18.04.1986
Efri deild: 79. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4102 í B-deild Alþingistíðinda. (3773)

413. mál, þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur haft mál þetta til skoðunar og leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt. Undir nál. skrifa Eyjólfur Konráð Jónsson, Eiður Guðnason, Ragnar Arnalds með fyrirvara, Egill Jónsson, Sturla Böðvarsson og Jón Kristjánsson.

Menn þekkja víst þetta mál það vel að ekki er þörf á að fara um það mörgum orðum. Auðvitað orkar það tvímælis með hvaða hætti á að afla þess fjár sem frv. gerir ráð fyrir. Hitt orkar ekki tvímælis að mínu mati að þjóðarbókhlöðuna verði að klára og það sem allra fyrst. Það megi ekki dragast lengur. Það er ekki vansalaust hve lengi hefur dregist að ljúka þessari byggingu.

Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um það hvernig fjár mætti afla. Ég hef t.d. gert það að tillögu minni oftar en einu sinni að útvarpshúsið yrði selt og fjármunirnir notaðir til að ljúka þjóðarbókhlöðu. Sumir hafa kannske haldið að það væri í hálfkæringi flutt það mál af minni hálfu. Svo er ekki. Ég tel að það sé ekki útvarpinu til hagsbóta að flytja inn í þessa byggingu, a.m.k. ekki sjónvarpinu, og gífurlega dýrt. Hins vegar megi hagnýta þetta hús með ágætum til ýmiss konar annarrar starfrækslu. Og úr því að kartöflurnar voru hér á dagskrá, þá er það alls ekkert fráleitt að nota þennan gífurlega stóra leiðslukjallara sem kartöflugeymslu og jafnvel grænmetissölu, og sú tillaga er ekki borin fram í neinum hálfkæringi. Það gæti verið ágætt að koma upp öflugum grænmetismarkaði í þessu húsi. Þar að auki vita menn að ýmiss konar verkstæði og verksmiðjur eru oftast gluggalausar og þarna er hægt að hafa góða loftræstingu. Í næsta nágrenni er svo líka að rísa stærsta verslunarbyggingarsamstæða hér á landi og vafalaust væri hægt að hagnýta þennan stóra kjallara sem vörugeymslur fyrir það. Og hæðirnar, sem risnar eru ofan á þessum gífurlega kjallara, má nota til margháttaðra hluta ef menn ekki vilja nota þær sem íbúðir, sem a.m.k. gætu verið hundrað ágætis íbúðir, þá má auðvitað nota þetta fyrir skrifstofur t.d., ýmiss konar handverk o.s.frv.

En það er sem sagt ekki vilji að selja það hús heldur á að neyða sjónvarpið, að manni skilst, til að flytja í það með gífurlegum kostnaði og þess vegna er lögð hér til önnur fjáröflunarleið. Ég skal játa það að hún orkar nokkuð tvímælis. Engu að síður er algjör nauðsyn að hraða framkvæmdum við Þjóðarbókhlöðu og þjóðarskömm að gera það ekki. Þess vegna styð ég þetta frv. einlæglega og við sem að nál. stöndum.