrra en féll þá á jöfnum atkvæðum hér í þessari hv. deild. Það er nú endurflutt og er óbreytt. Ég held að ástæðulaust sé að rekja efni þess frekar, það þekkja það allir, vita hvað um er hér að ræða.

Undir nál. meiri hl., sem mælir með samþykkt frv., skrifa auk mín Eiður Guðnason, Valdimar Indriðason, Ragnar Arnalds og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Jón Kristjánsson skilar minnihlutaáliti og mun gera grein fyrir því hér.

Það kann einhverjum að finnast það einkennilegt að tvö frv. um Seðlabanka Íslands skuli vera til umræðu hér í dag, þegar hafi verið mælt fyrir stjfrv. og því vísað til nefndar en engu að síður skuli þetta mál vera hér til umræðu. Það er alls ekkert skrýtið við það. Í fyrsta lagi eiga hin nýju lög - þótt að lögum yrðu sem maður veit auðvitað ekki - ekki að taka gildi fyrr en 1. nóv. n.k., eins og hæstv. viðskrh. greindi frá. En að mínu mati og fleiri er brýn þörf á að losa um fé í Seðlabankanum fyrir þann tíma. Þar að auki er ekkert við það að athuga að þessi hv. nefnd láti sitt álit í ljós og sinn vilja að því er þetta efni varðar og að hann komi fram við atkvæðagreiðslu.

Ég veit ekki hvort þetta mál verður til atkvæða hér aftur, hvort það komi nokkuð til 3. umr. Það skýrist væntanlega á fundum á morgun og núna um helgina því að ég hef þegar boðað bankastjóra Seðlabanka og allra hinna ríkisbankanna, viðskiptabankanna, allra hlutafélagabankanna og fulltrúa sparisjóðasambandsins til funda sem haldnir verða strax í fyrramálið eins og tími leyfir þar til deildafundir byrja og öll þessi mál skýrast. Þar liggja bæði þessi mál fyrir til umræðu við þessa menn sem kunnugastir eru bankakerfinu og þar gera hv. nefndarmenn í hv. fjh.- og viðskn. upp sinn hug. En hugmynd mín er að reyna að vinna um helgina eins og kostur er við þessi mikilvægu mál.

Þegar er komið í ljós, eins og hæstv. ráðh. greindi frá, að málið þarf að fara aftur til Nd. Það var villa í 8. gr., þeirri sem einmitt fjallar um bindiskylduna. Hann hefur þegar flutt brtt. svo að málið er alveg að komast í eindaga.

Úr því að ekkert mál var hér, sem hægt var að taka fyrir, féllst ég á að mæla fyrir þessu áliti nú, hvort sem það verður tekið til atkvæða nú eða á morgun. Ég hafði tilkynnt forseta að ég vildi að önnur mál gengju fyrir og sérstaklega þá hitt seðlabankamálið og ég gæti þá frestað umræðu. En úr því að tíminn var ekki notaður til annars féllst ég á að mæla fyrir frv. en legg enga áherslu á að það gangi til atkvæða fyrr en á morgun ef svo vill verkast.